Gríska ríkisstjórn, Alexis Tsipras, notar nú „íslensku leiðina“ sem dæmi um það hvernig bjarga eigi Grikklandi frá gjaldþroti. Tsipras hótar því nú að Grikkland muni þjóðnýta fjármálafyrirtæki sín með því yfirtaka þau og stofna nýja banka á grunni þeirra og láta tapið lenda að mestu á erlendum kröfuhöfum grískra banka.
Grikkirnir eru sagðar íhuga stofnun sjálfstæðs seðlabanka sem grundvöll fyrir nýtt fjármálakerfi og að tekin yrði upp nýr gjaldmiðill samhliða evrunni. Slíkar aðgerðir myndu fela það í sér að Grikkland myndi hverfa úr Evrópusambandinu. Nú er „íslenska leiðin“ fordæmi annarra þegar sannleikurinn er sá að hún er sennilega einsdæmi.
Íslenska leiðin var ekki valkostur
Mér finnst alltaf jafn skrítið þegar talað er um „íslensku leiðina“ frá árinu 2008 sem einhvern valkost. Íslenska leiðin var ekki valkostur fyrir Ísland í raun: Hún var eina mögulega leiðin. Grikkland hefur hins vegar val og eru lánardrottnar landsins búnir að bjóða landinu björgunarpakka sem Tsipras ætlar ekki að þiggja þar sem hann telur aðstoðina sem Evrópusambandið, Evrópski seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa boðið Grikkjum sé „absúrd“.
Þegar ég segir að íslenska leiðin hafi ekki verið valkostur heldur nauðung á ég við að íslenska bankakerfið var orðið svo stórt að íslenska ríkið gat ekki bjargað því að staðið á bak við það áfram. Íslenska leiðin var því frekar nauðung en val því íslenska bankakerfið var orðið um tólf sinnum stærra en landsframleiðslan á Íslandi. Til samanburðar er gríska bankakerfið ekki nema tvisvar sinnum stærra en landsframleiðslan þar í landi. Munurinn á Grikklandi og Íslandi er því meðal annars sá að Grikkland hefur val en Ísland ekki.
Haustið 2008 var enginn innlendur, eða erlendur, aðili sem bauð fram fjármagn til að bjarga íslenska efnahagskerfinu frá hruni. Við vitum það svo auðvitað núna að sem betur fer var ekkert slíkt reynt þar sem staða stóru bankanna hafði verið fölsuð með markaðsmisnotkun um langt skeið og þeir misnotaðir af eigendum sínum.
„Þó Ísland falli og að stærsti hlutinn á skuldunum falli á erlenda kröfuhafa hefur þetta lítil áhrif fyrir aðrar þjóðir sem betur fer.“
Ísland var ekki og er ekki í Evrópusambandinu; Ísland var og er með sjálfstæðan gjaldmiðil og ekki evru; Ísland var ekki búið að þiggja mikla peninga í gegnum Evrópusambandið til að reyna að berja í bresti fjármálakerfisins og Ísland hafði ekki gengið í gegnum tvær misheppnaðar björgunartilraunir frá Alþjóðgjaldeyrissjóðnum eins og Grikkland árin 2010 og 2012. Evrópusambandið var ekki með þvengtak á Íslandi líkt og á Grikklandi. Hrun Íslands var tiltölulega skjótt og afgerandi á meðan hrun Grikklands hefur verið langvinnt og hægfara. Enda eru löndin, og það sem hefur gerst í þeim í aðdraganda fjármálahrunsins, svo ólík að flestu leyti að varla er hægt að bera þau saman.
