Fyrir kosningar voru þeir margir sem bentu á að það yrði mjög erfitt – jafnvel ómögulegt að starfa með Pírötum við stjórn landsins. Þessar skoðanir tengdust yfirlýsingagleði forsvarsmanna flokksins. Þar voru oft notaðar setningar eins og þessar: það er ófrávíkjanleg krafa okkar að þetta náist fram eða við gefum ekkert eftir varðandi stefnu okkar í þessum málaflokki. Oftast átti þessi skýlausa afstaða rætur sínar að rekja til ályktana sem voru samþykktar á félagsfundum sem haldnir voru á Fiskislóð 27 í Reykjavík. Og í framhaldinu var þessu vísað í kosningakerfi flokksins.
Gallað kosningakerfi
Kosningakerfi Pírata er meingallað. Innan við þrjú prósent flokksmanna tekur þátt í kosningum um einstök stefnumál og því er vægast sagt óskynsamlegt að segja að um samþykkta stefnu sé að ræða. Í mesta lagi er hægt að segja að kosningin sé ráðgefandi um stefnuna. Félagsfundirnir eru virkilega góðir og það þarf að virkja grasrótina betur til þátttöku á þeim. Með því náum við að byggja upp baráttuandann og hjálpa flokksmönnum að gera sig gildandi í stjórnmálum.
Uppsláttur í fjölmiðlum
Undanfarið hefur umræðan í fjölmiðlum verið sérlega rugluð þegar Píratar hafa gefið eftir af ítrustu kröfum sínum. Gjarnan eru notuð upphrópunarmerki til að árétta hversu svínbeygðir þeir eru. Hér ber hæst að þeir hættu við að krefjast tveggja ára kjörtímabils svo og að allir ráðherra næstu ríkisstjórnar þyrftu að vera utan þings.
Píratar rökstuddu kröfuna um stutt kjörtímabil með því að þá væri hægt að ganga hratt til verks með að lagfæra stjórnarskrána. En ef öðrum flokkum hugnast ekki að klára hana sem fyrst þá verða menn bara að velja næstbesta kostinn. Og þá má líka búast við að vandaðri stjórnarskrá líti dagsins ljós.
Krafan um að allir ráðherrar í ríkisstjórn séu utanþings gengur ekki upp vegna þess að það er ekki hægt að segja öðrum stjórnmálaflokkum til um hvernig þeir skipa sína ráðherra. Píratar munu beita reglunni um ráðherra utanþings og spá mín er sú að þetta fordæmi Pírata verði öðrum til eftirbreytni í þeim ríkisstjórnum sem verða myndaðar í framtíðinni. Reglan er meðal annars viðhöfð í Norska þinginu. Og á fámennum þingum getur það skipt sköpum að fá inn varaþingmenn í stað ráðherranna því þá dreifast þingstörfin á fleiri þingmenn.
Í hverju felast þingstörfin
Rétt er að benda á að þingstörfin eru að mestu leyti fólgin í nefndarvinnu. Þar eru málin rædd án upphrópana og oftast næst sameiginleg stefna í einstökum málum. Margir þingmenn nota ræðustólinn í þingsalnum til metnaðarfullra umræðna; en svo eru aðrir sem skella sér í hanaatið – þarna er um að ræða athyglissjúka þingmenn sem nota stórkarlaleg og galgopaleg fúkyrði og vona að ræpan úr þeim rati í fjölmiðla. Ótalið er svo hvernig ræðustóllinn er notaður til að tefja fyrir og skiptir þá engu máli hvort um er að ræða mikilvægt þjóðþrifamál eða smáatriði – aðalatriðið er að tefja fyrir og eyðileggja.
Það er því mjög skiljanlegt að almenningur ber ekki mikið traust til Alþingis. Vonandi munu nýkjörnir þingmenn temja sér stórbætt vinnubrögð á næsta þingi.
Flokkurinn okkar er ungur
Vissulega geta píratar hér á landi lært mikið af bræðraflokkum sínum í öðrum löndum. Þar hefur margt gengið vel en margt farið úrskeiðis. Og af hvorutveggja má draga gagnlega lærdóma. Í mínum huga sé ég uppbyggingu flokksins sem eins konar píramída. Grunnurinn er byggður af almennum flokksmönnum – virkri grasrót. Og þannig er píramídinn myndaður – lag ofan á lag. Efst í píramídanum tróna síðan forsvarsmenn okkar á þingi og í ýmsum öðrum störfum. Það er síðan mjög æskilegt að píramídinn verði ekki svona kantaður eins og glerpíramídarnir sem við kaupum í minjagripaverslunum í Kaíró. Píramídinn okkar þarf að veðrast. Hann á að verða eins og píramídarnir sem varðveist hafa í Egyptalandi – án hvassra kanta.
Höfundur er fyrrverandi framhaldsskólakennari.
Athugasemdir