Eftirfarandi grein var upphaflega birt á spjallvef Landssambands kúabænda á Naut.is föstudaginn 15. júlí. Ég hafði þá nýlega lesið viðtal við Egil Sigurðsson, formann stjórnar MS á Eyjunni. Hins vegar var þá ólesið hjá mér fáránlegt viðtal Fréttablaðsins sama dag við Sindra Sigurgeirsson, formann Bændasamtaka Íslands, um sauðfjársamninginn. Hefði ég lesið það hefði ég líklega lengt pistil minn talsvert.
Pistillinn var fjarlægður af umræddum vef líklega innan hálftíma frá birtingu. Ég vil taka það fram að ég hef ætíð borið virðingu fyrir stjórn LK fyrir að vinna í sínum málum þó að skoðanalega greini mig ef til vill nokkuð á við fráfarandi stjórn LK. Vona að ný stjórn rétti kúrsinn. Hins vegar verður formönnum BÍ og LS ekki hrósað fyrir eina né neina vinnu. Yfirleitt held ég að vísu að þeir vinni ekki nokkurt mál og kunni það ekki.
Bændur sem kunna að lesa þetta bið ég enn og aftur að velta fyrir sér hvort málefnalegri umræðu um stöðu landbúnaðarins sé best mætt með þeirri ritskoðunarstefnu sem formaður BÍ hefur tekið upp. Ég nafngreini aðila hér sökum þess að ófarirnar má kenna örfáum ógæfumönnum. Bændur og starfsmenn þeirra eru flest utan þessara ógæfumanna fólk sem vill vita hið rétta í málum og hafa það sem sannara reynist. Undir lokin bendi ég á þætti sem að einhverju eru skýring þess mannlega harmleiks sem yfirstjórn mála hjá BÍ og stofnunum þess hefur þróast yfir í.
Umræðan á vef ykkar kúbændur góðir hefur verið mjög tilþrifalítil um tíma. Það skil ég manna best vegna heyanna á þessum tíma og annarra aðkallandi erinda um hábjargræðistímann. Hins vegar held ég að staða landbúnaðarins sé í vissri kreppu núna sem miklu skiptir að menn átti sig á og höndli rétt. Landbúnaðurinn er kominn í mjög alvarlegt áróðursstríð sem að öllu leyti er skapað af örfáum forystumönnum. Öllu varðar að menn átti sig á fjargviðrinu og bregðist rétt við því. Umræðan eins og hún þróast núna þessa dagana þjónar engum en getur valdið umtalsverðum skaða.Umræðu sem borin er uppi af forystumönnum landbúnaðarins má ætíð stöðva með að umbjóðendur þeirra leiði þá af villigötum með að svipta þá forystu.
Það sem ég á hér við er umræða um MS málið og Samkeppnisstofnun. Einnig hefur lengi staðið og mun áfram standa umræðan um þá hryðjuverkasamninga sem forysta BÍ undirritaði í vetur og hefur leyft sér að kalla búvörusamninga. Alþingi virðist komið með vissa umhugsun um málið ekki að ástæðulausu. Ég hef verið að gera tilraun til að ná einhverri málefnalegri umræðu út frá staðreyndum málsins og lagafyrirmælum og rökum. Því hefur verið mætt af harðri ritskoðun af hendi BÍ og málgagns þess Bændablaðsins. Þessi umræða þarf að fara fram á meðal bænda bænda sjálfra. Það eru aðeins þið sem getið stöðvað og vikið til hliðar forystumönnum sem hafa lagst í hreina aðför að grunni starfa ykkar. Þessu mun ég víkja að síðar í greininni.
Fyrst vil ég víkja að MS málinu. Þau byrjuðu með frægri yfirlýsingu Ara Edwald framkvæmdastjóra MS sem hann hefur síðar beðist afsökunar á. Bændur hafa ekki bundið trúss sitt við frjálshyggjugaura fyrr en með ráðningu hans. Ég bendi bændum hins vegar á að einn kostur slíkra manna er að þeir eru yfirleitt hvatvísir og tala beint frá hjartanu. Ummæli hans skulið þið því vega og meta í því ljósi. Ræði Ara ekki frekar.
