Veröldin greip andann á lofti þegar Justin Trudeau, nýi forsætisráðherra Kanada, tók af skarið í haust og tilkynnti að 25.000 sýrlenskum flóttamönnum yrði boðið hæli í landinu fyrir febrúarlok 2016. Myndir af Trudeau að taka persónulega á móti flóttamönnum með faðmlögum, vetrarúlpum og broshýrum selfie-myndum bræddi heimsbyggðina í desember síðastliðnum. Þetta var hin fullkomna jólasaga. Á meðan Íslendingar engdust yfir langveikum börnum sem Útlendingastofnun vísaði úr landi í skjóli nætur voru kanadísk yfirvöld að dæla út tístum með myllumerkinu #welcometocanada. Þetta hjartnæma og vel heppnaða útspil kanadíska forsætisráðherrans yfirskyggði umdeilda ákvörðun hans um að hætta að taka við einstæðum karlmönnum á flótta. Eftir hryðjuverkin í París gáfu kanadísk yfirvöld nefnilega út þá yfirlýsingu að huga þyrfti betur að öryggi kanadískra þegna gagnvart hryðjuverkaógn. Liður í því væri að taka einungis við flóttamönnum sem væru fjölskyldufólk, konur eða börn. Í þessari ákvörðun felst hin glórulausa aðdróttun að allir ungir, einstæðir karlmenn frá Sýrlandi séu hugsanlegir hryðjuverkamenn og að réttlætanlegt sé að neita þeim um öruggt skjól sökum kyns.
Testósterón í umframmagni
Flóttamannaumræðan á Íslandi hefur ekki verið einsleit fremur en annars staðar og þrátt fyrir að þúsundir Íslendinga hafi boðist til að aðstoða flóttamenn eru einnig til andstæðingar þeirrar hugmyndar að opna landamærin fyrir stríðshrjáðu fólki. Í sumar gengu ljósmyndir af vöðvastæltum, húðflúruðum karlmönnum með arabískt yfirbragð manna á milli á fésbókinni ásamt íslamafóbískum ummælum um að sýrlenskir flóttamenn væru ýmist þrautþjálfaðir hryðjuverkamenn að villa á sér heimildir eða karlar sem skildu konur og börn eftir í Sýrlandi á meðan þeir björguðu eigin skinni. Myndirnar af flúruðu vöðvabúntunum reyndust falsaðar, enda augljós tilraun til að afvegaleiða umræðuna og ala á útlendingahatri. En kynjahallinn er þó engin ímyndun. Af þeirri rúmu milljón flóttamanna sem streymt hefur til Evrópu undanfarið ár eru karlmenn í miklum meirihluta. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum eru 58% af öllum flóttamönnunum sem komu til Evrópu á nýliðnu ári karlmenn, eða rúmlega þrefalt fleiri en konurnar, sem námu einungis 17%. Eftirstandandi 25% eru börn undir lögaldri, en þar virðast drengir líka vera í miklum meirihluta. Í Svíþjóð, því norræna landi sem hefur tekið á móti flestum flóttamönnum, voru 91% af ungmennum á aldrinum 13-18 sem komu einsömul til landsins árið 2015 piltar. Á Ítalíu, sem er algengur áfangastaður fyrir flóttamenn utan af Miðjarðarhafi, voru 75% karlmenn en konur einungis 14%.
„Af þeirri rúmu milljón flóttamanna sem streymt hefur til Evrópu undanfarið ár eru karlmenn í miklum meirihluta.“
Hvað varð þá um konurnar?
Samkvæmt upplýsingum frá flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna bitnar stríð einkar illa á konum og börnum, enda hafa þau almennt minna milli handanna, verða fremur fyrir stríðsglæpum á borð við nauðgun og eru verr í stakk búin til að verja sig. Flótti er dýr og það staðfesta ótal sögur af himinháu verði sem óprúttnir aðilar rukka fyrir að drekkhlaða báta af fólki og ýta þeim út á stórhættulegt hafið. Að múta embættismönnum kostar líka sitt, sem og vistir til að lifa ferðalagið af. Konur sitja þó ekki með hendur í skauti og bíða þess að láta lífið í stríðsátökum. Þvert á móti sýna tölur frá SÞ að af þeim 2,1 milljón sýrlenskra flóttamanna sem flúið hafa til Egyptalands, Írak, Jórdaníu og Líbanon undanfarin ár er kynjahlutfallið nokkurn veginn jafnt milli karla og kvenna. En konurnar verða eftir í Mið-Austurlöndum á meðan fjöldi karla heldur áfram til Evrópu. Hér er erfitt að fullyrða um ástæður, en ljóst er að ferðafrelsi kvenna er minna en karla og víða í Mið-Austurlöndum er konum hreinlega gert ókleift að ferðast án fylgdar karlmanns. Þá eru konur í meiri hættu á að verða seldar mansali af smyglurum sem þær leggja traust sitt á. Þá eru ungir karlmenn í meiri hættu á að vera neyddir til að ganga í herinn eða berjast með uppreisnarmönnum. Þess vegna ákveða sumar fjölskyldur að senda unga karla út í óvissuna fremur en konur, í von um að þeir geti sameinað fjölskylduna þegar þeir eru komnir í örugga höfn. Þetta er þó einungis hluti skýringarinnar, því innan við þriðjungur þeirra sem fengið hafa landvistarleyfi í Svíþjóð að undanförnu hafa hlotið hana á grundvelli fjölskyldusameiningar við flóttamenn, svo dæmi sé tekið. Ljóst er því að töluverður hluti þeirra ungu karla sem nú streymir til Evrópu eru einstæðingar. Kynjahallinn er þegar farinn að segja til sín, en í sumum aldurshópum í Svíþjóð eru karlmenn orðnir þúsundum fleiri en konur vegna snöggrar aukningar af völdum flóttamannastraumsins og stendur lífleg samfélagsumræða yfir um afleiðingar þess.
Hvaða áskoranir verða til þegar ungir karlmenn eru skyndilega orðnir markvert fleiri en ungar konur í samfélaginu?
Gerð verður tilraun til að varpa ljósi á þá spurningu í næsta pistli.
Athugasemdir