Almennt á ekki að uppnefna fólk þótt maður sé ósammála því. Uppnefni eru yfirleitt innantóm stimplun, sem er ekki upplýsandi og gera ekki annað en að grafa skotgrafir í umræðunni. Þegar einhver uppnefnir annan er hann að reyna að setja hann í hólf og afskrifa persónu hans þannig að ekki þurfi að ræða rök hans.
Svo eru tilfelli þar sem raunverulega er ekki ástæða til að taka sérstaka umræðu, þar sem niðurstaða af umræðunni getur ekki orðið önnur en annað af þessu:
1. Sú sama og við vissum fyrir.
2. Fordómar.
Umræða sem snýst um það hvort fólk, sem er af ákveðnu kynferði eða með ákveðna kynhneigð, eigi að hafa sama frelsi og aðrir, er umræða sem felur alltaf í sér fordóma, sem eru í sjálfu sér óupplýsandi afstaða og trompa þar af leiðandi uppnefni í rangri afstöðu. Það er freistandi að uppnefna slíkt fólk.
„Þú getur ekki fengið konur í alla vinnu sem menn vinna, eins og í kommúnistaríkjum.“
Tökum dæmi. Í Tyrklandi er forseti, Recep Erdogan, sem af föðurlegri umhyggju er umhugað um að útskýra fyrir konum landsins að þær standi ekki jafnfætis körlum.
„Þú getur ekki sett konu til jafns við karla. Það er andstætt náttúrunni. Þau voru sköpuð mismunandi. Náttúra þeirra er mismunandi. Þú getur ekki fengið konur í alla vinnu sem menn vinna, eins og í kommúnistaríkjum. Þú getur ekki sagt þeim að fara út og grafa í jörðina. Það er andstætt fíngerðri náttúru þeirra,“ útskýrði hann hrósandi. Hann minnti konur líka á að íslam hefði „skilgreint stöðu kvenna: móðurhlutverkið“.
„Mæður ættu ekki að setja starfsframann framar móðurhlutverkinu. Móðurhlutverkið er ekki starfsframi sem karlmenn geta öðlast,“ sagði heilbrigðisráðherra sama lands í byrjun janúar, þegar fólk fagnaði nýja árinu; árinu sem framtíðin gerðist í, samkvæmt kvikmyndinni Aftur til framtíðar.
Aðstoðarforsætisráðherrann í Tyrklandi sagði í fyrra að konur ættu ekki að hlæja á meðal fólks. Þær ættu bara að hlæja í einkarýmum.
Afleiðingarnar af þessum viðhorfum hafa ekki verið aukinn hlátur kvenna í einkarýmum. Samkvæmt tölfræði kvenréttindasamtaka í Tyrklandi hefur kynbundið ofbeldi aukist um 1.400 prósent á rúmlega áratug.
Ráðamennirnir hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir orð sín af tyrkneskum Twitter-notendum. Viðbrögðin voru að banna Twitter. Því þá sem geta ekki svarað með rökum og/eða geta ekki sannfært fólk með rökum, heldur bara valdi, verður að þagga.
Margir skilja ekki ofbeldi. Enda er kannski fátt að skilja. Það er álíka merkingarbært og öskur. Þeir sem skilja ofbeldi þurfa að passa sig á að sýna því ekki skilning um leið. En ofbeldi gegn einum hópi umfram annan á sér orsök sem getur verið skiljanlegt. Ofbeldið getur stafað af því að ráðandi aðilar í samfélaginu hafa skilgreint eðli ákveðins hóps samfélagsins, þannig að þeir brjóti gegn náttúrunni með því að sækja frelsi sitt og jafnrétti.
„Konur eru konum verstar,“ segja sumir. En nei, karlrembur í valdastöðum eru konum verstar. Og það sem er jafnslæmt er að þeir eru sjálfum sér og öllu samfélaginu verstir. Hver annar nær að þurrka út helminginn af auðæfum lands síns, bara með einfaldri og heimskulegri afstöðu til lífsins?
Ef niðurstaðan er að konur eigi að halda sig við móðurhlutverkið, en að það sé rangt af þeim að fullnýta möguleika sína á öðrum sviðum, missa fyrirtæki, stofnanir og samfélagið almennt að stórum hluta af fullnýtingu á getu, hugmyndum og snilld helmings mannauðsins. Það þýðir ekki að það sé rangt að einbeita sér að foreldrahlutverkinu, heldur að það sé rangt að hólfa fólk og ákvarða viðfangsefni lífs þess með boðvaldi byggt á kyni, húðlit eða öðru óbreytanlegu, vegna þess að einstaklingar eru sjálfir færastir um að finna sér stað þar sem þeir nýta best getu sína. Það er ekki tilviljun að samfélög sem hafa til að bera mesta jafnréttið eru jafnframt ríkustu samfélög heimsins, enda er ekki líklegt til árangurs að útiloka nánast helming mannauðsins frá því að fullnýta möguleika sína.
Góðu karlarnir sem vilja vernda fíngerðar konur fyrir útiveru, athygli og vinnu ættu samt ekki að vera kallaðir „hálfvitar“. Að kalla þá „hálfvita“ væri að segja að þeir væru óforbetranlegir og óbreytanlegir í eðli sínu. En þeir eru það ekki. Þeir eru líkamlega fullfærir um að læra að elda og sjá um börnin sín til jafns við maka sinn. Þeir bara ákveða að gera það ekki og deyja eflaust flestir án þess að skilja að skoðanir þeirra fela ekki bara í sér misrétti, heldur líka gríðarlegt tap fyrir samfélagið og þá sjálfa.
Þeir eru ekki hálfvitar, heldur einstaklingar með hálfvitalegar skoðanir.
Athugasemdir