Erlendir fjölmiðlar eru oft aðgangsharðari en íslenskir. Þeir leyfa sér hluti sem þykja óforskammaðir eins og að mæta heim til einhvers með myndavél, líkt og blaðamenn Aftenpostens gerðu þegar þeir fóru niður á Arnarnesið. (Það fylgdi ekki sögunni hvort þeir hefðu líkt og Noel Santilian óvart keyrt alla leið upp á norðurland fyrst, en ef svo er fundu þeir sennilega engan viðmælanda á lögheimili Sigmundar).
En hvers vegna leyfa íslenskir fjölmiðlar sér sjaldan það sem erlendir fjölmiðlar gera án þess að afsaka sig? Hvers vegna segir Sigmundur Davíð í viðtali: „Þetta er nú spurning sem stjórnmálamenn fá sjaldan á Íslandi,“ líkt og til að vanda um fyrir sænska ríkissjónvarpinu, að svona væri ekki til siðs.
Sama dag og í ljós kom að Sigmundur hefði sigað sérsveit lögreglu á blaðamenn Aftenposten birtist önnur frétt í Morgunblaðinu um þingflokksfund framsóknar. Líkt og til að undirstrika muninn á Morgunblaðinu og Aftenposten stendur að ljósmyndari Morgunblaðsins hafi verið á staðnum en ekki fengið leyfi til að taka mynd af stjórnmálamönnunum því þeir voru óformlega til fara. Hvernig getur verið að fjölmiðill láti bjóða sér slíkt?
Ástæðan er kannski sú að oft á tíðum stendur samfélagið ekki með fjölmiðlinum heldur stjórnmálamanninum. Þegar Hafskips-málið kom upp, sem endaði á því Björgólfur Guðmundsson og fleiri fóru í fangelsi og upp komst um meiriháttar fjársvik, var sá fyrsti til að segja af sér ritstjóri. Það eitt og sér segir okkur hversu veikir fjölmiðlar á Íslandi eru.
Það veldur því ávallt vonbrigðum þegar bakland fjölmiðla bregst. Jafnvel virtir álitsgjafar snúast gegn frjálsri umræðu, eins og Egill Helgason, þegar hann sagði að Stundin hataði Sigmund Davíð. Ég veit að ég er að predika fyrir þeim trúuðu með því að skrifa þennan pistil í Stundina, áskrifendur þessa blaðs hafa fullan skilning á því að dagblöð og fréttamennska þurfi stuðning. Nú þegar hafa fjölmargir Íslendingar líka lagt Jóhannesi Kr. lið á Karolina Fund þegar upp komst að fyrir 10 mánaða vinnu (sem eflaust inniheldur miklu meira en venjulega 8 tíma vinnudaga fimm sinnum í viku) fengi hann einungis 1,5 milljón.
Hannes Hólmsteinn og Morgunblaðið voru fljót að reyna að gera upphæðina tortryggilega, því allar fjárhæðir undir hundruðum milljóna eru ávallt tortryggilegar í frjálshyggjuheiminum. (Hefði Jóhannes hins vegar gefið RÚV myndina hefði sama fólk velt vöngum yfir hvernig þetta væri fjármagnað).
„Ég áfellist hann ekki fyrir að þiggja pening fyrir blogg sitt, en það væri gott ef hann nýtti sér það ekki til að gera árásir á þá fjölmiðla sem enn eru sjálfstæðir.“
Jóhannesi var einmitt sagt upp árið 2013 þegar Sigmundur hóf sína fyrstu loftárás á RÚV. Hann fór tímabundið að vinna við annað, eflaust var málningarvinnan betur borguð og talsvert þægilegri. Hefði forsætisráðherra fengið að ráða hefði hann vafalaust haldið áfram þar, en flestir Íslendingar klóruðu sér í hausnum yfir því að einum fremsta rannsóknarblaðamanni landsins hefði verið sagt upp. Það er alveg ljóst að framsóknar- og sjálfstæðismenn vita hvað þeir eru að gera þegar þeir gera fjölmiðla tortryggilega. Þegar þeir ráðast gegn RÚV eða Stundinni. Eða DV á sínum tíma.
Það er því skrítið að fólk sem veit betur, þekkir vel til sögunnar, stjórnmála og fjölmiðla, taki undir með þeim. Á sínum tíma fannst Agli Helgasyni það fyrir neðan virðingu sína að skrifa hjá Bingamiðli, og skammaði skopmyndateiknara í tölvupósti sem lak út fyrir að gera það. Ég áfellist hann ekki fyrir að þiggja pening fyrir blogg sitt, en það væri gott ef hann nýtti sér það ekki til að gera árásir á þá fjölmiðla sem enn eru sjálfstæðir.
Við getum öll gleymt þessu. Sem starfandi rithöfundur fer hin árlega umræða um listamannalaun stundum fyrir brjóst mitt. Sum komment um listamenn eru særandi, sum gagnrýni og umfjöllun vanhugsuð, en ég hef ávallt reynt að muna að fjölmiðillinn er á endanum ekki ábyrgur fyrir öðru en því að segja frá. Ábyrgð listamanns og blaðamanns skarast sumstaðar, listamaðurinn er oft samfélagsrýnandi, að minnsta kosti nánast geimvera í samfélagi manna sem tekur engu sem gefnu. Ólíkt blaðamanninum hefur hann ekki þá skyldu að miðla staðreyndum, en hann hefur þá skyldu að vera sjálfstæður og óháður. Þess vegna ætti sú starfsstétt helst af öllum að geta skilið það þegar fjölmiðlar fjalla um þá. Munurinn á okkur og Sigmundi Davíð ætti að vera sá að þegar Jakob Bjarnar skrifar um kerfið sem er í kringum okkur, kerfi sem pólitíkusar reistu en ekki við sjálf, þá ættum við að geta séð það frá hans hlið líka, ekki bara okkar heldur geimverunnar sem tekur engu sem gefnu. Margir stukku upp á nef sér og ásökuðu Jakob um undarlegan ásetning. Kannski var hann ósanngjarn, það var líka ósanngjarnt að vara Sigmund ekki við því að hann myndi fá erfiðar spurningar um Wintris.
Fjölmiðlar eiga að vera í stríði við ráðandi öfl. Óvægnir. Ósanngjarnir. Ókurteisir. Þeir eru leiðinlega týpan sem bara heldur áfram að spyrja þótt allir séu þreyttir á spurningunni. Það er ekki við hæfi í matarboði, en það á að vera óþolandi í starfslýsingunni. Enda er blaðamaðurinn ekki gestur í samkvæminu, hann er boðflenna. Blaðamenn Aftenposten voru svo sannarlega boðflennur á Arnarnesinu, en þeir hötuðu ekki Sigmund, ekki frekar en RÚV, ekki frekar en Stundin.
Þetta veit Egill Helgason. Og því enda ég þennan pistil með áskorun á hann um að biðjast afsökunar á orðum sínum.
Athugasemdir