MS málið snýst ekki um það að sækja mjólk á Seyðisfjörð eða Vestfirði, Það snýst ekki heldur um það hvort menn eru að fást við glæpamenn í viðskiptum. Þeir virðast alls staðar skjóta upp kollinum og það hlýtur að vera innra mál fyrirtækis að fást við þannig vindhana. MS málið snýst um þann einfalda hlut hvort MS hafi farið bæði að samkeppnis- og búvörulögum í sínum viðskiptum með hrámjólk eða hafi ekki staðist freistinguna og svindlað. Menn sem bregðast við málinu eins og Egill að drepa því á dreif og ræða ekki það á þennan augljósa hátt fá ávallt í byrjun á sig stimpil hins seka í málinu. Er það trúverðugt Egill að Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri fari að gera við ykkur í stjórn MS samninga sem hann tapar á?
Með lögum er MS veitt fast að því einokunaraðstaða á hrámjólkurmarkaði. Eðlilegt er að um leið sé henni sett ákaflega ströng skilyrði um vinnubrögð. Málið snýst um hvort það einfaldlega brást því trausti. Sé það tilfellið þá ber formanni og framkvæmdarstjóra MS að bregðast við í samræmi við það. Þá hafa þeir ekki einungis brotið lög heldur einnig valdið einu sterkasta fyrirtæki á vegum bænda ómældum skaða á markaði og í framhaldi þess kynni málið að breytast í breytt skilyrði til að sækja mjólk til framleiðenda um allt land.
Í þessu samhengi í umræða um MS er nánast ástæða til að nefna annað mál sem mögulega brennur enn heitar á mörgum mjólkurframleiðendum í dag. Þar á ég við ákvörðun stjórnar MS á sínum tíma að greiða bænum fullt afurðastöðvarverð fyrir alla mjólk á þessu ári. Síðan þekkja bændur efndir þess eftir tilkynningu stjórnar MS í lok mars. Vitað er að innan stjórnar mun ekki hafa verið fullur einhugur um framkvæmd mála. Stefna formanns og framkvæmdastjóra mun hafa ráðið för. Nú hef ég hvergi séð svo ég muni umfjöllun Egils um þessa ákvarðanatöku. Mun forvitnilegra hefði verið að heyra hana en mjólkurflutningapistilinn, þó að í þeim efnum sé jafnvel margt sem kæmi til greina að endurskoða og endurhugsa. Hér dæmi ég ekki um hversu rétt eða röng þessi ákvörðun var. Hún vekur hins vegar spurningar um vissa siðferðisbresti og er af þeirri ástæðu forvitnilegt að fá svar við. Samtímis væri ágætt að Egill upplýsti bændur hvernig þessi ákvörðun hafi virkað á fjárhagslega afkomu MS. Það eru upplýsingar sem kunna að varða mjólkurframleiðendur miklu.
Augljóst er að mjólkurframleiðendur standa frammi fyrir miklum vanda á næstu vikum og mánuðum. Ég held að þeir standi samt miklu betur en sumir hópar innan bændastéttarinnar frammi fyrir vandamálunum. LK var eini aðilinn sem ekki hljópst undan merkjum við gerð búvörusamninga, stóðst prófið. Ásamt garðyrkjubændum sem þurftu enga stærri endurskoðun á sínum samningi. Síðan tók LK þá skynsamlegu ákvörðun að endurnýja forystusveit sína á aðalfundi í vor. Þeir mæta því til baráttu með ólúið lið sinna bestu manna sem vonandi stenst þessa eldraun.
Hér hefur enginn dómur verið felldur um það að MS sé sekur aðili í markaðsmisnotkunarmálini. Því miður er samt of mörg atriði í viðbrögðum forsvarsmannanna sem benda til að sök hafi bitið sekan þar. í ákveðnu millispili er samt ef til vill ástæða til að víkja að vissu siðferðisspursmáli sem kann að snúa að þessu og snýr beint að því sem á eftir verður sagt. Spurningin er sú einfalda eru það ekki stjórnendur sjálfir sem ættu að greiða sektir í slíkum brotamálum? Vonandi slíkir fyrirvarar í starfslokasamningi fyrrverandi forstjóra. Það eru þeir sem hafa tekið ákvarðanirnar sem eru glæpsamlegar ekki fyrirtækin sem þeir stjórna. Þeir hafa yfirleitt um leið brotið gegn samþykktum þeirra. Valdið fyrirtækjunum sjálfum lítt bætanlegum skaða. Margir af þessum furstum fá greidd talsvert há laun og það ákaflega oft réttlætt með mikilli ábyrgð sem starfinu fylgir. Er það því ekki eðlilegt að þeir standi undir ábyrgðinni þegar þeir hafa brugðist henni en gangi ekki út með hvítan flibbann eins og við þekkjum um alltof marga slíka "ábyrgðaraðila" í þjóðfélaginu í dag og jafnvel stundum dágóða vasapeninga. Þá húsnæðisþörf sem þetta kann að skapa mætti reyna að leysa með sérstökum hátekjuskatti á "ábyrgðaraðila" í þjóðfélaginu. Eins konar innistæðutrygging fyrir "þá sem vilja kalla sig ábyrgðaraðila". Þeir hafa sjálfir á síðustu árum auglýst þörfina.
Mun ég þá snúa mér að þeim málum sem snúa að öllum bændum landsins sem eru búvörusamningamálin. Þar tel ég mig talsvert betur á heimavelli en í því sem að framan segir vegna aðkomu að búvörusamningum frá upphafi nema hryðjuverkasamningunum í vetur. Auk þess annaðist ég uppgjör eitthvað á annars tugar fyrstu sauðfjár- og mjólkursamninganna. Kom einnig umtalsvert að vinnu í útfærslu á þekktustu samningunum, í sambandi við þjóðarsáttarsamningana á sínum tíma. Þess vegna held ég að mögulega þekki ég þessi mál meira frá grunni en nokkur annar. Það sem af er þessu ári þá hafa formaður BÍ og formaður LS tekið upp þá skrýtnu stefnu að hætta yfirleitt að taka þátt í almennri umræðu eða svara beinum spurningum um verk þeirra og viðhorf. Að koma á umræðu um þá um búvörusamningana hefur því reynst með öllu ómögulegt. Því til viðbótar hafa þeir látið Bændablaðið beita mjög öflugri ritskoðun gegn mér, ef til vill að ráðleggingum blaðafulltrúa þeirra. Umræða um þessi mál hefur því með öllu verið kæfð af þeirra hendi.
Önnur þessi grein er helguð formanni BÍ eftir athyglisverðan leiðara hans í Bændablaðinu laust fyrir miðjan júní. Hin fjallar um tíu spurningar sem Sindri og blaðafulltrúinn bjuggu til fyrir Sindra í vor og er enn að finna á forsíðu BÍ (þegar þetta er skrifað og má þá líklega finna í elda efni verði þar á breyting). Þrátt fyrir heimaframleiðsluna tókst þeim ekki að koma þessu frá sér nema með ótrúlegum rangfærslum og lygum. Ég reyndi að tína saman það alvarlegasta til andsvara og bauð blaðafulltrúanum sem að sjálfsögðu sagði þvert nei við lýðræðislegum skoðanaskiptum. Þó að ekki sé ástæða til að hvetja bændur til að lesa umrætt plagg þeirra félaga nema hafa þá vitneskju um lygar þess verða þeir samt að lesa yfirlýsingu formanns BÍ í sambandi við 3. spurninguna þar sem fram kemur nánast að BÍ hafi lagt af að sinna kjaramálum bænda. Einhverju sinni þótt merkileg yfirlýsing í ljósi samþykkta samtakanna.
Ekki veit ég hvort það var hugdetta formanns BÍ einhvern tímann á síðasta ári að segja mér upp hlutastarfi hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. Líklega þá í góðri von um að þagga niður í mér. Mögulega er þetta að öllu leyti verk framkvæmdastjóra RML en tæplega gert nema með vitund og vilja eigenda fyrirtækisins. Það eru þakkir BÍ fyrir nær fimm áratuga störf í sambandi við eða mest hjá BÍ. Hef orðið var við að einstaka bændum hafa þótt þetta heldur snautlegar þakkir. Umræddur framkvæmdastjóri RML er þar forframaðri formönnunum (BÍ og LS). Framkvæmdastjóri BÍ hefur að vísu lýst við mig stuðningi við slík vinnubrögð. Látum samt lokið umfjöllun um þessa hjálparkokka formannsins. Ég fer ákaflega stikkorðakennt yfir búvörusamninga málin. Bendi á nánari umfjöllun í skrifum mínum sem ég hef áður nefnt.
Ég sagði áður að búvörusamningarnir væru hryðjuverkasamningar. Nægir þar í byrjun að benda á að í sauðfjársamningnum einum tekst víst samninganefnd bænda að brjóta öll markmiðsákvæði 1. gr. búvörulaganna sem samningana ber að vinna samkvæmt.
Við þessa samninga tók formaður BÍ upp þá nýbreytni að láta ekki vinna eitt einasta mál í samningaundirbúningi Eina sem þannig var gert unnu LK og samtök garðyrkjubænda. Mögulega hefur það verið hluti af stefnu samninganefndar bænda sem ég heyrði formann LS segja á kynningarfundi um samningana í Víðihlíð að svona samningar ættu að vera talsvert happdrætti. Þegar enga framtíðarsýn eða stefnu er að finna er ákaflega eðlilegt að árangurinn verði alveg í samræmi við það sem til var sáð.
Eina merka nýmæli samninganna eru svonefndar landgreiðslur. Þær eru mál ráðherra og hafi Sigurður Ingi heiður af. Formaður BÍ og hans fólk sáu lengstum svart í sambandi við þetta mál. Þarna var útleið fyrir áreiðanlega 1000 mismunandi útfærslur sem hefðu veitt ótæmandi möguleika til aðgerða fyrir aðila sem hefði mætt með hugmyndir til samningaviðræðnanna. Þó að BÍ mætti vita að þetta hlyti að verða mikilvægt mál í samningunum lyftu þeir aldrei svo mikið sem litlafingri til að skoða möguleika þess. Fátt greinir íslenskan landbúnað meira frá öðrum löndum en landnýting. Aðeins þess vegna hefði þetta mál verðskuldað rækilega skoðun. Hins vegar er skrifað uppá að aðeins skuli greiðslurnar ná til uppskorins ræktarlands. Beit höfð að engu. Samt gera sömu menn sérstakan sauðfjársamning, í samningi um nautgriparækt er rætt um aukna áherslu á nautakjötsframleiðslu (hlýtur að vera yfirlýsing um að það verði alveg án beitanýtingar) og síðan galar formaðurinn um samning fyrir allar búgreinar. Ein þeirra heitir nefnilega hrossarækt og byggir talsvert á beit, Líklega hefur hún staðið síðustu árin fyrir hlutfallslega meiri verðmætaaukningu en aðrar greinar landbúnaðar, enda hvergi á hana minnst í hinum alhliða samningum formannsins. Hafa menn nokkru sinni heyrt um að stundum viti hægri höndin ekki hvað sú vinstri gerir. Þarna var formaður BÍ með sýnikennslu í því eins og svo mörgu í sambandi við samningana.
