Nei, ekki örvænta. Þetta er ekki pistill um vanhæfa ríkisstjórn, verðtryggingu eða ESB. Satt best að segja hef ég ekki nógu háa greindarvísitölu til að skrifa um slík málefni. Þetta er fyrst og fremst hugleiðing um jólahald námsmanna, eða öllu heldur skort á jólahaldi. Á þessum tíma ársins, þegar skammdegið er að ná hámarki, situr margur vesalingurinn lokaður inni í helli að lesa skólabækur, með bauga niður á læri og koffínskjálfta. Á meðan er kannski fjölskyldan heima, tilbúin með jólakúlurnar og músastigana að bíða eftir að sameinast í hring í kringum jólatréð. En ekkert gerist. Og tár birtist á hvarmi. Kannski á næsta ári elskurnar.
Ég heiti Anna og er kona, vel á þrítugsaldri. Ég er í heildina tveir hlutir. Móðir og háskólanemi. Í hjáverkum er ég starfsmaður á Landspítalanum, húsmóðir, vinkona og ýmislegt annað sem ég vanræki verulega. Ég er hins vegar ekki jólabarn. Ég fer ekki í heljarstökkum út í Bónus þegar mandarínurnar koma. Ég hef ekki mikið dálæti á smákökum eða konfekti. Ég kasta mér ekki út á snæviþakið tún til að gera snjóengla. Ég á ekki einn einasta Georg Jensen óróa. Þó er ég enginn Grinch. Guð veit að ég hef rembst eins og rjúpan við staurinn við að verða jólabarn. Ég hef prufað að klæðast prjónaðri jólapeysu og hella heitu kakói í múmínbolla án árangurs. Sumir einfaldlega fæðast glaðari en aðrir og breytast í álfa í byrjun október. Aðrir ekki. Sem betur fer fyrir fjölbreytnina. En ég er hins vegar ein af þeim sem fer yfir um í prófatíð. Ég bölva jólunum í hástert yfir bókunum og gúffa í mig ruslfæði þar til ég kviðslitna og míg kaffi.
Ég hef yfirleitt haldið jólin hátíðleg í sálarangist yfir einkunnum með hlekk um hálsinn, merktan LÍN. Það þekkja eflaust flestir námsmenn þá tilfinningu. Þú verður að ná öllum námskeiðum annarinnar til að fá námslánin millifærð á þig, annars skuldar þú þeim aleiguna og heimurinn ferst með öllu. Þetta veldur oft prófkvíða. Skiljanlega. Svo kemur jólakvíði ofan á. Pressan á að halda fullkomin jól. Það er eins og maðurinn með ljáinn bíði eftir manni á aðfangadag til að meta hversu vel heppnuð jólin þín eru. Hversu vegleg jólakort þú sendir. Hversu vel þú þreifst fyrir jólin. Hvort þú hafir keypt nógu fín jólaföt. Hvað þú gefur fjarskyldum ættingjum í jólagjöf.
„Sá sem segir þér að eitthvað naglalakk úr nýju hátíðarlínunni sé ómissandi fyrir jólin er að hafa þig að fífli.“
Ég hef komist að því með árunum að þetta stress er ímyndað, kemur frá samfélaginu og er með öllu óþarft. Pressa á að kaupa fullt af drasli sem þú þarft ekki og gera hluti sem hafa engan tilgang. Ef þú stendur þig ekki eru jólin ónýt. Og engin leið að njóta. En hlustið nú kæru stressboltar. Þetta verður allt í lagi. Það er hægt að halda venjuleg jól og hafa gaman. Þetta snýst jú allt um að eiga góðar stundir er það ekki? Með sjálfum þér, fjölskyldu og vinum. Það er allt í lagi þó að jólakortin séu ekki með gylltum köntum og myndum af skælbrosandi börnum. Það er líka í lagi að bara sleppa jólakortunum. Það eru allar líkur á því að jólakortunum þínum verði hent um leið og þau eru lesin. Svo er svo hrikalegt úrval af jólakortum á ljósmyndavefunum að það er eðlilegt að fá skitusting yfir því. Þú þarft ekki að baka 17 sortir af smákökum. Það má kaupa þær tilbúnar. Þú þarft ekki að fara á fjórar fætur og skafa uppþornaða mjólk og annað klístur undan ísskápnum. Það er bara niðurlægjandi og svo fer enginn að gá þar undir. Þó að þú hafir ekki staðið þig í meistaramánuðinum og komist ekki í kjólinn fyrir jólin, þá er líka í lagi að vera í venjulegum fötum, jafnvel náttslopp. Fjölskylda þín er ekki að búast við því að þú farir í kvöldkjól með hátíðarförðun og greiðslu fyrir kvöldstund með þeim. Sá sem segir þér að eitthvað naglalakk úr nýju hátíðarlínunni sé ómissandi fyrir jólin er að hafa þig að fífli. Það er enginn að horfa á neglurnar á þér yfir matarborðið. Það má meira að segja sleppa jólabaðinu, ef það er ennþá engin megn lykt af þér.
Þú þarft ekki að eyða aleigunni í jólagjafir. Flestir meta gjafir ekki til fjár og yrðu ánægðir sama hvað leynist í pökkunum og enginn dæmir þig þó að þú heklir borðtuskur í pakkana. Það er töff og praktísk gjöf. Það er eins og maður eigi bara að geta skeint sér með fimmþúsundkrónaseðlum og keypt skandinavískar tréfígúrur í gjafapakkana án þess að sjái högg á vatni. Flestir, ekki bara námsmenn, eru að lepja dauðann úr skel í desember og þurrka tárin með jólagjafahandbókunum sem ásækja heimili þeirra. Hættum að gráta og förum bara með gjafapésana í endurvinnsluna. Engar áhyggjur. Þessir hlutir skipta ekki máli. Það sem skiptir máli er að gera það sem manni finnst skemmtilegt í jólafríinu. Hvort sem það er að raðhorfa á nokkrar þáttaseríur, sofa allan sólarhringinn, spila við vini eða hanga á skíðum. Það er allt leyfilegt. Ef þú ert sárlasið jólabarn og finnst gaman að baka og skreyta og jólast þá er það alveg frábært. En enginn ætlast til þess að þú reykir þitt eigið hangikjöt. Fyrir allnokkrum árum eyddi ég aðfangadagskvöldi með vinum mínum að búa til snjókarla á götunni fyrir utan heimili mitt, og keyra þá svo niður. Það var yndislegt. Svo óhefðbundið og barnalegt. Um það snýst þetta krakkar mínir. Að skemmta sér og njóta.
Athugasemdir