Tvær hringlaga byggingar hlið við hlið með gegnsæjum veggjum. Í þeirri ytri eru einangraðir fangaklefar en innri byggingin er varðturn, byggður með þeim hætti að vistmenn sjá ekki inn í hann. Þeir geta ómögulega vitað hvort og hvenær er verið að fylgjast með sér. Og til forðast refsingu er hyggilegast að gera aldrei nokkurn tímann neitt sem varðmanninum gæti þótt tortryggilegt.
Þannig sá breski heimspekingurinn Jeremy Bentham fyrir sér hið fullkomna fangelsi, Panopticon, eða Alsjána. Algjör undirgefni, röð og regla. Valdið streymir úr varðturninum og smýgur inn í vistmennina sjálfa. Michel Foucault heillaðist af Alsjánni á seinni hluta 20. aldar og þróaði kenningu sína um alsæishyggju út frá henni. Hann hélt því fram að valdakerfi nútímans byggði á ósýnilegri ögun sambærilegri þeirri sem birtist í Panopticon. Fangelsinu lýsti hann á þessa leið:
Hver og einn er á sínum stað, vandlega lokaður inni í kytru þar sem hann blasir við augum vaktmannsins, en hliðarveggirnir koma í veg fyrir að hann nái sambandi við samfanga sína. Hann sést en hann sér ekki; safnað er upplýsingum um hann en hann á aldrei í samskiptum. Herbergi hans er þannig fyrirkomið, beint á móti miðturninum, að hann er í sjónlínu út frá miðju hringsins; en skilrúmin í hringnum og haganleg skipting klefanna valda því að ekki verður séð til hliðar. Þessi ósýnileiki tryggir röð og reglu.*
Mér varð hugsað til Panopticon-fangelsisins þegar ég horfði á óskarsverðlaunamyndina Citizen 4 á dögunum. Þar er fjallað um uppljóstranir Edward Snowden og aðdraganda þeirra. Áhorfandinn er fluga á vegg í atburðarásinni sem leiddi til þess að heimsbyggðin var upplýst um stórtækar persónunjósnir bandarískra og breskra stjórnvalda, hvernig daglega er traðkað á friðhelgi einkalífs milljóna manna um allan heim.
Internetið sem alsæisbygging
Brynja Huld Óskarsdóttir, vinkona mín, skrifaði áhugaverða BA-ritgerð síðasta vor þar sem kenningar Foucault um Alsjána, ögunarsamfélagið og hið alltumlykjandi vald eru settar í samhengi við eftirlitskerfi nútímans, þá gríðarlegu upplýsingasöfnun og persónunjósnir sem Edward Snowden afhjúpaði. „Heimur okkar á internetinu virðist vera byggður upp eins og alsæisbygging Benthams; sem hringlaga bygging með gegnsæjum gluggum, með turn í miðjunni með ósýnilegum varðmanni sem getur horft inn um alla glugga og fylgst með okkur þegar honum hentar,“ segir hún í lokaorðum ritgerðarinnar.**
Edward Snowden gerði sér grein fyrir mikilvægi þess að almenningur vissi um eftirlitsmaskínu stjórnvalda. Í Citizen 4 birtist hann sem viðkunnalegur nördi, hógvær hugsjónamaður sem stefnir öllu því sem honum er kært í hættu til að sannleikurinn komi fram. Hann gat ekki fundið sér betri samherja en Glenn Greenwald, blaðamanninn sem bar hitann og þungann af því að koma þeim forboðnu upplýsingum sem Snowden lak yfir á mannamál.
Líkt og örlög uppljóstrarans Chelsea Manning – sem pyntaður hefur verið og dæmdur í ævilangt fangelsi – bera vitni um á Snowden ekki afturkvæmt til Bandaríkjanna. Hann býr nú í Moskvu en sækist eftir pólitísku hæli í Vestur-Evrópu.
Innanríkisráðuneytið gegn Snowden
Sumarið 2013 lét Edward Snowden þau boð berast íslenskum stjórnvöldum að hann sæktist eftir pólitísku hæli hér. Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, kom óskum hans áleiðis en um svipað leyti barst Íslandi framsalsbeiðni frá bandarískum yfirvöldum sem vildu aðstoð Íslendinga við að hafa hendur í hári Snowdens. Í ljósi þess að beiðnin uppfyllti ekki skilyrði laga um framsal sakamanna – Snowden var ekki staddur á Íslandi þegar hún barst – hefði innanríkisráðuneytið lögum samkvæmt átt að hafna framsalsbeiðninni strax. Það var hins vegar ekki gert. Í staðinn óskaði innanríkisráðuneytið eftir upplýsingum um Snowden frá Bandaríkjunum og hélt málinu opnu í marga mánuði. Þá fékk Snowden réttarstöðu sakbornings þótt ekkert benti til þess að hann hefði brotið íslensk lög.
