Ég hætti að drekka fyrir fjórum árum, sem er sennilega stærsta og besta ákvörðun sem ég hef tekið. Áfengi og ég áttum aldrei samleið og hvað þá timburmennirnir sem stöðvuðu tímann og urðu þess valdandi að öll plön runnu út í sandinn. Þú kemur litlu í verk þegar þú ert annaðhvort skálandi á barnum eða liggur heima í rúminu með fötuna á gólfinu. Þegar ég hætti að drekka fór ég að sjá lífið í nýju og skýrara ljósi. Það birti til og loksins gat ég gert plön og staðið við þau.
Ég byrjaði á því að skoða sjálfa mig í bak og fyrir og komst að því að ferðalagið að hamingjunni hefst innra með okkur.
Losaði sig við hrokann
Eftir mikla sjálfsskoðun áttaði ég mig á því að ég þyrfti að losna við nokkra bresti sem ég hafði verið að burðast með. Hrokinn þurfti að víkja, enda er hroki ekkert annað en merki um eigið óöryggi og ótti við álit annarra. Þegar þér líður ekki vel er svo auðvelt að setjast í dómarasætið og dæma hinar og þessar manneskjur. Þú heldur kannski að með því að tala niður til annarra muni þér líða eitthvað betur með þitt eigið líf. Þetta gæti ekki verið vitlausara. Í dag reyni ég að tileinka mér það að gefa öllum manneskjum rými til þess að vera þær sjálfar og stjórnast ekki lengur af áliti annarra. Ég geri það sem mér finnst best og ef það þykir ekki töff eða er ekki nógu „inn“ þá er mér alveg sama. Það er rosalega gott að vera laus við áhyggjur um hvað öðrum finnst um þig og vera stöðugt að hugsa um hvað annað fólk gerir og láta það fara í taugarnar á sér.
Vinur minn sagði eitt sinn við mig; ef að fíflunum fer að fjölga í kringum þig, þá þarft þú að líta í eigin barm. Með þetta viðhorf að leiðarljósi verður þú frjáls frá öðrum og líf þitt verður smátt og smátt fallegra. Ég get sett mig í spor annarra, finn samkennd með öðrum og reyni alltaf að líta á það jákvæða. Við erum öll að gera okkar besta og það eru ástæður fyrir öllu.
Ég, sem gat ekki keyrt úr Kringlunni niður í bæ án þess að blóta allavega fjórum ökumönnum, nenni ekki lengur að eyða tíma og orku í að láta svona fara í taugarnar á mér.
Rútínan hjálpar
Annað sem er mér mikilvægt er að hafa mikla rútínu í lífinu. Ég reyni að vakna alltaf á sama tíma og finnst fátt betra en að vakna snemma, fá mér kaffi og lesa dagblöðin. Það hjálpar mér og eykur vellíðan hjá mér að hlutirnir séu í föstum skorðum. Áður fyrr, þegar ég var enn að skemmta mér allar helgar, gat verið ansi erfitt að fara á fætur fyrir hádegi á virkum dögum. Það er fátt þunglyndislegra en að sofa eins og unglingur langt fram á fullorðinsár. Það gæti ég ekki með nokkru móti í dag.
Von og frelsi í hlaupunum
Eftir langt og ævintýralegt ferðaleg í sjálfsskoðun, þar sem ég tók út hluti eins og hroka, gremju, ótta og neikvæðni, fann ég hvað ég fylltist öll af nýjum krafti sem ég þurfti að reyna að nýta á einhvern hátt. Ég fór ekki lengur á Kaffibarinn að dansa til kl. 5.00 að morgni og eitthvað annað varð að koma í staðinn.
„Eftir langt og ævintýralegt ferðaleg í sjálfsskoðun, þar sem ég tók út hluti eins og hroka, gremju, ótta og neikvæðni, fann ég hvað ég fylltist öll af nýjum krafti“
Ég byrjaði að æfa á fullu í bootcamp. