Ég var rétt að komast á unglingsárin þegar ég hitti hann fyrst, karlinn sem ógnar öryggi mínu.
Á fyrsta ári í unglingavinnunni var ég að reita arfa fyrir utan elliheimilið í hverfinu þegar hann kom að mér, hvítklæddur eins og hinir starfsmennirnir, dökkur yfirlitum, fullorðinn karlmaður, sem dró mig með sér afsíðis, í litla kompu á fyrstu hæðinni, þar sem hann beraði sig að neðan. Óttinn læddist upp með bakinu, vafði sér um hálsinn svo ég kom ekki upp orði, og hélt mér fastri.
Kannski hafði ég kynnst honum áður. Þegar strákarnir í skólanum urðu helteknir af brjóstum og því hver var með þau stærstu - eða minnstu. Inga, flöt eins og bringa, fékk að finna fyrir því.
Jafnvel fyrr. Ég man eftir mér á barnsaldri á harðahlaupum heim frá vinkonu minni þegar tekið var að rökkva, skíthrædd við stóru strákana. Fyrr um daginn hafði ég farið óhrædd um, skriðið undir skúrana, strítt bakaranum og stolist í strætó. Átta ára og áhyggjulaus, þar til myrkrið skall á. Um tíma vaknaði ég alltaf upp á nóttunni við sömu martröðina, karlinn sem stóð fyrir utan gluggann minn, í síðum frakka og með hatt á höfði sem huldi andlit hans, hann stóð þarna með hríðskotariffil og hleypti af.
„Öryggisleysið sem ég upplifði í æsku byggði á tilfinningu en ekki reynslu. Ómeðvituðum skilaboðum um að stelpur ættu að passa sig.“
Öryggisleysið sem ég upplifði í æsku byggði á tilfinningu en ekki reynslu. Ómeðvituðum skilaboðum um að stelpur ættu að passa sig. Ég vissi ekki einu sinni á hverju. Vonda kallinum.
Nítján ára mætti ég ógninni. Ég hafði farið út að skemmta mér með vinkonu minni. Við urðum viðskila en ég fór með vini mínum í partý. Þegar hann gerði sig líklegan til þess að fara lét húsráðandi mig vita að mér væri velkomið að vera áfram. Eitthvað í fari hans gerði það að verkum að ég fann aftur fyrir þessum lamandi ótta og vissi að ég yrði að koma mér þaðan. Ég veit ekki hvað það var, en ég var hrædd um að hann myndi nauðga mér. Svo ég fór. Ég fór með vini mínum, sem gerði það.
Vondi karlinn á sér enga eina birtingarmynd, hann er alls staðar og hvergi og þú veist aldrei hvort eða hvenær þú mætir honum. Stundum þekkir þú hann bara af góðu einu þar til hann snýst gegn þér. Stundum laðar hann þig til sín og brýtur á þér.
Veruleiki kvenna er þessi. Kynbundið ofbeldi ógnar lífi þeirra og heilsu. Ég var nýkomin inn á vinnumarkaðinn þegar það rann upp fyrir mér á starfsmannafundi að flestar konurnar sem þar sátu, allar nema ein, höfðu trúað mér fyrir því að þær höfðu einhvern tímann orðið fyrir kynbundnu ofbeldi. Misgrófu, en ofbeldi er í eðli sínu alvarlegt og engin ástæða til að gera lítið úr því. Um leið velti ég því fyrir mér hvar gerendurnir væru, því um þá var ekki talað. Hvort þeir sætu líka þarna við borðið.
Flestar vinkonur mínar, og þegar ég segi flestar á ég líklega við allar, hafa upplifað hlutgervingu, áreitni eða ofbeldi. Gripið í rass hér, smættun þar, nauðgun í heimahúsi, nauðgun á víðavangi. Kona mér kær var lokuð ofan í kjallara þar sem henni var misþyrmt og vinkona mín glímir við enn við afleiðingar þess að ofbeldismaður sparkaði í höfuðið á henni.
Í könnun frá árinu 2010 kom fram að 42% íslenskra kvenna hafi verið beittar ofbeldi, einhvern tímann frá sextán ára aldri. Árið 2015 leituðu 175 til Stígamóta vegna nauðgana, þar af ellefu vegna hópnauðguna og 13 vegna lyfjanauðgana. Sama ár dvöldu 126 konur í Kvennaathvarfinu, 50 með börn. Vandinn er víðtækari en tölurnar gefa til kynna því það leita sér ekki allir aðstoðar. Kynbundið ofbeldi er talið eitt megin heilbrigðisvandamál Vesturlanda. Það lifa það ekki allir af. Fyrir utan þá staðreynd að flestar konur sem eru myrtar á Íslandi eru myrtar af körlum.