„Það er deginum ljósara að þessu erindi hefði átt að vísa strax frá í stað þess að setja af stað þessa undarlegu snúninga,“ sagði Kristinn Hrafnsson þegar ég ræddi við hann síðasta sumar. „Viðbrögð innanríkisráðuneytisins endurspegla þjónkun við bandarísk stjórnvöld sem ég sé ekki að samræmist íslenskum hagsmunum á nokkurn hátt.“
Hringlandi og tafir innanríkisráðuneytisins í tíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sköðuðu réttarstöðu Snowdens hérlendis og girtu fyrir að hann kæmi til Íslands og leitaði hér hælis. Íslensk stjórnvöld sýndu að þau voru ekki traustsins verð. Snowden gat ekki treyst því að hann fengi um frjálst höfuð strokið á Íslandi. Hann mátti allt eins eiga von á því að verða handtekinn og afhentur bandarískum stjórnvöldum, fangelsaður og pyntaður eins og Chelsea Manning.
Njósnað um Íslendinga
Íslendingar, líkt og heimsbyggðin öll, standa í þakkarskuld við Snowden. Framganga stjórnvalda gagnvart honum var fyrirlitleg, ekki síst þegar litið er til þess að Íslendingar hafa með beinum hætti orðið fyrir barðinu á þeirri eftirlitsmaskínu sem Snowden afhjúpaði.
Að minnsta kosti fjórir Íslendingar hafa fengið það staðfest að þeir sættu persónunjósnum af hálfu bandarískra stjórnvalda vegna sakamálarannsóknarinnar á Wikileaks og stofnanda þess, Julian Assange, undanfarin ár. Þetta eru Kristinn Hrafnsson talsmaður Wikileaks, aðgerðasinnarnir Smári McCarthy og Herbert Snorrason og Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata.
Wikileaks greindi frá því í janúar að Google hefði afhent bandarískum stjórnvöldum aðgang að tölvupóstum og gögnum þriggja starfsmanna samtakanna, þeirra Kristins Hrafnssonar, Söruh Harrison og Joseph Farrel. Byggja leitarheimildirnar, sem gefnar voru út í mars árið 2012, á grun um njósnir, samsæri og þjófnað á eignum bandarískra stjórnvalda og ná til allra tiltækra upplýsinga Google um þremenningana. Voru þeir ekki upplýstir um rannsóknaraðgerðirnar fyrr en 23. desember síðastliðinn, þremur árum eftir að þær voru heimilaðar.
Smára McCarthy og Herberti var greint frá því þann 18. júní árið 2013 að bandarísk yfirvöld hefðu haft aðgang að upplýsingum Google um þá í tvö ár síðan héraðsdómur Austur-Virginíu gaf út leynilegar tilskipanir um haldlagningu þeirra. Ég skrifaði um þetta í DV um sumarið og í framhaldinu fjölluðu The Nation og Guardian um málið.
Ólíkt Wikileaks-mönnum voru Smári og Herbert ekki upplýstir um það hvers vegna leitarheimildin var veitt og um hvaða sakamálarannsókn málið snerist. Aðspurður segist Smári enn ekki hafa fengið neinar upplýsingar um þetta frá bandarískum stjórnvöldum. Báðir drógu þeir Herbert á sínum þá ályktun að njósnirnar tengdust samskiptum þeirra við Julian Assange.
Birgitta Jónsdóttir er fjórði Íslendingurinn sem bandarísk stjórnvöld viðurkenna að hafa njósnað um. Fyrirtækinu Twitter var gert að afhenda bandarískum yfirvöldum tiltækar persónuupplýsingar um Birgittu árið 2011, en sú tilskipun var undirrituð af Theresu Carroll Buchanan, sama dómara og úrskurðaði í málum Smára og Herberts og margra annarra sem komið hafa við sögu í rannsókn bandarískra yfirvalda á Wikileaks.
Ísland og Alsjáin
Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna hefur lagt það í vana sinn að fylgjast með tölvupósti, síma- og samfélagsmiðlanotkun fólks án dómsúrskurðar. Hins vegar er sótt sérstök leitarheimild þegar ákæruvaldið vestanhafs vonast eftir gögnum sem eru nýtanleg fyrir rétti. Ísland er á lista Þjóðaröryggisstofnunarinnar yfir þau ríki sem flokkuð eru sem samstarfsfús til njósna. Og íslenskir ráðamenn voru svo sannarlega samstarfsfúsir þegar kom að því að gera Snowden lífið leitt. Þegar hann bað um hjálp greip hann í tómt. Stjórnvöld tóku afstöðu með eftirlitsmaskínunni. Alsjánni en ekki almenningi.
* Michel Foucault, Alsæi, vald og þekking, þýð. Björn Þorsteinsson, bls. 137.
** Brynja Huld Óskarsdóttir, Okkar á milli – Endalok einkasamtalsins: Ótti, eftirlit og völd í upplýsingaöflun á 21. öldinni, bls. 29.
Athugasemdir