Ísland var nógu lítið til að mega hrynja
Þar að auki, og þetta er sennilega mikilvægast, er Ísland dvergríki og hafði hrun íslenska bankakerfisins og tap erlendra fjármálafyrirtækja og kröfuhafa ekki stórfelldar afleiðingar í öðrum löndum. Ekki einu sinni í Þýskalandi en þarlendir bankar lánuðu íslenskum bönkum hvað mest. Þýskaland er nærri 100 milljóna þjóð á meðan Íslendingar telja 330 þúsund. Þó Ísland falli og að stærsti hlutinn af skuldunum falli á erlenda kröfuhafa hefur þetta lítil áhrif fyrir aðrar þjóðir - sem betur fer. Ætli stærð íslenska bankakerfisins þyrfti ekki að vera svona hundrað sinnum landsframleiðslan við efnahagshrun til að það hefði teljandi áhrif í öðrum löndum.
„Litla Grikkland gæti tekið allan fjármálaheiminn niður með sér í fallinu í viðleitni sinni til að halda velli“
Sambandið býr sig undir grískt hrun
Evrópusambandið, og undirstofnanir þess, hafa gripið til aðgerða til að bregðast við stöðu Grikklands, eða eins og einn hagfræðingur orðaði það til að bregðast við því sem hann kallar „mengun Grikklands“. Í stuttu máli snúast þær aðgerðir um að Evrópski seðlabankinn getur prentað mikið af peningum til að styðja við þau bankakerfi sem hvað helst myndu verða fyrir áhrifum af hruni gríska fjármálakerfisins ef til gjaldþrots kemur. Fyrst um sinn yrði aðallega um að ræða Portúgal og Spán sem Evrópski Seðlabankinn þyrfti að styðja við bakið á.
Umræddur hagfræðingur, Anatole Kaletsky hjá The New Instituite for New Economic Thinking, segir að Grikkir geti ekki lengur notað útspilið um gjaldþrot sem hótun í viðræðunum við Evrópusambandið þar sem búið sé að gera varúðarráðstafanir til að bregðast við gjaldþroti Grikklands. Fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis, hefur sagt að „litla Grikkland gæti tekið allan fjármálaheiminn niður með sér í fallinu í viðleitni sinni til að halda velli“. Evrópusambandið er með öðrum orðum reiðubúnara en áður undir fall Grikklands ef ríkisstjórn landsins fer þá leið á endanum og stendur við stóru hótanirnar.
Björgunaraðgerðir og engar aðgerðir
Evrópusambandið og Seðlabanki Evrópu gripu ekki til neinna slíka aðgerða þegar Ísland stóð á barmi hrunsins árið 2008 enda voru kerfislæg áhrif í Evrópu af væntanlegu hruni Íslands takmörkuð. Ísland var með öðrum orðum nægilega lítið til að fall landsins skipti einhverju verulegu máli fyrir fjármálakerfi Evrópu. Aðra sögu er hins vegar að segja um Grikkland líkt og ráðstafanir Evrópska Seðlabankans sýna fram á. Á þetta - að Ísland sé í raun ekki fordæmi fyrir aðrar þjóðir í aðstæðum þar sem þjóðargjaldþrot blasir við - hefur verið bent margoft síðastliðin ár. Öðru máli gegnir um Grikkland vegna stærðar landsins og þátttöku þess í Evrópusambandinu. Fall þess mun hafa miklar afleiðingar sem Evrópusambandið reynir að vera viðbúið ef til þess kemur að ríkisstjórn landsins afþakki björgunarpakkann sem því hefur verið boðið og reyni að fara „íslensku leiðina“.
„Þjóðin fór á fimm ára lánafyllerí og lét svo erlenda aðila sitja uppi með tapið að mestu og tók þar af leiðandi ekki ábyrgð á eigin gjörðum.“
„Íslenska leiðin“ er hins vegar hættulegt fordæmi fyrir Grikkland sem er um 35 sinnum stærri en Ísland miðað við fólksfjölda; land þar sem allir lýðræðislegir og samfélagslegir innviðir eru auk þess miklu verri en á Íslandi og spilling og skattaundanskot eru landlægt vandamál. Ég vona að Grikkland reyni ekki að fara þá leið því ég held að hún hefði bæði slæm áhrif á landið sjálft og svo auðvitað á önnur skuldsett lönd í Evrópusambandinu. Gríska fordæmið um óráðsíu og ábyrgðarleysi yrði líklega ekki gott fordæmi eins og það íslenska.