Ofbeldi er niðurbrjótandi afl, sem elur á ótta og hatri og rænir þig trausti og trú, ekki aðeins á þig heldur líka umhverfi þitt. Ein á gangi í myrkrinu hef ég róað hugann, sem á það til að fyllast af myndum af myrtum konum úr afþreyingarefni þar sem aldrei neitt virðist gerast nema búið sé að myrða konu - já eða barn, með því að fara yfir tölfræðina og þekkinguna á þessum málaflokki, að flest brot eru framin í heimahúsi, af einhverjum sem þú þekkir eða hefur átt í samskiptum við. Staðreyndin er hins vegar sú að ógnin sem konur og ungar stúlkur upplifa einar á gangi í myrkrinu er raunveruleg. Ef þú veist að vondi kallinn leynist þarna úti en þú getur ekki vitað hvar eða í hverjum, hvernig getur þú þá verið örugg?
„Ógnin er þarna en ótti er lamandi tilfinning. Ótti rænir þig frelsinu, kraftinum og gleðinni. Við getum ekki lifað í ótta.“
Ógnin er þarna en ótti er lamandi tilfinning. Ótti rænir þig frelsinu, kraftinum og gleðinni. Við getum ekki lifað í ótta. Við getum ekki fallist á að það sé ásættanlegur veruleiki kvenna að vera hræddar, hika eða hætta við, að þær þurfi að passa sig. Við verðum að endurheimta almannarýmið, geta gengið um götur úti, einar að næturlagi, tekið pláss, látið í okkur heyra, reikular, sterkar, allskonar, hvernig sem er. Enginn á að komast upp með að ræna okkur öryggistilfinningunni.
Eina leiðin til að mæta því er með samstöðu um ást og virðingu. Samstöðu um að fylgjast með og veita hjálparhönd þegar einhver virðist vera í vanda. Staldra við og athuga hvort allt sé í lagi. Láta leiðindi ekki afskiptalaus eða horfa í gegnum fingur sér því gerandann þekkir þú af góðu. Samstöðu um að hér sé kerfi sem virkar, sem finnur týndar stelpur og refsar þeim sem stunda það að halda þeim innilokuðum og útúrdópuðum dögum saman til að hægt sé að misnota þær, að konur sem kæra mæti virðingu og réttlætið birtist í dómum sem falla.
Samstöðu um að karlar geti ekki og megi ekki taka sér vald yfir líkömum kvenna, hvorki til þess að skilgreina virði þeirra, upphefja sig á kostnað þeirra, misnota þær eða beita ofbeldi.
Við verðum frjálsar þegar samfélagið sameinast gegn ofbeldi.
Þegar við vitum að því verður mætt ef karl sem hreykir sér af því að grípa í píkur kvenna gegn vilja þeirra vill komast til valda, og honum verður ekki hampað heldur látinn axla ábyrgð. Að hann geti ekki tekið sér vald yfir líkömum kvenna í pólitískum tilgangi, og umkringdur körlum skert aðgengi kvenna að fóstureyðingum, því konur hafa sjálfsákvörðunarrétt yfir líkama sínum, nei þýðir nei, og hættu þýðir núna.
Skilaboðin þurfa að vera skýr. Skilaboðin um að slíkt verði ekki liðið í okkar samfélagi, að raddir kvenna verða ekki þaggaðar niður, að þeim sé trúað og á þær sé hlustað, af því að hér eru konur metnar til jafns á við karla og stelpur til jafns á við stráka, og eiga því að fá sömu laun fyrir sömu vinnu og jafn stóran bikar þegar þær vinna fótboltamót. Af því að skilaboðin mega aldrei vera þau að þrátt fyrir allt séu konur aðeins minna virði en karlar. Á meðan við samþykkjum það munu karlar taka sér vald yfir konum. Ekki allir, sem betur fer fæstir, en þú veist aldrei hver.
Skilaboðin sem ég ólst upp við um að stelpur skuli passa sig eiga ekki lengur við. Við þurfum að passa upp á hvert annað.
Karlinn sem ógnar öryggi okkar má fara til fjandans.
Athugasemdir