Ríkisstjórnin er úr takti. Þannig hefur það verið allt kjörtímabilið. Ráðherrarnir í krummafæti og þingmenn á sokkaleistunum. Ég þekki engan sem hugsar eins og þetta fólk. Það rígheldur í forneskjuna og hefur asklok fyrir himin; horfir bara á heiminn snúast og vonar að ekkert breytist.
Ég ætla að fara nokkrum orðum um nútímann, eins og hann blasir við mér. Venjulegt fólk getur bara flett áfram – hér er ekkert nýtt á ferðinni.
Stjórnarliðana hvet ég hins vegar til þess að kasta frá sér heyvinnuverkfærunum og sækja glósupennann. Þessi lestur gæti orðið að gagni.
Fjölmiðlar
Sjónvarpið getur ekki keppt við internetið. Annars vegar erum við með dagskrá sjónvarpsstöðvanna sem hönnuð er fyrir meðaltals-manneskjuna. Hins vegar „sjónvarpsstöð“ þar sem þú velur dagskrána sjálfur. Seinni kosturinn er augljóslega betri.
Svipað er upp á teningnum með útprentuðu dagblöðin. Þau eru alltaf að færast smám saman yfir á netið. Hvers vegna að borga fyrir áskrift þegar svipað efni er ókeypis á netinu?
Afleiðing þessarar þróunar er hins vegar ekki jafnaugljós. Þjóðin er ekki lengur í farþegasætinu; hver og einn stýrir sinni bifreið sjálfur. Það þýðir að gamli bílstjórinn ræður ekki lengur ferðinni. Útvarpsstjóri og ritstjórar Fréttablaðsins og Moggans hafa lítið vald yfir umræðunni. Hún fer fram á samfélagsmiðlunum.
Samfélagsmiðlarnir draga fram kjarna málsins; þær blaðagreinar sem hittu naglann á höfuðið fara yfirleitt á flug og allir lesa. Ef ritstjórar blaðanna vilja hafa áhrif verða þeir einfaldlega að búa til efni sem á raunverulegt erindi við samfélagið.
Þessi þróun er góð fyrir lýðræðið. Nú getur enginn „stýrt umræðunni“ eins og í gamla daga og það er erfiðara að fela spillingu. Öll ósannindi eru hrakin samstundis og níðrógurinn fordæmdur.
Stjórnmálamenn gamla tímans eiga hreinlega ekki séns í nýja tímann. Þetta er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin er svona óvinsæl. Og þess vegna fengu Ólafur Ragnar Grímsson og Davíð Oddsson rauða spjaldið í síðustu forsetakosningum. Nú verða menn að koma fram af heiðarleika og heilindum ef þeir ætla sér að eiga erindi.
Trúarbrögð
Miklu munar á trúarlífi þeirra elstu og yngstu, eins og kom fram í nýlegri rannsókn. Það sem vakti mesta athygli blaðanna var viðhorf unga fólksins til sköpunarkenningarinnar; enginn (núll prósent!) á aldrinum 18–25 ára trúði því að Guð hefði skapað heiminn.
Merkilegasta niðurstaðan fór þó framhjá flestum: Unga fólkið hefur látið af trúnni.
Aðeins sautján prósent sögðust vera trúuð og 74 prósent styðja aðskilnað ríkis og kirkju. Til samanburðar skulum við skoða elsta hópinn (+55 ára). Þar sögðust 61 prósent vera trúuð og einungis 37 prósent studdu aðskilnað ríkis og kirkju. Að meðaltali eru 46 prósent þjóðarinnar trúuð og 49 prósent hlynnt aðskilnaði.
Með smá talnaleikfimi er hægt að finna út stöðu trúarbragða á Íslandi eftir tuttugu ár. Reiknað er með að trúarskoðun kynslóðanna breytist ekki með árunum. Elstu kynslóðirnar hverfa á vit feðra sinna og inn koma nýjar sem fá sömu tölfræði og sú yngsta hefur nú.
Þannig munu einungis 31 prósent Íslendinga segjast vera trúuð eftir tuttugu ár. Og eins munu 62 prósent styðja aðskilnað ríkis og kirkju, 22 prósent vera andvígir og sextán prósent beggja blands.
Trúarbrögðin eru á hröðu undanhaldi. Öll umræða um stöðu þjóðkirkjunnar og framtíð ætti að taka mið af þessari staðreynd.