Ísland slapp með skrekkinn
Svo vona ég að í framtíðinni verði hætt að tala um „íslensku leiðina“ sem valkost fyrir stórar þjóðir sem taka virkan þátt í fjölþjóðlegu ríkjasamfélagi. Það sem Ísland gerði árið 2008 var ósiðlegt og í reynd ógeðslegt. Þjóðin fór á fimm ára lánafyllerí og lét svo erlenda aðila sitja uppi með tapið að mestu og tók þar af leiðandi ekki ábyrgð á eigin gjörðum.
Jú, þetta var eina leiðin fyrir Ísland ef því lántaka bankanna var án fordæmis í þjóðríki sem ekki er alþjóðleg fjármálamiðstöð, eins og til dæmis Lúxemborg. Og auðvitað er gott að þjóðarbúið og íslenskir skattgreiðendur og heimili hafi ekki þurft að sitja eftir með allan skuldaklafann um árabil á óþægilegum vöxtum. En þó sú hátterni hafi staðiðist lög þá þýðir það ekki að þessar lyktir lánaærisins á Íslandi hafi verið siðlegar eða réttlátar - þvert á móti. Þó eitthvað sé löglegt, og þar með ekki ólöglegt, er ekki þar með sagt að það sé rétt eða siðlegt.
En það breytir því ekki íslenska leiðin á ekki að vera fordæmi fyrir neina aðra þjóð enda var hún eina möguleika lausnin á nánast fordæmalausri hegðun einnar þjóðar, banka landsins, stjórnvalda og stjórnkerfisins alls. Ísland komst vel frá hruninu; Ísland komst upp með að gera það sem þjóðin gerði en að ætla að fara að kenna þá hegðun sem fordæmi er brenglað. Sérstaklega þegar umrædd þjóð, í þessu tilfelli Grikkir, hefur annan valkost og getur að öllum líkindum greitt skuldir sínar með tíð og tíma.
Hagnaður einkavæddur - tap alþjóðavætt
Á Íslandi var hagnaður góðærisins einkavæddur en svo alþjóðavæddi þjóðin stóran hluta kostnaðarins við góðærið sem hún gat ekki borgað. Ísland er viðrini ekki fordæmi - reyndar heppið viðrini sem slapp með skrekkinn og þurfti ekki að bera alla ábyrgðina á eigin óráðsíu og fákunnáttu. Sú heppni breytir því samt ekki hátternið var siðlaust, bæði hvernig stofnað var til skuldanna, hvernig stjórnvöld kosin af almenningi gerðu ekkert til að bregðast við lánasöfnuninni og eins hvernig Íslendingar létu aðra sitja eftir með stóran hluta skuldanna.
Að ætla að smíða hagfræðikenningu um réttu leiðina út úr þjóðargjaldþroti út frá þessari íslensku sögu er hæpið að mínu mati. Nema þá að hagfræðin vilji vera siðlaus og eigi bara að snúast um það hvernig maður sjálfur eða þjóð manns geti fengið sem mest af peningum á eins auðveldan hátt og hugsast getur eða þá sleppt því að borga eins mikið af lánum sínum og mögulegt er. Íslenska leiðin er afar prímitíf leið, eiginlega er hún bara byggð á einföldu frumskógarlögmáli, og svo heppni smáþjóðarinnar sem getur delerað á heimsmælikvarða og komist upp með það af því hún er svo fámenn. Þessi leið má ekki verða öðrum til eftirbreytni og ég vona að enginn hagfræðingur sé það óábyrgur að fara að predika þessa leið sem raunhæfa útgönguleið fyrir aðrar þjóðir.
Á ensku er stundum sagt að maður geti ekki bæði átt kökuna og étið hana líka. Ísland gerði nákvæmlega þetta: Íslenska þjóðin fékk kökuna að láni, át hana, ældi henni og lét svo þá sem lánuðu þeim kökuna þrífa æluna upp eftir sig líka. Nú hóta Grikkir því að fara þessa sömu leið.
Athugasemdir