Eftir að borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti að sniðganga vörur frá Ísrael þá stigu nokkrir ráðherrar fram og gagnrýndu þessa ákvörðun, meðal annars Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sem sagði að hún væri fráleit (sjá til dæmis hér: http://stundin.is/frett/kalladi-akvordun-reykjavikurborgar-sogulegan-sigur/).
Ákvörðunin er kannski umdeilanleg en fráleit er hún ekki. En af hverju skyldi fólk telja þessa ákvörðun ranga, vanhugsaða eða jafnvel fráleita?
(1) Það er sagt að hún samrýmist ekki lögum og reglum. Það er sumpart góð athugasemd því mikilvægt er að fara eftir lögum og reglum. Meinið er bara að í þessu efni er það ekki Reykjavík sem hefur vikið sér undan almennum og alþjóðlegum lögum og reglum. Ísraelsríki hefur fyrir löngu gefið skít í slíkar reglur. Ísrael hefur ítrekað brotið alþjóðalög, virt að vettugi samþykktir Sameinuðu þjóðanna og brotið gegn alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, svo eitthvað sé nefnt. Það er því hæpið að bera því við að þarna hafi Reykjavík farið út fyrir mörk hins eðlilega. Regluverk, hvort heldur alþjóðleg eða innlend, gera ráð fyrir lágmarks gagnkvæmni og þegar kemur að Ísraelsríki þá er slík gagnkvæmni einfaldlega ekki fyrir hendi.
(2) Líka er sagt að ákvörðunin fari í bága við utanríkisstefnu íslenska ríkisins. En það er ekki rétt þar sem utanríkisstefna Íslands tekur ekki til innkaupastefnu einstakra sveitarfélaga. Ríkisvaldið hefur ekkert um innkaupastefnu sveitarfélaganna að segja umfram það sem almenn lög kveða á um.
(3) Í tilkynningu sem utanríkisráðuneytið sendi frá sér segir að þessi ákvörðun Reykjavíkur fari reyndar í bága við lögin í landinu: „Í því felst að Reykjavíkurborg verður að haga stjórnsýslu sinni í samræmi lög og að ákvarðanir hennar mega ekki fara í bága við þau, þ. á m. lög um opinber innkaup, þar sem óheimilt er að mismuna fyrirtækjum á grundvelli þjóðernis eða af öðrum sambærilegum ástæðum.“ (http://www.utanrikisraduneyti.is/frettir/nr/8485) Þetta er í besta falli umdeilanlegt og stenst varla því ef satt væri, þá væri líka óhugsandi að Ísland gæti tekið þátt í efnahagslegum refsiaðgerðum gegn nokkru ríki, hvort sem það væri Ísrael, Rússland, Norður-Kórea, eða hvaða ríki annað.
Það kann að vera umdeilanlegt að Reykjavík sniðgangi vörur frá Ísrael en fráleitt er það ekki. Og raunar væri ekki heldur fráleitt (en vissulega umdeilanlegt) ef ríkisvaldið tæki næsta skref og sliti stjórnmálasambandi við Ísrael. Stjórnmálasamband er byggt á gildum og reglum, og þeir sem sýna þeim reglum sem slíkt samband er byggt á fullkomna lítilsvirðingu og skeyta ekki um þau gildi sem liggja því til grundvallar, hafa sjálfir sagt skilið við sambandið. Þegar verkin tala með jafn órækum hætti og þau hafa gert í ofbeldi Ísraels gagnvart Palestínu um langa hríð – ekki síst á Gaza-ströndinni – þá gildir einu hvað sagt er. Fyrir okkur sem þjóð er spurningin ekki um það hvort við ætlum að slíta sambandi sem enn er til staðar því grundvöllur þess er löngu brostinn. Spurningin er hvort við sem þjóð viljum vera í sambandi sem er grundvallað á ofbeldi og hatri eða hvort við ætlum að telja okkur til siðaðra þjóða.
Það getur vissulega bitnað á viðskiptahagsmunum Íslendinga að hætta að versla við Ísrael (á meðan það ríki rekur grímulausa og ofbeldisfulla aðskilnaðar- og kúgunarstefnu gagnvart Palestínu). En slíkt er ekki nýtt. Viðskiptahagsmunir ættu ekki að vera tromp, hvorki í samskiptum einstaklinga né ríkja.
Í þessu samhengi er við hæfi að rifja upp Gísla sögu Súrssonar, atvikið þegar Eyjólfur grái bauð Auði þrjú hundruð silfurs segði hún til Gísla: „Auður tekur nú féð og lætur koma í einn stóran sjóð, stendur hún síðan upp og rekur sjóðinn með silfrinu á nasir Eyjólfi svo að þegar stekkur blóð um hann allan og mælti: „Haf nú þetta fyrir auðtryggi þína og hvert ógagn með. Engin von var þér þess að eg myndi selja bónda minn í hendur illmenni þínu. Haf nú þetta og með bæði skömm og klæki. Skaltu það muna, vesall maður, meðan þú lifir að kona hefur barið þig. En þú munt ekki að heldur fá það er þú vildir.““
Það skaðaði vissulega viðskiptahagsmuni Auðar að segja ekki til Gísla. Hún mat það hins vegar svo að betra væri að sýna siðferðilegan styrk en láta silfursjóð stýra gjörðum sínum og gildismati. Það sama á við enn í dag. Og þess vegna hvet ég Reykjavík til að standa við fyrri ákvörðun – og hvetja aðrar höfuðborgir til að taka upp sams konar innkaupastefnu.
Athugasemdir