Hamingjan fyrir mér er sorg, hræðsla, ótti, kvíði og stress. Þetta er allt partur af minni hamingju.
Þegar ég byrjaði að leita markvisst að hamingjunni hélt ég að ég myndi finna hana og halda henni. En það er ekki þannig og mun ekki verða þannig. Rétt í þessu gekk ég í gegnum mikla sorg og grét mig í gegnum það. Á sama tíma hringdi vinur minn í mig og talaði við mig um tilfinningarnar sem ég var að ganga í gegnum. Á endanum var þetta algjör hamingja – að finna út hvað ég var að ganga í gegnum og hvað ég þarf að vinna úr.
Hamingjan fyrir mér er einnig að finna það sem ég hef gaman af að gera og gera það. Í gær langaði mig að fara í sjósund og hringdi í vinkonu mína. Hún komst ekki með mér og það hafði ekki neitt með mig að gera, heldur var hún upptekin. Þannig ég hélt áfram að reyna að finna mér leikfélaga og náði í vin minn sem býr rétt hjá mér, eða uppi í Heiðmörk. Við ákváðum að fara að synda í Elliðavatni, þannig ég tók hjólið mitt og brunaði af stað með góða möntru spilandi í eyrunum. Ég brosti og hló ein með sjálfri mér, ég var svo spennt að hitta vin minn og fara að vekja líkama minn í kalda vatninu.
Þegar ég kom til vinar míns var hann allsber í gúmmístígvélum að fara að smúla þakið sitt. Ég var svo glöð í hjarta mínu að sjá hvað ég á frjálsa vini sem eru algjörlega tengdir náttúrunni í sjálfum sér. Ég elska líka að vera nakin þannig að þegar ég sá að hann er í sínu flæði, og ég elska að fólk fái að vera í sínu flæði, ákvað ég að kalla ekki í hann strax heldur lagðist ég í grasið, reif mig úr fötunum og slakaði á. Þegar ég sá að hann var að koma niður kallaði ég á hann og við fórum að tala saman um mjög djúpa hluti, sem gerði það að verkum að ég grét úr þakklæti fyrir að fá að vaxa á sálinni. Ég leyfði mér að finna sálarvöxtinn og var fullnægð með að fá að vera hluti af náttúrunni og fyrir að vera í takt við sjálfa mig tilfinningalega.
„...lagðist ég í grasið, reif mig úr fötunum og slakaði á.“
Ég elska að finna að hamingjan er ekki eins og amerísk bíómynd, klippt til og með tónlist undir, heldur er hamingjan mín að fá að vera í ró með sjálfri mér og að fá að vera ég sjálf. Hamingjan er að finna náttúruna sína og fá að fylgja henni. Það er óþægilegt að heyra ekki í sjálfri sér fyrir áliti annarra, hvað þá að þora ekki að vera maður sjálfur af hræðslu við álit annarra. Ég er ekki að segja að ég verði aldrei hrædd, heldur læt ég hræðsluna ekki stoppa mig í að vera ég sjálf og eltast við það sem veitir mér gleði.
Áður fyrr leitaði ég út fyrir mig að hamingjunni. Ég skoðaði lífið og hélt að titlar og hlutir gætu veitt mér hamingju. Síðar fann ég að þessir hlutir fullnægðu mér ekki og veittu mér ekki andlega fyllingu.
Ég er hætt að bjóða sjálfri mér upp á að vera í samböndum sem mér líður ekki vel í og ef mér líður illa í aðstæðum þá tek ég mig strax úr þeim. Þannig líður mér vel hvert sem ég fer, ég er örugg í eigin skinni og veit að ef mér líður illa þá hef ég val um að fara eitthvað annað.
Ég vek sjálfa mig á morgnana með fallegu sjálfstali. „Góðan daginn, fallega hjartablóm“, segi ég, „þú ert falleg og ég elska þig“. Svona hef ég vanið mig á að tala við sjálfa mig til að halda orkunni gangandi allan daginn. Ég beiti sjálfa mig ekki ofbeldi og myndi til dæmis aldrei segja: „Drullaðu þér á fætur, letibikkja!“ Ég bæli heldur ekki niður tilfinningar sem leyfa mér að gráta eða hlæja mikið. Ég nýt þess að vera tilfinningavera og að finna fyrir því sem ég er að ganga í gegnum.
Hamingjan mín snýst því um að leyfa öllum tilfinningum að njóta sín og leyfa þeim að streyma í gegn. Ekkert varir að eilífu og ég er þakklát fyrir allar tilfinningar, því þær veita mér hamingju.
Ég elska að vera eins og ég er og að leyfa mér að vera skrítin á allan hátt. Enska orðið „weird“, eða skrítinn, er dregið af orðinu „wizard“, sem merkir galdramaður, og ég tel mig geta galdrað mikið með því að vera meðvituð um hvert ég beini orkunni minni, hvaða orku ég gef athygli og hvað það er sem ég kalla yfir mig.
Það er undir mér sjálfri komið að ákveða hvað ég vil mikla hamingju í lífinu, því það er alltaf val. Ég get valið mér að vera hamingjusöm og ég get valið að vera fórnarlamb. Ég vel hamingjuna. Ég sé hamingjuna mína í erfiðum tilfinningum, sem eru oft ekki flokkaðar undir hamingju, en þær ýta undir það að ég sé heil – og það veitir mér hamingju.
Athugasemdir