Hún er niðurbrotin. Þorir ekki út úr húsi, enda hafa flestir hérna séð nektarmyndina af henni. Kærastinn var sá eini sem átti að sjá hana, en hann áframsendi myndina á vini sína,“ segir röddin í símanum.
„Hvað er þolandinn gömul?“ spyr ég og herði takið á símtólinu ósjálfrátt.
„Tólf ára.“
Þetta er ekki eina símtalið sem ég hef fengið af þessum toga, frá aðstandendum þeirra sem verða fyrir hefndarklámi. Þar sem ég sinni fræðslu um málefnið fæ ég stundum símtöl og póst frá fólki í upplýsingaleit. Hefndarklám, sem felur í sér að dreifa nektarmyndum eða myndskeiðum án samþykkis þess sem sést á myndefninu, er gróf innrás í einkalíf þolandans.
„Þeim var nær að taka þessar myndir“
Fyrirbærið hefndarklám dregur nafn sitt af hefndarþorsta sem vakir fyrir þeim sem dreifa nektarmyndum, oft í kjölfar erfiðra sambandsslita, af fyrrverandi maka eða elskhuga. Þá fylgir fullt nafn þolandans oft með til að hámarka skaðann, enda munu myndirnar þá vera samofnar nafni viðkomandi á netinu um ókomna tíð. Ef þolandinn er yngri en 18 er málið ennþá alvarlegra því þá varðar það jafnframt við lög um barnaklám.
Bitrir fyrrverandi makar eru þó ekki einu aðilarnir að baki hefndarklámi. Sumar nektarmyndir eru hreinlega falsaðar í myndvinnsluforritum. Afleiðingarnar eru þær sömu fyrir þolendurna og í öðrum hefndarklámsmálum. Einnig eru til dæmi um að nektarmyndir hafi verið teknar í ofbeldisaðstæðum, þar sem þolandinn er jafnvel meðvitundarlaus. Þá geta hefndarklámsmál átt uppruna sinn í tölvuárásum. Undir lok síðasta sumars urðu Jennifer Lawrence og fleiri stjörnur fyrir því að óprúttnir aðilar brutust inn og stálu stafrænum gögnum frá þeim, meðal annars nektarmyndum. Í umræðunni sem skapaðist í kjölfarið álösuðu margir þolendunum. Sumir höfðu á orði að þeim hefði verið nær að taka þessar myndir af sér yfirhöfuð.
Þörf viðhorfsbreyting
Sem betur fer hefur orðið viðhorfsbreyting gagnvart kynferðisofbeldi á undanförnum árum. Í dag átta flestir sig á því að manneskja sem klæðir sig í stutt pils er ekki þar með að samþykkja kynlíf. Stelpa sem samþykkir að sofa hjá strák er ekki þar með að samþykkja að sofa hjá vinum hans. Við þurfum að temja okkur sama hugarfar gagnvart hefndarklámi, því einstaklingur sem tekur af sér nektarmynd er ekki þar með að samþykkja að allur heimurinn sjái hana. Rétt eins og í öðrum kynferðisofbeldismálum þurfum við að setja ábyrgðina þar sem hún á heima. Hún liggur ekki hjá þolandanum, heldur hjá þeim sem beitti ofbeldinu.
Hefndarklám er nefnilega ofbeldi. Það sviptir aðra manneskju reisn sinni og friðhelgi, jafnvel það sem eftir lifir. Rannsóknir sýna að meirihluti nektarmynda sem fara á netið dreifa sér á margar vefsíður, oft klámsíður. Þolendur hefndarkláms upplifa því að nektarmyndir af þeim skjóta upp kollinum í hvert sinn sem einhver slær nafn þeirra inn í leitarvél. Með öðrum orðum eru klámsíður og nekt það fyrsta sem framtíðar atvinnuveitendur gætu séð, ásamt framtíðar tengdafjölskyldunni, framtíðar samstarfsfólkinu – öllum sem gætu tekið upp á því að gúgla þolandann. Víða um heim, þar á meðal á Íslandi, getur lögreglan lítið aðhafst í svona málum vegna þess að myndirnar eru vistaðar á erlendum vefsvæðum utan þeirra lögsögu.
Sendum skýr skilaboð
Að þessu sögðu væri óskandi að innleiða sértæk lög gegn hefndarklámi sem senda skýr skilaboð: Það er bannað að dreifa nektarmyndum af annarri manneskju án samþykkis hennar. Ef einstaklingur á Íslandi yrði uppvís að slíku gerðist hann brotlegur við íslensk lög, sama hvort hann setti myndina á erlenda vefsíðu eður ei. Staðsetning myndarinnar ætti ekki að hafa úrslitaáhrif, heldur verknaðurinn sjálfur. Þess vegna er gleðilegt að Björt framtíð hafi nýverið lagt fram þingsályktunartillögu um lög gegn hefndarklámi. Vonandi mun hún ná fram að ganga.
Eftir að hafa gengið úr skugga um að mál hins tólf ára gamla þolanda sé til skoðunar hjá lögreglunni og að hún hljóti nauðsynlega sálfræðiaðstoð kveð ég viðmælandann í símanum með orðunum: „Munið að hún er brotaþolinn í þessu máli. Hún verðskuldar stuðning og hjálp.“ Þetta gildir um alla þolendur hefndarkláms, sama á hvaða aldri þeir eru.
Athugasemdir