„Með hvaða íslensku bók eða bók á íslensku mælið þið með fyrir 13 ára lestrarhest?“ spurði vinkona mín á fésbókinni fyrir nokkru. Ekki stóð á svörum. Hjálplegir vinir dældu inn ábendingum. Margar voru góðar og það er gaman að sjá að fólk kann að meta frábærar barna- og ungmennabækur síðustu ára. Aðrir stungu upp á því sem þeir sjálfir höfðu verið að lesa á sama aldri. Nefndar voru bækur og bókaflokkar sem komu út fyrir áratugum (og jafnvel 150 árum) og vöktu góðar minningar í hugum fólks, gamlir vinir. Og svo voru það þeir sem stukku beint í fullorðinsbækurnar. „Brekkukotsannál las ég um tólf eða þrettán ára aldur. Og fannst frábær,“ sagði einn. Og var lestrarhesturinn ungi búinn að lesa Agötu Christie, Sherlock Holmes og Stephen King? Salka Valka, Atómstöðin og Sálmurinn um blómið sem og Aðventa Gunnars Gunnarssonar komust allar á blað þótt tekið væri fram að best væri að geyma Aðventu fram í desember. Ég myndi reyndar geyma Aðventu fram á tvítugsaldurinn. Jafnvel lengur.
Ég verð að viðurkenna að þótt ég hafi haft gaman af þessari umræðu olli hún mér líka vonbrigðum. Ég var heldur ekki að lesa eða heyra að börn ættu bara að stökkva yfir nokkur ár í þroska er kemur að bóklestri í fyrsta sinn. Í umræðuhópum um bækur á fésbókinni gefur fólk foreldrum í bland bæði vond og góð ráð um bækur. Móður níu ára drengs er ráðlagt að kaupa handa honum bækurnar um Frank og Jóa og sumum finnast fornbókasölur besti staðurinn til að leita að barnabókum. Þar eru allir gömlu vinirnir í haugum. Fagleg umfjöllun um barnabækur í fjölmiðlum er líka lítil sem engin á meðan heilu opnurnar eru lagðar undir nýjustu Hollywood-myndina. Það er því erfitt fyrir foreldra að átta sig á flórunni.
„Sennilega er fátt líklegra til að drepa lestraráhuga krakka en leiðinlegar eða óskiljanlegar bækur.“
Barna- og ungmennabækur hafa aldrei verið í harðari samkeppni. Þær þurfa ekki aðeins að keppa við aðrar bækur og eina kvikmynd á viku eins og þetta var á síðustu öld heldur líka allar tölvurnar, samfélagsmiðlana, ótakmarkað sjónvarpsefni og svo ótalmargt fleira. Höfundar og útgefendur hafa þó ekki gefist upp og á hverju ári koma út frábærar barnabækur á Íslandi. Greinin ber sig þó ekki. Íslensk börn eru einfaldlega alltof fá til að standa undir markaði með barnabækur.
Norðmenn eru 15,6 sinnum fleiri en Íslendingar. Engu að síður telja Norðmenn sig smáþjóð sem talar tungumál sem vernda þurfi sérstaklega. Þeir vita líka að án lesturs og góðra barnabóka er tungumálið í hættu. Þess vegna styðja þeir rausnarlega við útgáfu barnabóka. Þeir veita barnabókahöfundum listamannalaun í sérstökum flokki. Útgefendur geta einnig fengið framleiðslustyrki svo hægt sé að gefa út bækur sem eru dýrar í framleiðslu, myndríkar eða gefnar út fyrir fámenna hópa, t.d. yngstu börnin. Mesti stuðningurinn felst þó í stórfelldum innkaupum á barnabókum sem sérstakt innkauparáð dreifir á almenningsbókasöfn, skólasöfn og leikskólasöfn. Keypt eru 1.480 eintök af næstum öllum útgefnum bókum fyrir börn sem standast gæðakröfur, auk rafbóka. Greidd er ákveðin upphæð fyrir hvern titil, óháð markaðsverði bókanna, og skiptist greiðslan á útgefandann og höfundinn. Þetta kerfi kemur sér ekki bara vel fyrir höfunda og útgefendur. Það er langbest fyrir krakkana sjálfa sem hafa fyrir vikið aðgang að mun fleiri og fjölbreyttari nýjum og spennandi bókum á næsta bókasafni. Það er því alveg óþarfi fyrir norska foreldra að leita að Frank og Jóa hjá fornbókasalanum. Sum íslensk skólabókasöfn sækja safnkostinn í Góða hirðinn.
Sennilega er fátt líklegra til að drepa lestraráhuga krakka en leiðinlegar eða óskiljanlegar bækur. Barna- og ungmennabækur þurfa að endurspegla samtíma og samfélag lesenda sinna og það þarf að vanda sérstaklega til þeirra. Það er alltaf hægt að lesa Njálu seinna.
Athugasemdir