Málefni landsbyggðarinnar eru mér hugleikin. Hjarta mitt slær á landsbyggðinni, nánar tiltekið í Stykkishólmi þar sem ég fæddist. Það er óumdeilanlega fallegasti staður á Íslandi að mínu mati, skiljanlega. Þar sleit ég barnsskónum. Þar á ég fjölskyldu og vini. Þar vil ég á endanum deyja. En það eru fleiri hjörtu sem slá á landsbyggðinni en mitt.
Ég á fertugan bróður sem hefur búið í Hólminum alla tíð. Hann er einn af þessum alræmdu þorpurum sem setja sterkan svip á bæjarfélag sitt. Altmuligtmaður sem hjálpar öllum, með allt. Hann ræktar búfénað, fer á skak, byggir hús, gerir við bifreiðar og skýtur refi og fugla. Ef hann byggi í Bandaríkjunum væri hann líklega „redneck“, þó ekki í þeirri merkingu sem Björk Guðmundsdóttir leggur í það orð. Hann er í stuttu máli alltaf með skítugar hendur og aldrei kyrr. Hann er einn af þeim sem þrífast ekki í höfuðborginni. Fyrr færi hann í gröfina skælbrosandi en að flytjast þangað búferlum. Svona eins og ef Gísli Marteinn ætti að flytja til Raufarhafnar. Með ekkert hjól og engan hund. Vitanlega myndi hann sturlast fljótt.
Nýlega neyddist bróðir minn þó til að vera í fimm daga í Reykjavík vegna vinnu sinnar. Það er lengsti tími sem hann hefur eytt í borginni í rúm 20 ár. Viðlíka raun hefur hann ekki upplifað að eigin sögn og það kemur frá manni sem hefur borað gat í gegnum hendina á sér. Oft íhugaði hann að segja upp vinnunni og fara heim hið snarasta. Beint í drullugallann, fá sér lapþunnan uppáhelling á bensínstöðinni heima og ræða heimsmálin við samferðamenn sína.
Svona menn eru lykilstoðir í okkar samfélagi. Fólkið úti á landi sem tollir þar og lætur hlutina gerast. Því sárnar mér þegar vegið er að landsbyggðinni eins og gert hefur verið síðustu ár. Ef ekki væri fyrir landsbyggðina, væri engin höfuðborg. Engin Harpa. Ekkert KFC. Engin miðborg eða Vesturbær og þar með enginn Gísli Marteinn. Sem vill fjarlægja flugvöllinn og leggja Neskaupstað í eyði. Í gríni eða ekki gríni.
Athugasemdir