Forræðishyggja þeirra sem ekki skilja lífið
Skoðum nú landbúnaðarkerfið. Þar er íslenska varan niðurgreidd með peningum skattgreiðenda. Á móti eru erlendar vörur hækkaðar í verði með háum tollum. Með þessari manipúleringu er verðmiðinn alltaf aðeins lægri á íslensku vörunum.
Pólitíkusarnir segja að þetta sé okkur fyrir bestu. Ef við kaupum útlenska matinn munu sníkjudýr borða í okkur heilann! Og svo er hann líka svo óhollur, segja þeir. Viljum við virkilega fórna heilsunni og langlífinu fyrir ódýran mat frá útlöndum?
Reyndin er allt önnur: Erlendu matvælin eru ekki síðri en þau íslensku. Það geta þeir vottað sem búið hafa í útlöndum. Þau byggja í mörgum tilvikum á hundraða ára gamalli matargerðarhefð. Úrvalið er miklu betra og verðið oftast lægra. Hvers vegna í veröldinni er þessum kosti haldið frá Íslendingum?
Búvörusamningurinn verður mögulega samþykktur á Alþingi á næstu vikum. Þar á að læsa gamla kerfið inni næstu tíu árin. Aðeins tólf prósent þjóðarinnar styður samninginn, eins og kom fram í nýlegri skoðanakönnun Maskínu.
Nokkrar góðar hugmyndir
Hér eru nokkrar hugmyndir úr nútímanum og mér segir svo hugur að margir muni taka undir þær. Nú ættu stjórnarliðarnir að munda glósupennann. Kosningar eru á næsta leiti og enginn vill vera gamaldags.
1. ESB-aðildarumsóknin
Allir viti bornir menn og konur kíkja í pakkann. Bíllinn er prufukeyrður, húsið skoðað, fólk fer á stefnumót, ráðningarsamningurinn er lesinn og þar fram eftir götunum. Það er almennt ekki talið vera skynsamlegt að taka ákvörðun án þess að skoða forsendurnar.
2. Hljóðbókasafnið
Aðeins sjónskertir hafa aðgang að hljóðbókum Hljóðbókasafns Íslands. Hér mætti opna dyrnar fyrir óblinda. Ekki þarf að hafa miklar áhyggjur af því að bækurnar fari í ólöglega dreifingu á netinu. Það er kúltúr gærdagsins. Nú borgar fólk fúslega fyrir aðganginn og fær í staðinn góða þjónustu.
3. Íslenskur landbúnaður
Flestir vilja halda byggð í landinu. Hægt væri að styrkja bændurna beint eins og gert er með listamannalaunum. Með því móti væri hægt að klippa á markaðsstýringu stjórnvalda og bændur myndu fá sitt.
4. Íslenska orðabókin á netinu
Orðabókin á netinu kostar. Verðmiðinn er reyndar ekki hár – en hann er engu að síður þröskuldur og flestir nota Google í staðinn. Og það er ekki nógu gott. Tungumálið er þjóðareign og orðabókin samin að hluta til með styrkjum úr ríkissjóði. Hún á að sjálfsögðu að vera opin öllum. Ekki bara þeim sem eiga peninga.
5. Kosningakerfið
Hafnfirðingar fengu eitt atkvæði á mann í alþingiskosningunum 2013. Reykvíkingar voru með 1,18 atkvæði og Selfyssingar 1,45 atkvæði. Þeir sem búa á Akureyri fengu 1,67 atkvæði og Ísfirðingar 1,82 atkvæði. Þetta ójafna kosningakerfi veldur því að þingmenn endurspegla þjóðina illa. Því verður að breyta.
6. Líffæragjöf
Alþingi virðist gjörsamlega fyrirmunað að klára frumvarpið um líffæragjöf. Allir munu græða á því að „ætlað samþykki“ komi í stað „ætlaðrar neitunar“. Þetta ætti að vera forgangsmál.
6. Rafbílar
Ekkert land myndi hagnast jafnmikið á því að skipta bensíni út fyrir rafmagn. Við myndum framleiða okkar eldsneyti sjálf og spara þannig mikinn gjaldeyri. Stjórnvöld ættu að róa að því öllum árum að rafbílavæða Ísland. Þau gætu til dæmis byrjað á því að fjölga hleðslustöðvunum um allt land.
Athugasemdir