Þessa dagana er ég staddur í umhverfi sem tryggir manni nær fullkomna hugarró. Í stað þess að vera heltekinn og innblásinn af heimsmálunum einbeiti ég mér að smáatriðum.
Fyrstu vikuna mína sem skálavörður Ferðafélags Íslands í Norðurfirði átti ég fullt í fangi með að trappa mig niður frá æsingi stórborgarinnar sem er þó svo smá á heimsvísu. Ég þurfti að aðlagast því að vera ekki stöðugt í kapphlaupi við tímann. Smám saman tókst þetta. Í réttu hlutfalli við vaxandi bændabrúnkuna færðist yfir mig rósemi þess sem veit að smáatriðin í lífinu skipta mestu. Í stað þess að hugsa um breiðþotur og allt þetta stóra í heiminum tók ég að horfa til smáfuglanna.
Smáfugl í árásarflugi
Undir dyrapallinum við útidyrnar var þrastahreiður. Hinum megin undir pallinum var hagamús sem gægðist öðru hvoru upp á milli rimlanna og lét sig jafnharðan hverfa. Á mæni gömlu hlöðunnar stóðu þrestirnir vörð um hreiður sitt. Þegar ég beygði mig niður að hreiðrinu komu þeir gjarnan í láréttu árásarflugi svo ég varð að beygja mig enn meira til að fá ekki beittan gogginn í hausinn. Þetta kenndi mér reyndar að vera ekki með nefið ofan í því sem mér kemur ekki við. Ég leyfði þrastarungunum að hafa það einkarými sem foreldrarnir töldu eðlilegt og ógnandi árásirnar hættu. Áður en vika var liðin hurfu ungarnir úr hreiðrinu. En músin er á sínum stað og gægist reglulega inn í mannheima. Ég stóðst ekki freistinguna og laumaði að henni brauðmola.
Bleikar nærbuxur
Það er í ýmsu að snúast í skálavörslunni þótt tóm gefist á milli til að klífa fjöll og skoða þessi litlu atriði lífsins sem manni yfirsést venjulega í hamagangi lífsins. Í gegnum lífið hef ég verið mild útgáfa af karlrembu. Það þýðir að á heimili mínu hef ég ekki skúrað, ryksugað eða þvegið þvott. Ég hef verið meira í að grilla og græða. Reyndar hef ég lagt mig eftir því að fara út með ruslið. Auðvitað er þetta engin hemja. Ég viðurkenni það. En jafnframt snýst þetta um traust. Mér hefur ekki verið treyst til að velja saman þvott sem þolir að vera þveginn á 60. Því veldur ein yfirsjón á síðustu öld sem gerði stóran hluta af taui heimilisins ýmist rauðan eða bleikan. Það var mér að kenna að allir þurftu að ganga í bleikum nærbuxum. En nú er runnið upp nýtt skeið í mínu lífi. Ég var kominn á eins konar námskeið.
Þvegið á 60
Skálavörður þarf að gera allt sem snýr að heimilishaldi. Hann þarf að þrífa salerni að innan sem utan. Hann þarf að skúra og ryksuga. Síðast en ekki síst þarf hann að geta þvegið þvott. Allar þessar áskoranir biðu mín þegar ég hélt einn í skálann og lét eiginkonunni eftir heimilið fyrir sunnan. Skúringar og almenn þrif gengu strax vel. Ég kom mér upp gulum hönskum og áttaði mig á því í hvaða röð átti að gera hlutina. Skynsamlegt var að þurrka fyrst af, ryksuga í framhaldinu og skúra svo. En þvottavélin, sem kom með vikulegu áætlunarferðinni að sunnan, vakti með mér kvíða. Eftir að hafa rýnt í leiðbeiningar og hringt nokkrum sinnum heim tók ég stökkið frá karlrembunni og yfir heim þess mjúka manns sem axlar sína ábyrgð. Ég valdi samviskusamlega í vélina og stillti á 30. Þar sem ég hengdi minn eigin þvott út á snúru fann ég sigurtilfinninguna streyma. Ég var á góðri leið með að drepa í mér karlrembuna. Næstu dagana þvoði ég á 30. Ég þorði ekki hærra, minnugur þess þegar ég breytti hvítu í bleikt. En á fimmta degi tók ég lokastökkið. Ég setti rúmföt og viskustykki í vélina og stillti á 60. Um tíma horfði ég inn um kýrauga þvottavélarinnar með kvíðablandinni tilhlökkun. Og þegar þvottinum lauk opnaði ég og komst að því að þvotturinn var með sínum upprunalit. Síðan hef ég tvisvar þvegið á 60 án þess að misstíga mig. Ég ræddi þetta mál við stelpurnar á kaffihúsinu. Þær skildu mig ekki þegar ég sagði að mér þætti mest gaman að þvo á 60 og reyndu að tala við mig um fótbolta. Mun Ísland tapa fyrir Englandi? Ég nennti ekki að tala um knattspyrnu. Ég reyndi líka að tala um þvottinn og tæknina í kaupfélaginu en náði ekki að tengjast neinum. Fólk vildi tala um annað. Ég var einn í þessum heimi.
Sagnaþulir
Þessi nýja veröld mín er stórfín. Í skálann kemur alls konar fólk, hver og einn með sitt sérkenni. Stundum eru allt að 30 manns í skálanum.
Þeirra á meðal var sjálfur skálavörðurinn á Hornbjargsvita, Halldór Hafdal Halldórsson. Þá er sögustund. Draugasögur, tröllasögur og fjallasögur renna fram eins og elfur á rigningardegi og hlátrasköllin rjúfa kyrrð Strandanna. Goðsagnir úr heimi fjalla og skála duttu óvænt inn og sagnaþulir náðu hæstu hæðum. Sumir fara með ljóð.
En stundum er enginn gestur. Þá gefst tóm til að íhuga tilveruna og gefa öllu þessu smáa gaum. Fegurðin blasir hvarvetna við. Suðandi fiskifluga í glugga er hluti af þessum heimi. Upp undir Urðartindi er gaggandi tófa. Lamb sem jarmar mjórri röddu í fjarska er gleðigjafi þangað til það kemur inn á tjaldstæðið og skilur eftir spörð sín. Fuglatístið í sólskininu gefur manni meiri gleðitilfinningu en Stuðmenn í Hörpu í sínu besta formi. Á morgun ætla ég að setja í vél og halda áfram að þvo af mér karlrembuna. Og hver veit nema ég setji upp gulu hanskana og renni yfir efri hæðina. Á meðan ég sit við eldhúsgluggann og skrifa þetta með útsýni yfir að Steinstúni syngur vindurinn dúett með brimi hafsins sem hamast í fjörunni. Það er svalt og hvasst. Á morgun kemur sólin aftur og þá taka fuglarnir og lömbin aftur við að syngja lífinu fagnaðaróð sinn.
Athugasemdir