Þótt Íslendingar séu upp til hópa fallistar í fjármálalæsi hefur okkur farið töluvert fram á síðustu árum. Skuldsetning heimila hefur minnkað og unga fólkið veður ekki lengur út á hinn snargalna fasteignamarkað eins og enginn sé morgundagurinn eins og við gerðum fyrir hrun. Okkur er vorkunn. Það er erfitt og jafnvel ómögulegt að gera pottþéttar áætlanir um fjármál sín þegar gjaldmiðillinn sem við fáum útborgað í er ónýtur en skuldirnar verðtryggðar. Það er svo sem hægt að gera plön en fyrr en síðar kemur gengissveiflan og rústar þessu. Annað hvort er krónan sterk og við höldum að við séum milljónamæringar og förum að nota flugvélar eins og strætó eða þá hún fellur og allt í einu erum við föst á þessari eyju, í miðju Atlantshafinu, og náum varla endum saman því allt er svo dýrt og lánin halda áfram að vaxa og vaxa
Síðustu ár hafa ríkisfjármálin verið í álíka rússibanareið. Með ríkisfjármálaáætlun á þó að reyna að koma á þau böndum, auka stöðugleika og fyrirsjáanleikann og í sjálfu sér er það góð hugmynd. Gallinn við stjórnmálin er meðal annars skammtímahugsunun. Menn hugsa í mesta lagi um eitt kjörtímabil í einu. Og fjögur ár er alls ekki langur tími.
Stóri ókosturinn við ríkisfjármálaáætlunina er ekki sú að hún sé gerð, lögð fram og rædd, heldur hvað stendur í henni. Eða kannski öllu heldur hvað vantar í hana. Það skortir nefnilega langtímafjárfestinu í þjóðinni sjálfri og velferð hennar.
Nýr landspítali er reyndar loksins kominn á kortið en ekki er hægt að leysa allt með steinsteypu. Ég geri ekki lítið úr þörfinni á myglulausu húsnæði sem samræmist þörfum nútímalæknisfræði og rúmar alla jáeindaskannana og hvað þetta heitir allt, en hús kemur aldrei í staðinn fyrir þjónustu. Og okkur vantar miklu betri þjónustu við fólkið okkar og það er óendanlega dýrt að láta slíkt sitja á hakanum. Þótt við spörum einhverjar krónur núna þá mun það kosta okkur svo miklu meira síðar.
„Það er miklu ódýrara fyrir okkur sem samfélag að gera sjúkraþjálfun gjaldfrjálsa en að halda stórum hluta landsmanna á bótum og í vanlíðan.“
Nýlega hlustaði ég á þætti Mikaels Torfasonar, Fátækt fólk. Þar var svo sem ekki margt sem kom á óvart. Mestar líkur eru að festast í fátæktargildrunum (og þetta eru sannarlega gildrur) ef fólk elst upp við erfiðleika eða ef fólk veikist og getur ekki unnið. Jafnvel þeir sem eru á lægstu laununum eiga séns en það eiga þeir veiku ekki. Og veikindin eru oftar en ekki af andlegum toga eða stoðkerfisvandamál. Líkaminn gefst upp á erfiðisvinnu og álagi.
En þetta þarf ekki að vera svona. Þetta eru nefnilega ekki óyfirstíganleg vandamál eða náttúrulögmál heldur í mörgum tilfellum verkefni fyrir samfélagið að leysa. Öryrkjar sem hafa ekki efni á að fara í nauðsynlega sjúkraþjálfun tvisvar í viku munu áfram vera óvinnufærir. Það er miklu ódýrara fyrir okkur sem samfélag að gera sjúkraþjálfun gjaldfrjálsa en að halda stórum hluta landsmanna á bótum og í vanlíðan. Það sama á við um andlegu líðanina. Fjölmiðlar þreytast ekki á að benda á að Íslendingar eigi heimsmet í geðlyfjanotkun. Samt höfum við smíðað fáránlegt kerfi sem mismunar eftir efnahag og hindrar aðgang að sálfræðingum og geðlæknum, þótt stigin hafi verið hænuskref í rétta átt. Þeir verst settu geta ekki borgað fyrir sálfræðiþjónustu og munu því halda áfram að vera „hinir verst settu“. Og við þurfum að vera miklu duglegri að veita börnum og ungmennum nauðsynlega þjónustu í gegnum skólakerfið þar sem auðveldast er að ná til þeirra. Við getum nefnilega útrýmt barnafátækt – bara ef við ákveðum að gera það. En þá þurfum við líka að ákveða að fjárfesta í fólkinu okkar og styðja það alla leið til betra lífs. Það er langbesta fjárfestingin en hana er hvergi að finna í ríkisfjármálaáætlun fjármálaráðherra. Þar er bara verið að pissa í skóinn.
Athugasemdir