Maður þarf ekki að vera virkur í stjórnmálum á Íslandi lengi til að finna skítafýluna sem leggur yfir allt. Auk spilltra stjórnmálamanna og átaka innan og á milli flokka, þá er annað sem stingur mann ennþá meira, en það er að stjórnmálin eiga sér ákveðnar og fastmótaðar hefðir. Hefðir geta verið jákvæðar; þær tengja fólk við fortíðina og skapa ákveðna samkennd á meðal fólks. En hefðir geta líka verið afar heftandi og gert það að verkum að fólk með mikil völd og ábyrgð taki ákvarðanir sem eru skaðlegar eða hafa einhverjar ófyrirséðar afleiðingar. Þetta á sérstaklega við um hefðir í stjórnmálum.
Hefðir í stjórnmálum birtast í mörgum myndum. Stundum eru þær jafn saklausar og klæðaburður þingmanna; jakkaföt eru í lagi en engar bláar gallabuxur. Þetta er mér, vel á minnst, ennþá óskiljanlegt. Af hverju eru rándýr Hugo Boss jakkaföt virðulegri gagnvart hinum venjulega Íslendingi? Góð jakkaföt geta kostað margan Íslendinginn heil mánaðarlaun. Hvaða fordómar eru þetta gagnvart gallabuxum? En nóg um það.
Stundum eru tillögur og jafnvel lög samþykkt vegna þess að hefðir hafa skapast í kringum starfshætti kjörinna fulltrúa. Það kemur fyrir að stjórnmálamenn samþykki tillögur sem líta vel út til að byrja með. En jafnvel tillögur sem bornar eru fram í góðri trú geta verið vondar tillögur. Og jafnvel þó þær séu góðar þarf að fá stuðning við þær.
Það verður að segjast eins og er, að tillaga borgarstjórnar um að innkaupasviði borgarinnar yrði falið að útfæra það að borgin keypti ekki vörur frá Ísrael þar til látið yrði af hernámi á landsvæðum Palestínu, var ekki nógu vel hugsuð. Sennilega fór hún í gegn að hluta til út af hefðum um það hvernig meirihluti á að vinna saman. Þetta var líka mjög sérstakt tilfelli, að því leyti að borgarfulltrúinn sem lagði fram tillöguna var að ljúka störfum. Þessi tillaga öðlaðist þannig ákveðinn sess sem lokatillaga borgarfulltrúans, en ef til vill var hún ekki fullmótuð eða tilbúin til framlagningar. Þá er um að gera að læra af mistökunum og smíða vel upplýsta og undirbúna tillögu. Við það ferli yrðu bestu upplýsingarnar hafðar að leiðarljósi og fólkið sem stendur að baki tillögunni búið að fá stuðning annarra. Þannig yrði það tilbúið til að svara fyrir hana þegar gagnrýnin skellur á. Ég held nefnilega að það hafi enginn verið búinn undir svona rosalega hart bakslag, meðal annars frá ríkisstjórninni sem sló harkalega á puttana á borginni. Hún sagði að þetta samrýmdist ekki utanríkisstefnunni, en hafði samt ekki mikið fyrir því að útskýra hver stefnan væri raunverulega gagnvart Ísrael. Af viðbrögðunum að dæma mætti halda að hún væri sú að viðurkenna beri sjálfstæði Palestínu og fordæma skuli yfirgang Ísraels*, en bara svo lengi sem sú afstaða pirrar Ísrael ekkert.
Við studdum innrásina í Írak og við þegjum gjarnan þegar þjóðir úti í heimi brjóta mannréttindi ef það hentar tilteknum viðskiptahagsmunum.
Nú er það nefnilega þannig að Ísland er komið með ákveðinn orðstír erlendis. Út á við virðast Íslendingar vera mjög framarlega í þróun mannréttinda og við viðurkennum sjálfstæði ríkja á meðan aðrar þjóðir þegja. Ég leyfi mér að efast um það hversu mikið Ísland á skilinn þennan orðstír. Við studdum innrásina í Írak og við þegjum gjarnan þegar þjóðir úti í heimi brjóta mannréttindi ef það hentar tilteknum viðskiptahagsmunum. En gleymum ekki að mannréttindi voru hugsuð fyrir fólk, ekki fyrirtæki. Þess vegna heita þetta mannréttindi. Ég vil sjá nýjar hefðir taka við af þeim gömlu hjá stjórnmálastéttinni. Hefð fyrir því að Ísland standi í raun og veru með mannréttindum og hræðist ekki að segja það á alþjóðavettvangi, jafnvel þó það kunni að skaða sölu á íslenskum bjór eða vatni.
Annað eins vilja nú margir að gildi þegar kemur að því að standa með rétti okkar til hvalveiða. Þá er fólk sem mótmælir því og hótar okkur öllu illu gjarnan afgreiddir sem afskiptasamir útlendingar sem skilja okkur bara ekki og eru með einhverjar furðulegar hugmyndir í hausnum um það hvað hvalveiðar snúast.
Mikið væri nú gaman ef við gætum komið okkur upp sama viðhorfi gagnvart útlendingum sem hóta því að koma ekki til Íslands eða kaupa ekki íslenskar vörur vegna afstöðu okkar til mannréttinda. Að þeir skilji okkur bara ekki og séu með eitthvað furðulegar hugmyndir í hausnum um það hvað mannréttindi snúast.
Það væri góð hefð.
Athugasemdir