Þannig hljómar ein mikilvægasta spurning í sögu íslenskrar fjölmiðlunar: „En hvað með þig, herra forsætisráðherra? Hefur þú sjálfur haft einhver tengsl við aflandsfélag?“
Fram að því hafði viðtalið gengið ágætlega. Sigmundur Davíð talaði um mikilvægi þess að endurheimta traust í íslensku þjóðfélagi; traust á stjórnvöldum og fjármálakerfinu – en nú vafðist honum tunga um tönn.
Sá sem hefur hreina samvisku lendir ekki í vandræðum með spurningu sem þessa. Hún vafðist hins vegar mjög fyrir Sigmundi Davíð. Hann var á köflum óskiljanlegur og neitaði tengslum sínum við aflandsfélag. Forsætisráðherra hélt áfram að segja ósatt eftir að Tortóla-félagið hafði verið nefnt á nafn og skrifaði loks fyrirsagnir heimspressunnar með fótsporum sínum þegar hann stakk af úr miðju viðtalinu.
Nú loksins sér maður málið í réttu ljósi. Yfirlýsing eiginkonunnar um fjármálin var einfaldlega svarið við spurningunni sem Sigmundur Davíð tafsaði á. Og sama gildir um hugmyndir hans um tilfærslu Landspítalans og áform Framsóknarflokksins um að afnema 110 ára leynd af stjórnsýslugögnum. Hvort tveggja hefur verið hugsað til þess að beina athyglinni annað.
Nú skil ég líka betur árásir framsóknarmanna á RÚV. Sigmundur Davíð sagði sjálfur að fréttastofan veldi sér viðmælendur sem eru sérstaklega neikvæðir í hans garð. Hér ber þó að nefna að hann hefur ítrekar hafnað boði fréttastofu um að koma í viðtal og gera grein fyrir málinu. Það er því erfitt að vorkenna honum þegar hann barmar sér yfir skorti á málsvörum.
Viðtalið breytti öllu. Sigmundur Davíð sagði ósatt til um aðkomu sína að aflandsfélaginu. Það liggur fyrir. Jafnvel þegar hann sagði frá félaginu, sagði hann ekki allan sannleikann. Forsætisráðherra er líka búinn að stórskaða orðspor þjóðarinnar út á við. Fjölmiðlar heimsins birta nú hver af öðrum myndbandið af forsætisráðherra Íslands stinga af í miðju viðtali – þegar hann er spurður um félag á Tortóla!
Nú reynir á siðferði stjórnarflokkanna: Bar Sigmundi Davíð að tilkynna um hagsmuni sína þegar hann sat beggja megin borðs í samningunum við kröfuhafana? Er hann búinn að gera grein fyrir sínum skattamálum á fullnægjandi hátt? Er í lagi að hann hafi sagt ósatt um aðkomu sína að aflandsfélaginu? Mun Alþingi fá vinnufrið það sem eftir lifir kjörtímabils? Hvað verður um trúverðugleika landsins ef Sigmundur Davíð heldur áfram?
Þegar þetta er ritað hafa 23.000 Íslendingar skrifað undir fordæmalausa áskorun, þar sem þess er krafist að forsætisráðherra landsins segi af sér. Mér segir svo hugur að mótmælin, sem boðað er til klukkan 17:00 á Austurvelli í dag, verði þau fjölmennustu frá hruni.
Ég skora á alla að mæta á Austurvöll og láta vita að þetta er ekki í lagi. Sigmundur Davíð verður að segja af sér!
Athugasemdir