Hvers vegna er fólk svartsýnt? Flestir segjast vera svartsýnir til að verða ekki fyrir vonbrigðum ef hlutirnir ganga ekki upp. „Ég vissi að þetta myndi ekki ganga.“ Hver kannast ekki við þá sem eru alltaf klárir með þessa setningu þegar við hin horfum á landslið tapa, Eurovision ekki ganga sem skyldi, eða þegar einhver nákominn fær ekki ósk sína uppfyllta?
En hvaða hugsun er þetta? Af hverju vill fólk spá því að það sem það vill í raun og veru verði ekki að veruleika bara til þess eins að verða ekki fyrir vonbrigðum ef það fær ekki það sem það vill? Og svo þegar það rætist ekki. Hefur það áorkað einhverju? Nei, það eina sem það hefur áorkað er að eyðileggja gleðina fyrir bjartsýna fólkinu sem eru engir vitleysingar. Bjartsýna fólkið sem vonast til þess að landsliðið vinni og að við komumst í úrslit í Eurovision er ekki að gera ráð fyrir því að vinna. Það er bara að vonast til þess. Það vonast líka til þess að fá vinnuna sem það fer í starfsviðtal út af og vonast líka til þess að ganga vel í prófinu sem það fer í. Það vonast til þess að sá eða sú sem því líst vel á muni líka vel við það á móti og það vonast svo líka til þess að sambandið gangi vel og verði að hjónabandi sem verði hamingjusamt. Svartsýna fólkið segist ekki trúa á hjónaband því meirihluti hjónabanda gangi ekki upp. Sem er ömurleg tilhugsun að leggja af stað með þá hugsun að það séu 60 prósent líkur á að það gangi ekki og því borgi sig að gera sér ekki vonir um að það muni ganga. Það borgar sig því ekki að leggja mikla vinnu á sig til þess að það gangi því sú vinna verði að öllum líkindum til einskis.
En skiptir þetta máli? Er ekki rétt hjá svartsýna fólkinu að brynja sig og gera ráð fyrir hinu versta og verða þá aldrei fyrir vonbrigðum? Eða hefur þessi hugsun áhrif á útkomuna?
„Bjartsýna fólkið eignast frekar peninga en það svartsýna.“
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á svartsýni og bjartsýni. Bjartsýna fólkinu líður betur en því svartsýna. Svo ekki eru vonbrigðin að sliga fólkið. Bjartsýna fólkinu gengur líka betur að uppfylla drauma sína. Það hefur nefnilega áhrif á útkomuna hvort maður trúi því að draumurinn geti ræst. Hugsanlega hefur það ekki áhrif á happdrættisvinninga, en flest annað. Landsliðum okkar gengur betur ef við trúum á þau. Þá trúa keppendur betur á sig sjálfa og ná meiri árangri. Sá sem fer í starfsviðtal en trúir ekki á að geta fengið starfið mun síður fá starfið þar sem útgeislunin verður minni. Ósjálfrátt leggur maður líka minna á sig í alls kyns aðstæðum ef trúin á að málin gangi ekki upp er til staðar. Svo það borgar sig að vera bjartsýnn og það kostar að vera svartsýnn. Það er semsagt búið að sanna til dæmis að það sé fjárhagslega hagkvæmt að vera bjartsýnn. Því bjartsýna fólkið eignast frekar peninga en það svartsýna.
Ég hef reynslu af því í rekstri að vera bjartsýnn og að ná fólki með í að trúa á sameiginlega sýn. Sýn sem margir myndu segja; „Þvílíkur draumóramaður.“ En það virkar. Ef fólk trúir og stendur saman þá er allt hægt. Það fer ekki alltaf allt nákvæmlega eins og upp var lagt með en það fer einhvern veginn alltaf vel og eitthvað í áttina að því sem lagt var af stað með. Að vera bjartsýnn og fylla fólk bjartsýni í kringum mann er sterkasta aflið sem ég hef fundið í rekstri, íþróttum og í lífinu sjálfu. Ég get ekki talið hversu oft ég með fleirum hef lagt af stað í vegferð þar sem líkurnar hafa ekki verið okkur í hag. En með afstöðu okkar, eljusemi og trú höfum við í yfirgnæfandi meirihluta tilfella komist í gegnum verkefnin sem sigurvegarar. Bara vegna þess að við trúðum allan tímann að við værum sigurvegarar. Það er nefnilega ekki heppni að sigra. Að sigra er afstaða, sigur er afleiðing þeirrar afstöðu.
Það eina sem svartsýna fólkið áorkar þegar það segir: „Ég sagði ykkur að þetta myndi ekki ganga“ er að láta okkur hinum líða illa. Ekkert annað. Það sannar ekkert, bætti stöðu sína ekkert heldur bara lét okkur hinum líða verr. Við bjartsýna fólkið erum ekki vitleysingar og vitum alveg að það gengur ekki allt upp. En við höfum von. Það er vonin sem drífur okkur áfram. Vonin er verðmæt og trúin flytur fjöll. Það hefur verið sannað vísindalega. Það hefur líka verið sannað að svartsýni borgar sig ekki.
Að horfa á lífið með björtum augum er því verðmæt afstaða og vísindalega rétt. Hver vill þá vera svartsýnn?
Athugasemdir