Túrismi er að heita má umhverfisvænn iðnaður og að því leyti er gríðarleg fjölgun túrista á Íslandi á stuttum tíma ekki það versta sem hægt er að hugsa sér, raunar frekar jákvæð þróun. Sjálfbær iðnaður, skulum við segja. Hið besta mál.
Á Spáni, þangað sem Íslendingar leggja leið sína á sólarstrandir, varð svipuð bylgja á tímum Franco og raunar var það frá upphafi hönnuð atburðarás, einn ráðherra í ríkisstjórn Franco, Manuel Fraga, ákvað að besta leiðin til að rétta við fjárhag Spánar væri að búa til nýja tegund af túrisma þar sem Spánn væri áfangastaðurinn og það faktískt ekki hinn upprunalegi Spánn heldur heilu svæðin og borgirnar sem voru hreinlega teiknuð og hönnuð og reist með sólarstrandatúrisma fyrir augum. Nútíma túrismi er þannig að einhverju leyti afurð fasismans í Evrópu.
„Nútíma túrismi er þannig að einhverju leyti afurð fasismans í Evrópu.“
En enda þótt túrismi hafi margt jákvætt í för með sér fyrir Ísland eru einnig skuggahliðar. Túristarnir eru ekki á lokuðum svæðum til þess að frílysta sig og verða brúnir og drekka sangríu, þeir eru út um allt; fyrir skemmstu var ég við störf á bóndabæ á Austurlandi og þar var ekki sjaldgæft að túristarnir stoppuðu bílinn við þjóðveginn til að taka myndir af mér, til þess að eiga minningu um sveitadurg tilsýndar, mig, og nokkrar skjátur á túni. Þetta er í raun hálfgerður ágangur. Maður tekur ekki myndir á heimili ókunnugra og veður heldur ekki inn á túnið hjá næsta manni. Þótt í það sé sem blíðlegast tekið og af húmor.
Og í raun hefur af hálfu stjórnvalda verið staðið að aukningu túrisma af furðulegu fyrirhyggjuleysi. Það merkir að infrastrúktúr og öll ytri umgjörð eru ekki í stakk búin til að taka á móti þessu. Ég nefni sem dæmi Mývatn, þangað komu fimm hundruð þúsund túristar síðasta sumar, er mér sagt, og það er enginn útikamar á svæðinu. Ekki sökum að spyrja hvað túristarnir gera, þeir kúka og pissa þar sem þeir eru staddir þegar þeim verður brátt í brók. Það vantar girðingar og skilti og varnaðarorð og hlið og stikur og salerni og þjónustumiðstöðvar og upplýsingamiðstöðvar og söfn og veitingahús og byggingar og fastar gönguleiðir. Til þess að útbúa slíkt þarf augljóslega peninga. Og í stað þess að leggja einfaldlega skatt á geirann, koma á gistináttaskatti, eyða stórnvöld tíma í fáránlega dillu eins og náttúrupassa, sem er galin hugmynd frá upphafi, mun aldrei ganga upp og hefur í farteskinu hugmyndir sem varla er hægt að kenna við annað en ranglæti, mismunun, eitthvert grillufang.
„Í raun hefur af hálfu stjórnvalda verið staðið að aukningu túrisma af furðulegu fyrirhyggjuleysi. Það merkir að infrastrúktúr og öll ytri umgjörð eru ekki í stakk búin til að taka á móti þessu.“
Ég held að það muni fljótlega koma drep í túrisma á Íslandi. Þegar túristinn uppgötvar að hann hefur ekki rambað á þær sjaldgæfu slóðir sem hann ætlaði sér verður hann fyrir vonbrigðum. Og þegar hann uppgötvar að það er engin aðstaða fyrir hann, að hann kemst ekki á klósett þegar hann þarf þess, að hann getur farið sér að voða án þess að neitt vari hann við, hann fær ekki gistingu, getur ekki gengið að vissum hlutum vísum, þá taka að renna á hann tvær grímur. Ef þetta á að halda áfram þurfa íslensk stjórnvöld að taka sér spænska fasista til fyrirmyndar. Enda virðast þau gera það að ýmsu öðru leyti.
*Grein Hermanns Stefánssonar er innlegg í umfjöllun um ferðamannaiðnaðinn á Íslandi sem birt er í júníblaði Stundarinnar.
Athugasemdir