Löngum hefur herjað á Ísland mikil vá. Vá þessi er erlend áhrif og henni virðist seint ætla að linna. Ég finn mig því knúinn til að skrifa þennan pistil, enda er ég eldri en flestir Íslendingar og man betri tíma. Einfaldari tíma.
Þetta hófst sakleysislega, eins og oft. Einstaka fuglar sem ég hafði aldrei séð áður fóru að venja komu sína hingað til eyjunnar. Þeir báru auðvitað með sér skít sem þeir dreifðu í skilningsleysi sínu um allt land. Í skítnum leyndust laumufarþegar í formi erlendra fræja og áður en ég vissi af voru hér farnar að spretta ógeðslegar nýjar plöntur og blóm í alls kyns fáránlegum litum sem ógnuðu innra samræmi náttúru Íslands. Sumar plönturnar urðu að trjám sem gerðu síðan flóttafuglum auðveldara að setjast hér að og spilla ósnortinni náttúru Íslands enn fremur með tilheyrandi hreiðrum, fuglasöng og gargi. Fræjunum að endalokunum hafði verið sáð. Bókstaflega.
„Stuttu seinna fór að bera á einhverjum helvítis munkum sem settust hér að með sínu trúarofstæki og þunglamalegu kuflum. Maður skilur ekki svona.“
Stuttu seinna fór að bera á einhverjum helvítis munkum sem settust hér að með sínu trúarofstæki og þunglamalegu kuflum. Maður skilur ekki svona. Það var síðan rétt eftir aldamótin þar, þar, þar, þar, þar, þar, þar, þar, þar, þar, þar, þar seinustu sem landið tók að fyllast af alls kyns óþjóðalýð. Þessi skrímsli kölluðu sig víkinga en eru í mínum huga ekkert annað en aumingjar sem flúðu sín heimalönd í sturlunarástandi. Í hópi víkinga voru nauðgarar, glæpamenn og geðsjúklingar. Víkingunum fylgdu í þokkabót alls kyns siðspilltar ambáttir og þrælar sem víkingamorðingjarnir höfðu rænt hér og þar á ferðalögum sínum. Þarna var mér nóg boðið, en ég sagði ekkert enda réði góða fólkið allri umræðu, með sínu tilfinningaklámi og asnalegu von um betri heim.
Víkingarnir undu náttúrlega ekki þögninni frekar en nokkur og áður en ég vissi af voru þeir farnir að tala undarlegt tungumál sem þeir dirfðust loks að kalla íslensku; einhvers konar ógeðslega samsuðu af norrænum og germönskum mállýskum. Þarna höfðu erlend áhrif endanlega náð fótfestu hér á landi og draumurinn um óspillta náttúru og ljúfa þögn var úti.
Þaðan fórum við úr öskunni í eldinn. Erlend áhrif jukust. Hér fór að bera á allra þjóða kvikindum sem þráðu ekkert heitar en að spilla móðurjörð minni. Danir, Norðmenn, Írar, listinn er endalaus. Aðrir sem höfðu alist hér upp ferðuðust úr landi til þess eins að koma síðan aftur, auðvitað í mína óþökk. Með öllum þessum óþjóðalýð bárust alls kyns úrkynjaðar hugmyndir frá Mið-Austurlöndum og víðar, eins og stærðfræði, heimspeki, arkitektúr og annar viðbjóður. Hér fór að bera meira á tónlist og var hún núna búin að spillast til að innihalda fleiri nótur en bara grunnnótur og fimmundir. Svona gerist þetta, eina stundina ertu að syngja einradda um að deyja úr sýfilis eins og venjuleg manneskja og áður en þú veist af er fólk farið að syngja stórfurðuleg lög! Með melódískum viðlögum og alls kyns kontrapunkti og röddunum! Þetta gerði náttúrlega ekkert fyrir íslenska þjóðmenningu nema að útþynna hana enn fremur og spilla æskunni.
Síðan þá hafa erlend áhrif bara aukist og þykir mér í raun mesta mildi að við höfum ekki tortímt okkur nú þegar. Nú til dags getur hver sem er notað nýjustu djöflauppfinninguna, internetið, og leyft erlendum hugmyndum að flæða inn í heilabúið og spilla. Ljóst er að hið eina sanna Ísland sem ég þekkti í æsku minni er horfið að eilífu og í staðinn er hér komið samfélag fólks sem gæti allt eins kallað sig heimsborgara frekar en Íslendinga.
Höfundur er 7000 ára gamalt tröll.
Athugasemdir