Bestu hárvörur sem ég hef prófað eru framleiddar í Jerúsalem. Hárið á mér verður ekki aðeins mjúkt og glansandi við notkun, heldur einhvern veginn létt og lifandi. En jafnvel þó að mér líði eins og Júlíu Róberts í fótósjoppaðri sjampóauglýsingu eftir að hafa stolist til að nudda hársvörðinn upp úr þessari vel lyktandi efnasamsetningu í annarra manna sturtuklefa, þá fæ ég mig ekki til þess að kaupa brúsa. Frekar sætti ég mig við þurrt og dauflegt hár. Því vörurnar eru framleiddar í Jerúsalem.
Það virðist hins vegar trufla fáa aðra því þessar tilteknu hárvörur eru alls staðar auglýstar um þessar mundir og eru til sölu á langflestum hárgreiðslustofum hér á landi. Ef hatursfull umræðan í kjölfar ákvörðunar Reykjavíkurborgar um að sniðganga vörur frá Ísrael kenndi okkur eitthvað þá er það að Íslendingar eru frábærir neytendur. Jafnvel þeir bestu í heimi. Ef við getum ekki tekið augun af peningaveskinu til þess að mótmæla með friðsælum hætti grimmilegum árásum Ísraels á Palestínumenn, þá mun líklegast ekkert fá okkur til þess.
Íslendingar eru mögulega með verstu neytendavitund í heimi. (Ég finn í fljótu bragði enga alþjóðlega mælikvarða sem mæla neytendavitund þjóða og því ætla ég að leyfa mér að kasta fram þessari stóru fullyrðingu.) Okkur virðist vera drullu sama hvaðan varan okkar kemur, svo lengi sem hún er ódýr, eða hvernig hún er framleidd, svo lengi sem hún er gómsæt. Hér eru nokkur dæmi, og þetta er alls ekki tæmandi listi:
Í lok síðasta mánaðar komumst við að því að hálfgerð einokunarstaða er á eldsneytismarkaði á Íslandi, álagning olíufélaganna á bensín er of mikil og sterkar vísbendingar eru um að olíufélögin samhæfi hegðun sína þegjandi. (Lesist: samráð) Af þessum sökum greiddu íslenskir neytendur líklega á bilinu 4 til 4,5 milljörðum of mikið í bensín á síðasta ári, og er þá um varfærna áætlun að ræða. Þessar niðurstöður Samkeppniseftirlitsins hefðu ekki átt að koma okkur á óvart því í nokkur ár hefur okkur verið bent á að gríðarleg lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu skilar sér engan veginn í vasa íslenskra neytenda. En okkur er sama. Þessar fréttir vekja sem fyrr fáránlega litla athygli og við höldum bara áfram að fylgjast með Almari nakta í kassanum og hlustum á nýja lagið með Adele í hundraðasta skipti. Í dag.
Í haust urðu Íslendingar hins vegar agndofa yfir fréttum af slæmum aðbúnaði svína hér á landi. Nú var nóg komið! Myndir af gyltum í svo þröngum básum að þær gátu ekki rétt úr löppunum vöktu með okkur svo mikinn óhug að eðlilega juku Íslendingar neyslu á svínakjöti um heil 27,9 prósent. Ég endurtek: 27,9 prósent! Svo svínin hefðu nú ekki þjáðst til einskis, þið skiljið.
En við erum allavega öll ennþá að drekka mjólkina frá Örnu, er það ekki?
Fátt hefur vakið jafn mikla hneykslan meðal neytenda á heimsvísu og stórfellt svindl Volkswagen í útblástursmælingum. Hér var ekki um vanrækslu að ræða eða fyrirtæki sem dansaði um á siðferðislegu línunni í von um skjótan gróða. Volkswagen sér ekki línuna lengur. Línan er punktur. Volkswagen laug vísvitandi að viðskiptavinum sínum og ásetningurinn gæti ekki verið augljósari. Og á meðan sala á nýjum Volkswagen bílum hrynur erlendis í kjölfar hneykslisins um svindl-hugbúnaðinn, eykst salan auðvitað hér á landi. Á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs var Volkswagen Golf mest seldi nýi bíllinn á Íslandi. Til hamingju við!
Svona mætti eflaust lengi telja. Ég gæti til dæmis skrifað langan pistil um H&M og Lindex, en einhverra hluta vegna (peningar) vilja Íslendingar helst kaupa föt sem eru saumuð af þyrstum, þreyttum saumakonum í Bangladesh sem fá rúmar átta þúsund krónur á mánuði fyrir að sauma þúsund skyrtur á dag. (Ég er engin undantekning).
En hvað er það sem veldur? Ég hef ekki trú á að Íslendingar séu harðbrjósta aurapúkar sem eru tilbúnir að líta framhjá öllu siðferði um leið og þeir sjá gulglansandi tilboðsmiða. Við höldum bara að fimm hundruð króna beikonbréfið hafi engin áhrif í stóra samhenginu. Við réttlætum kaupin, en nöldrum á Facebook. En málið er að beikonbréfið skiptir víst máli. Það er ástæða fyrir því að Ísrael kýs að kalla þá sem tala fyrir viðskiptabanni efnahagslega hryðjuverkamenn, og líkja sniðgöngu á sjampói frá Jerúsalem við helför nasista, og hvers vegna fatakeðjurnar lofa öllu fögru í hvert sinn sem fjallað er um þrælabúðir þeirra í þriðja heiminum. Þeir eru hræddir. Og þeir ættu að vera það. Máttur neytenda er mikill.
Ég held enn í vonina að herlausa þjóðin átti sig á mikilvægi samtakamætti neytenda sem getur haft raunveruleg áhrif á framleiðendur, og jafnvel þjóðríki. Og á meðan ég bíð ætla ég að láta mig dreyma um að hinir friðelskandi Kanadamenn uppgötvi efnaformúluna á sjampóinu góða frá Jerúsalem.
Athugasemdir