Við lifum á sérstökum tímum. Tímum þar sem það verður æ skýrara að valkostirnir sem maður stendur fyrir eru yfirleitt í grunninn tveir. Kærleikur eða ótti.
Í gær bárust fréttir af því að búið sé að ákveða að búa almenna lögregluþjóna á Íslandi með byssum. Á bak við tjöldin hefur verið unnið að þessu í langan tíma, en það var fyrst í gær sem upplýsingarnar bárust almenningi. Því er haldið fram að það sé algjör tilviljun. Það er kjánalegt að reyna að bera það á borð fyrir viti borið fólk. Innan raða lögreglunnar á Íslandi eru aðilar sem hafa lengi gengið með blauta drauma um að sjá slíka vopnavæðingu verða að veruleika. Hryðjuverkin í París skutu fólki skellk í bringu. Þá var lag fyrir þá að bera draumsýnina almennilega á borð fyrir almenning. Nú á að ala á óttanum. Það þarf að verja þegnana segja hinir byssuþyrstu.
Ég hef gert nokkra ítarlega þætti um undirheimana í Reykjavík og við gerð þeirra kynnst innanbúðarmönnum bæði innan lögreglunnar, sem og úr undirheimunum. Við gerð eins þáttanna fyrir rúmum tveimur árum sagði yfirmaður innan lögreglunnar orðrétt við mig: „Ef almennir lögreglumenn á Íslandi fara að ganga með byssur verður bara tímaspursmál hvenær við sjáum skotbardaga í Reykjavík.“
Hann var á móti því að setja skammbyssur í almenna lögreglubíla á Íslandi. Ég var hjartanlega sammála honum og þessi orð hans sátu í mér. Ég hef hugsað til þeirra í hvert einasta sinn sem umræður hefjast um að skammbyssuvæða lögregluna.
Rökin sem borin eru á borð núna eru þau að ekkert minna en byssur dugi til að vernda borgarana. Þvert á móti er hins vegar nánast öruggt að byssuvæðing lögreglunnar kemur til með að búa til hættulegra samfélag. Vopnavæðing lögreglunnar mun ýta undir aukna vopnavæðingu innan undirheimanna.
Ég tek það fram að ég ber mikla virðingu fyrir störfum lögreglunnar. Þolinmæði íslenskra lögreglumanna er nær undantekningarlaust aðdáunarverð. Oftar en einu sinni hef ég setið í bílum með lögreglunni í Reykjavík að næturlagi og fjallað um störf lögreglumanna. Flestir gera sér enga grein fyrir álaginu sem starfinu fylgir. En einmitt þess vegna er alls gott að ekki sé verið að höndla með byssur. Jafnvel allra besta fólk getur misst stjórn á sér eitt augnablik þegar verið er að vinna enn eina næturvaktina eftir lítinn svefn og enn einn snillingurinn í misjöfnu ástandi byrjar að áreita þig.
Fyrir utan þá einföldu staðreynd að aukin eign, sýnileiki og notkun á byssum mun augljóslega ekki búa til öruggara samfélag, eru stærstu rökin gegn byssuvæðingu lögreglunnar þau að við erum með henni að taka risastórt skref í kolranga átt. Við höfum hingað til verið fyrirmynd fyrir önnur lönd, en ekki öfugt. En í stað þess að Ísland verði áfram fordæmi fyrir heiminn allan með byssulausri götulögreglu, ákveðum við að hoppa á vagn óttans og apa upp eftir hinum.
Ég held að við áttum okkur almennt ekki alveg á því hversu gríðarlega fallega sérstöðu við höfum átt með því að hafa ekki skammbyssubúna lögreglumenn. Í hvert einasta sinn sem maður heimsækir nýja borg erlendis og sér lögreglumenn gráa fyrir járnum með skammbyssur í beltum hefur rjátlast um mann þakklæti fyrir að hafa fæðst á Íslandi. Nú á að kasta því öllu á glæ.
Ákvörðun um að byssuvæða almenna lögreglu er allt of stór til að hana sé hægt að taka í bakherbergjum af misvitrum einstaklingum.
Ofbeldisbrotum á Íslandi er ekki að fjölga og engin almennileg rök hafa verið færð fyrir því af hverju það þarf allt í einu að vígbúast.
Ef það á að verja mig með því að skammbyssuvæða opinbera starfsmenn bið ég frekar um að fá að vera varnarlaus. Berjumst gegn þessu með kjafti og klóm. Nei takk. Engar helvítis byssur!
Athugasemdir