Eitt nýmæli samninganna eru svonefndar gripagreiðslur. Þetta er sannarlega algert fornaldaratriði að sjá í samningum sem þessum sem gerði eru eftir samkomulag þjóða í loftlagsmálum í París 2015. Hvernig skyldi standa á að ekki sé gert mat á samningunum út frá umhverfisskuldbindingum þjóðarinnar?
Ég veit að skilningur formanns BÍ nær ekki til samviskuspurninga. Sú mismunun og tilfærslur sem fram eru settar gagnvart framleiðendum í sauðfjársamningum ættu samt að verða öllu hugsandi fólki umhugsunaratriði út frá réttlætissjónarmiðum. Þau ákvæði koma einnig mjög alvarlega að því á hvern hátt menn mega fara með ríkisfé með hliðsjón til eldri samninga.
Endalaust mætti þannig halda áfram að telja og benda á atriði samninganna sem ekki standast heilbrigða skynsemi, lög og rétt eða nokkur siðferðisviðmið.
Staða bændastéttarinnar er því slæm í þessu máli. Bót í máli er að allt eru þetta mannleg mistök, illvirki formanns BÍ og örfárra náinna samverkamanna hans.
Það eina sem skynsamlegt getur verið í núverandi stöðu fyrir bændur að gera er það að koma þeim skilaboðum til Alþingis að þau samningsdrög sem nú eru á borðinu fari í pappírstætara. Þá þurfa bændur að skipta um formann BÍ og LS sem allra fyrst. Tæplega er von á að viðkomandi finni hjá sér hvöt til að segja strax af sér. Það væri samt eina vel hugsaða verk þeirra gagnvart íslenskum bændum eftir þau skemmdarverk sem þeir eru þegar búnir að vinna. Þannig yrðu samtök bænda ef snöfurmannlega er að verki staðið komin með starfhæfa stjórn BÍ og stærstu búgreinafélaganna uppúr miðjum ágúst. Þá gætu stjórnirnar sest niður og farið að vinna stefnu fyrir nýja samninga þar sem horft væri til framtíðar. Jafnframt þarf að vinna markvisst starf að því að vinna til baka traust almennings í landinu á íslenskum landbúnaði og jákvæðum viðhorfum til hans. Þetta hafa umræddir tveir formenn og þeirra nánustu hjálparkokkar nokkuð markvisst brotið niður á þessu ári eins og rakið hefur verið.
Þjóðinni hefur verið lofað kosningum seint í október. Þá verða stjórnmálamenn vonandi fljótir með aðstoð nýs og starfssams forseta að færa þjóðinni nýja stjórn, sem vonandi hefur bjartari framtíðarsýn en sú sem mun kveðja á haustdögum. Þá verða starfsöm og nýelfd samtök bænda tilbúin til snarprar vinnulotu með nýrri samninganefnd ríkisins til að gera nýja og framsækna búvörusamninga í sátt við land og þjóð.
Ekki var annað að sjá en íslenskir bændur horfðu til slíkrar framtíðar eftir setningaræðu Sigurðar Inga á búnaðarþingi 2015. Það er meira en lygasögu líkast hvernig forystuliði bænda hefur á rúmu ári tekist að snúa bestu stöðu íslenskra bænda um áratuga skeið í þá brothættustu sem íslenskir bændur hafa lent í um fjölda áratuga.
Annað mál sem mér hefur orðið meira og meira umhugsunarefni það sem af er sumri er hlutur sem ég skýri ófarirnar með að einhverju leyti og liggur samtökum bænda mjög nærri. Það vil ég skýra ögn og biðja ykkur að hugleiða. Bændur bjuggu við ákaflega sterka forystu í sínum málum nánast alla síðustu öld. Fáar eða engar stéttir höfðu viðlíka forystulið. Ég tel það ætíð mína gæfu að hafa náð að kynnast mörgum af þessum forystumönnum á síðari hluta aldarinnar. Þar voru afburðamenn í hópum og þjóðin hlýddi á málflutning þeirra þó að lengst af síðasta hluta aldarinnar væri vindurinn oft í fangið.
