Ég skal viðurkenna að fátt þykir mér gómsætara en lungamjúkt og allt að því blóðugt kjet. Samt styttist nú óðum í að ég fari að neita mér um þá sælu að sökkva tönnunum í slíkan bita og finna safann úr honum sprautast yfir gráðuga bragðlaukana. Það er ekki alveg komið að því ennþá, en hún færist þó stöðugt nær – þessi stund þegar ég kemst að þeirri niðurstöðu að það sé ekki sómasamlegt að bæði þykjast hafa í hávegum virðingu og velferð dýra, en háma þau í mig um leið.
Það líður sem sagt að því að af samviskuástæðum hljóti ég að gerast það sem í gamla daga hét grænmetisæta en heitir nú víst vegan.
Bæði heitin eru að sönnu ómöguleg.
„Grænmetisæta“ hefur mér alltaf þótt hljóma eins og einhver frekar óskemmtileg tegund af pöddu, bítandi kjamsandi rífandi í sig grænmeti.
En „vegan“ finnst mér vera eins og handklæði eða tuska í dularfullum lit á milli bleiks og drapplitaðs.
Þegar ég manna mig loksins upp í að leggja af kjötát, þá mun ég hvorki vilja kalla mig grænmetisætu né vegan. Svo það er líklega best að nota tímann þangað til ég get loks stigið þetta skref til að finna nýtt heiti á fyrirbærið.
En af hverju er mér farin að vaxa í augum tilhugsunin um að leggja mér dýr til munns? Hef ég allt í einu misst sjónar af því að slíkt er lífsins gangur? Kjötát og eldun á kjöti munu vera hluti af því sem gerði tegundinni manni kleift að þróast með leifturhraða og ná því þroskastigi þar sem við erum nú. Og er ekki óttaleg hræsni í því fólgin að þykjast allt í einu (þegar þar að kemur) of góður til að rífa í mig aðrar lífverur þegar allt lífið á jörðinni gengur beinlínis út á að hver tegund étur aðra?
Í sem skemmstu máli – jú.
Öll okkar samskipti við dýrin eru undirorpin endalausri og alvarlegri hræsni. Við erum dýravinir og elskum litlu dýrin og förum í sirkus og fögnum ógurlega þegar litlir sætir bangsar tifa um á afturlöppunum og gera alls konar skemmtilegar kúnstir svo þeir líkjast engu meir en hnellum kátbroslegum krökkum.
Og í gleði okkar yfir því hvað þetta er skemmtilegt og fallegt og fyndið, þá lokum við augunum fyrir því sem við megum þó vita – að þessir litlu sætu bangsahúnar hafa verið pyntaðir miskunnarlaust nánast frá fæðingu til að neyða upp á þá þeim kúnstum sem okkur dýravinunum finnst svo gaman að horfa á.
Nú, vissuði það ekki? Bara ekki hugmynd? Nei, almenningur í Þýskalandi á stríðsárunum hafði heldur ekki minnstu hugmynd um hvað varð um alla nágrannana af Gyðingaættum sem allt í einu fóru að hverfa einn af öðrum.
Það þykir kannski goðgá að líkja meðferð á dýrum við meðferð nasista á Gyðingum. Dýrin eru nú þrátt fyrir allt „bara“ dýr. En er einhver eðlismunur á dýrum og manneskjum? Það er einmitt það sem er farið að vefjast fyrir mér og mun semsé á endanum leiða til þess að ég verð að neita mér um þá nautn að bíta í almennilegt kjöt.
Og skelfingar eins og þær sem við fengum framan í okkur í vikunni um aðbúnað hænsfugla hjá Brúneggjum, þær gera ekki annað en styrkja mig í þeirri trú að við verðum að fara að snúa við blaðinu í umgengni okkar við dýr merkurinnar.
Enda erum við aðeins eitt af þeim.
Raunar hafa hænsnfuglar sérstaklega merkilega stöðu í dýraríkinu. Þannig er mál með vexti að eina ástæðan fyrir því að við mennirnir erum komnir hér fram sem „herrar sköpunarverksins“ er sú að fyrir 65 milljónum ára féll loftsteinn á jörðina og útrýmdi nálega öllum dínósárus-tegundum sem þá voru á dögum. Þar með fengu smávaxin spendýr í kjarrinu undir fótum risaeðlanna tækifæri til að vaxa og þroskast, sem endaði með okkur. Annars værum við ekki hér.
En mergurinn málsins er sá að einn flokkur dínósárusa eða risaeðla lifði hörmungarnar af: Fuglarnir. Og sú mun vera raunin að hænsn séu að eðlis- og erfðaþáttum nákomnari forfeðrum sínum risaeðlunum en nokkrir fuglar aðrir.
Hænsn eru því tákn um hverfulleika tilverunnar og við ættum að umgangast þau með virðingu og þakklæti fyrir að forfeður þeirra hafi gefið eftir sinn stað í tilverunni svo við mættum leggja hann undir okkur.
En í staðinn horfði maður upp á hryllingsbúðir Brúneggja.
Athugasemdir