Já, þessi pistill er skrifaður fyrir hönd landsbyggðarinnar. Líklega ekki í síðasta sinn. Ég verð ávallt ötull talsmaður landsbyggðarinnar.
Nú nýverið varð bílrán/barnsrán í rólegu úthverfi í Kópavogi sem vakti verðskuldaðan óhug. Téður bíll og barn fundust fljótlega sem betur fer. Við að setja mig í spor móður barnsins fer ég ósjálfrátt í fósturstellingu, gnísti tönnum og ákalla Jesús almáttugan þó að ég telji að hann sé ekki til.
Faðir barnsins sem skildi blessað barnið eftir sofandi í bílnum fékk sína útreið á miðlunum og stimplaður hið mesta ómenni. Hann bar fyrir sig kæruleysi, hann var nýfluttur utan af landi þar sem vissulega þarf að hafa minni áhyggjur af því að öllu steini léttara sé rænt af þér.
Faðir þessi, sem fór áhyggjulaus þennan eftirmiðdag að ná í börn úr leikskóla, á alla mína samúð. Ekki fyrir kæruleysi þó. Heldur fyrir það að hafa þurft að flytjast utan af landi til borgar óttans. Hann hefur lært það á erfiða mátann að það gilda aðrar reglur hér en úti á landsbyggðinni. Það hefur ekki enn verið gefin út nein handbók fyrir þá sem kjósa að flytjast í höfuðborgina.
Í dreifbýlinu er yfir manni ákveðin væra. Þar er maður tiltölulega viss um að það sé óhætt að stökkva inn í búð án þess að læsa bílnum, strappa hann niður og strengja keðjur utan um dekkin. Það er hægt að hleypa börnum út fyrir hússins dyr án þess að binda þau við staur.
Ég dæmi því ekki þennan föður. Við getum öll lent í kæruleysi. Sérstaklega þegar við þekkjum ekki reglurnar. Höfum ekki lesið manúalinn. Það tekur tíma að venjast því að vera stöðugt á verði. Þessi rök skilja þeir líklega ekki, sem aldrei hafa farið út fyrir borgarmörkin. Það er eðlilegt, þeir hafa alist upp í óttanum. Kunna manúalinn utan að.
Athugasemdir