Sigurður er í öðrum bekk í grunnskóla en þar gengur honum erfiðlega að einbeita sér í verkefnavinnu og fylgja fyrirmælum kennara. Undanfarið hefur Sigurður átt erfitt með að stjórna skapi sínu í skólanum og lendir því oft í útistöðum við samnemendur sína. Foreldrar og kennarar hafa áhyggjur af Sigurði og senda tilvísun til skólasálfræðings á Þjónustumiðstöð þar sem beðið er um greiningu á vanda drengsins og ráðgjöf til kennara og foreldra. Mál Sigurðar fer á biðlista skólasálfræðings og er tekið til vinnslu eftir 12 mánuði.
Skólasálfræðingur gerir vitsmunaþroskamat og leggur fyrir matslista um líðan og hegðun Sigurðar og kemur þá í ljós að drengurinn glímir við mikinn einbeitingarvanda og ofvirkni. Eftir frumgreiningu skólasálfræðings er ákveðið að vísa Sigurði áfram í frekara mat á annarri stofnun þar sem biðtíminn er annar eins, eða 12-18 mánuðir.
Við, sálfræðingar á Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis, viljum leggja áherslu á mikilvægi grunnþjónustu með því að segja ykkur sögu Sigurðar sem er því miður ekki einsdæmi. Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað undanfarið um bið barna eftir geðheilbrigðisþjónustu og skort á þjónustu fyrir börn í vanda virðist sem aðkoma sálfræðinga við skóla hafi gleymst. Við, sem sinnum þessum störfum, erum í flestum tilfellum fyrstu fagaðilar sem koma að málum barna og ungmenna. Við metum hvar vandi barnsins liggur, sinnum ráðgjöf til foreldra og kennara auk þess sem við höldum námskeið og sinnum hópmeðferð, bæði fyrir börn og foreldra. Hins vegar er biðtími eftir þjónustu okkar mjög langur, oft 6-12 mánuðir.
Á meðan börnin bíða eftir þjónustu skólasálfræðings eykst vandi þeirra og líðan þeirra er oft orðin mjög slæm þegar að þeim kemur. Í mörgum tilfellum reynist svo nauðsynlegt að vísa börnunum í nánari athugun á annarri stofnun eins og í máli Sigurðar og þar tekur við annar biðtími, oft í 12-18 mánuði til viðbótar. Það ætti því að vera forgangsatriði í umræðu um geðheilbrigðismál barna og ungmenna að efla sálfræðiþjónustu við skóla.
„Á meðan börnin bíða eftir þjónustu skólasálfræðings eykst vandi þeirra og líðan þeirra er oft orðin mjög slæm þegar að þeim kemur.“
Skólasálfræðingur er í góðum tengslum við skóla/leikskóla barnsins og á því auðvelt með að fylgja málum barnsins eftir. Skólasálfræðingar gegna einnig mikilvægu hlutverki við að efla forvarnir, til dæmis í formi fræðslu og námskeiða, sem án efa eiga þátt í að draga úr löngum biðlistum eftir greiningum. Auk þess væri heppilegast að hægt væri að ljúka sem flestum málum hjá sérfræðiþjónustu skóla svo aðeins þurfi að vísa börnum og ungmennum með alvarlegri vanda til annarra stofnana, svo sem Greiningarstöðvar, Þroska- og hegðunarstöðvar og Barna- og unglingageðdeilar.
Ljóst er að kerfið í dag er ekki nægilega skilvirkt og það bitnar fyrst og fremst á skjólstæðingum okkar, börnunum sem bíða mánuðum og árum saman eftir þjónustu, oft á fleiri en einni stofnun.
Þrátt fyrir að eftirspurn eftir þjónustu skólasálfræðinga hafi aukist mjög síðastliðin ár, verkefnum fjölgað og aðrar stofnanir vísi á okkur fleiri málum þá hefur stöðugildum ekki fjölgað í takt við þá þróun hjá Reykjavíkurborg. Við teljum að hér þurfi að líta fram á veginn, hugsa til lengri tíma og stokka upp í kerfinu í heild sinni. Allir aðilar sem koma að geðheilbrigðisþjónustu barna, bæði ríki og sveitarfélög, þurfa að taka höndum saman og búa til skilvirkara kerfi sem skilar börnum þjónustu eins fljótt og unnt er. Þjónustu sem felst bæði í greiningu á vanda sem og ráðgjöf og úrræðum sem hægt er að vísa börnum í að greiningu lokinni.
Niðurstöður fjölmargra rannsókna hafa sýnt fram á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar í nærumhverfi barnsins. Það er því þjóðhagslega hagkvæmt að styrkja grunnstoðirnar og grípa inn í vandamál barna sem fyrst en góð þjónusta í nærumhverfi barna dregur úr þörf fyrir umfangsmeiri og dýrari þjónustu þegar til lengri tíma er litið.
Við lýsum yfir einlægum áhuga okkar að koma að mótun nýrrar stefnu í geðheilbrigðismálum barna.
Athugasemdir