„Bíddu, ég þarf að borga fyrst,“ sagði Guðný, vinkona mín, eftir fundinn með félagsráðgjafanum á krabbameinsdeildinni. Í töskunni hennar var risastór poki fullur af alls konar lyfjum sem ég vissi að hún hefði borgað rúmlega 20.000 kr. fyrir. Ég fann fyrir kunnuglegri reiðitilfinningu. Ég fann fyrir sömu reiði og þegar mamma mín, sem laut í lægra haldi fyrir krabbameini fyrir 14 árum síðan, þurfti að draga upp veskið sitt eftir hverja einustu lyfjameðferð og læknisheimsókn. Það er ekki gott að vera reiður, en þegar manneskja er búin að sitja í Lazy-Boy stól á 11-B í 3 klukkustundir á meðan eitrinu er dælt inn í æðar hennar, er alveg stórkostlega fáránlegt að þurfa að standa í röð til að borga nokkra þúsundkalla á meðan eitrið seytlar um æðakerfið og er í þann mund að ráðast á ekki bara krabbameinsfrumurnar, heldur allar frumurnar. Í þessari aðstöðu á enginn að þurfa að taka upp veskið.
Á fundinum með félagsráðgjafanum fékk vinkona mín alls konar upplýsingar. Hún þarf að fá vottorð frá þessum lækni, og helst hinum líka, fá staðfestingu frá einhverjum um eitthvað, fara með það eitthvert annað, taka það með sér eftir að það er stimplað og samþykkt og gæta þess að gleyma ekki hinum pappírunum frá þriðja aðilanum sem ég man ekki hver var. Ef hún gleymir þessum pappír og staðfestingunni á honum einhvers staðar þarf hún kannski bara að byrja upp á nýtt og vona að enginn gleymi að láta hver annan vita að hann sé kominn með pappírana frá henni svo hún fái grænt ljós í kerfinu. Ef þetta er ekki gert allt saman í einhverri ákveðinni röð fær hún ekki þennan styrk og hinn styrkinn, þessar bætur og hinar bæturnar og svo má ekki gleyma endurgreiðslunni á öllum hundraðþúsundköllunum sem hún hefur þegar greitt í ferðakostnað, skanna, lyf, meiri lyf og ég veit ekki hvað fleira.
Til að koma í veg fyrir misskilning þá er hún ekki að fá alla hundraðþúsundkallana endurgreidda. Hún þarf að borga tugi þúsundkalla fyrst til að öðlast þann rétt að fá að borga aðeins færri þúsundkalla fyrir lyfin. Ég gleymdi að minnast á það að hún býr í rúmlega 3 klukkustunda fjarlægð frá Reykjavík. En þarf að skutlast með þessa pappíra út um allt eða biðja vini og vandamenn að fara fyrir sig. Á 21. öldinni. Þar sem ekkert kerfi eða hugbúnaður virðist geta talað saman.
Að auki fær hún ekki endurgreiddan ferðakostnað fyrir eiginmann sinn sem þau lögðu út fyrir sjálf svo hann kæmist með henni í jáeindaskanna til Danmerkur. Af því hún átti ekki rétt á fylgdarmanneskju. Af því hún er ekki nógu veik. Hún er bara að berjast fyrir lífi sínu en hún getur gengið smá spöl áður en hún verður móð og másandi vegna æxlisins sem þrýstir á líffærin hennar. Meðan ég man, þessi jáeindaskanni er ekki til á Íslandi af því það er hvorki til pláss né peningur fyrir hann.
Við vorum á leiðinni á Snaps í hádegismat til að fá okkur feitan fisk á meðan hún hafði orku eftir allra fyrstu lyfjameðferðina. Hún rifjar upp fyndnar sögur af læknisheimsóknum áður en hún fékk rétta greiningu. Hún segir mér hlæjandi frá því þegar hún var send heim með greininguna „stóra flensan“ (er það uppfærð tegund af miðstærð flensunnar?). Það sem okkur fannst spaugilegast við þetta er að hún er menntaður hjúkrunarfræðingur og vissi að sjálfsögðu betur. Ég hlæ með henni og vonast til að geta staðið mig í hlutverkinu sem hún setti mig í. Að láta hana hlæja, oft og mikið.
Í dag þá fer vinkona mín bara beint heim eftir lyfjameðferð. Það stendur enginn í röð til að borga á krabbameinsdeildinni nema amatörar, byrjendur í krabbameini. Þetta endar allt í heimabankanum þínum. Ef þú lendir í þessum sporum þá veistu allavega af því. Þar eru kerfi sem tala saman.
Á meðan staðan í heilbrigðiskerfinu er svona þakka ég fyrir góðgerðar- og félagasamtök, styrki frá sveitarfélögum, Krabbameinsfélagið og svo framvegis. Ég þakka líka fyrir góðhjartaða einstaklinga sem geta séð af nokkrum aurum í söfnunarreikninga fyrir fólk sem er í hennar sporum. Á meðan ég man, takk, Lionsklúbbur kvenna, fyrir túbusjónvarpið, örbylgjuofninn og rúmið sem þið gáfuð mömmu minni, einstæðri móður með þrjú ung börn og brjóstakrabbamein árið 2001. Það gladdi okkur mikið. Nú vantar okkur öll jáeindaskanna, endurnýjun á tækjakosti Landspítalans og já, nýjan spítala. Er einhver með söfnunarreikning? Nei, ég segi bara svona. Það eru að koma kosningar, þetta verður allt í lagi?
Athugasemdir