Tveir af þessum forystumönnum báru að mínu viti höfuð og herðar yfir alla aðra snillinga. Ég tel mig hafa kynnst báðum talsvert i starfi og umræðum. Þetta eru að sjálfsögðu Gunnar Guðbjartsson og Halldór Pálsson. Þessum mönnum var ýmislegt sameiginlegt. Þeir gerðu kröfu til að menn ynnu eins vel og þeir höfðu getu til, vönduðu verk sín. Þeir voru ákaflega heiðarlegir og hreinskiptir og umgengni þeirra gagnvart meðhöndlun á almannafé sem koma mikið í hlut beggja var einstök. Þeim var þar alveg ljóst gagnvart hverjum þeir áttu að standa reikisskap gerða sinna. Þessi skýru viðhorf þeirra sem skiluðu einstöku starfi þeirra held ég að séu að flestu leyti í eins hrópandi mótsögn og mögulegt er við viðhorf flestra þeirra kauða sem ég hef fjallað um hér að framan og hafa talið sig halda um stjórnvölinn í samtökum bænda. Enda uppskera beggja í réttu hlutfalli við það.
BÍ starfaði samkvæmt lögum sem Alþingi hafði samþykkt áður en til sameiningarferils kom. Í þeim lögum var eitt ákvæði um hæfniskröfur framkvæmdastjóra sem þá kallaðist reyndar búnaðarmálastjóri. Hann skyldi hafa framhaldsmenntun í búvísindum. Þetta held ég hafi ekki verið tilviljunarkennt ákvæði. Þegar sameiningarferli hefjast falla öll slík ákvæði út með nýjum lögum og reglum nýrra samtaka. Ari Teitsson ber gæfu til sem fyrsti formaður þeirra eftir sameiningu að ráða Sigurgeir Þorgeirsson sem framkvæmdastjóra. Það er síðan komin ný stjórn samtakanna þegar Sigurgeir lætur af störfum uppúr aldamótum og hún stígur það óheillaskref að hverfa frá eldri reglum við ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra. Sumir hefðu haldið að þörfin fyrir trausta menntun framkvæmastjóra mundi vaxa með sífellt meiri fjölbreytni atvinnugreinarinnar en ekki minnka. Veltið nú aðeins fyrir ykkur menntun, búskaparreynslu og hæfni forystumanna bænda á síðari hluta síðustu aldar og þess sem nú er. Er mögulegt að skýringa á handabakavinnu, gæfuleysi og nú síðast illvirkjum nýjasta forystuliðsins geti verið þarna að leita að talsverðum hluta. BÍ var á sínum tíma stofnað sem fagleg samtök bænda. Einn af hjálparkokkum formanns BÍ afrekaði það fyrir fáum árum að leggja af tvö af fagritum landbúnaðar sem þá lifðu. Hann státar sig vafalítið af þessu afreki sem er svo sannarlega er met. Það segir um leið talsverða sögu um viðhorf til menntunnar og fræðslu hjá kauða.
Nú skal þessum pistli lokið. Ég skora á bændur að blása til sóknar í takti við þær hugmyndir sem ég hef rætt hér. Tíminn vinnur meira með landbúnaði enn nokkru sinni áður. Ég veit að hvergi hjá einni stétt landsins er að finna jafn sterka réttlætiskennd og tengsl við umhverfi og náttúru, sem framtíð mannkyns hvílir á, en hjá bændum. Bændur eiga að segja skilið við fortíðarhyggjustjórnendur sem þeir búa nú við og horfa til framtíðar. Þá mun ykkur vel farnast. Framtíðin er ykkar.
Jón Viðar Jónmundsson er doktor í búfjárerfðafræði og var landráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands um árabil og hefur jafnframt starfað sem sérfræðingur við Rannsóknarstofnun landbúnaðarins, setið í nefndum á vegum landbúnaðarráðuneytisins og tekið að sér ýmis verkefni fyrir Framleiðsluráð landbúnaðarins.
Athugasemdir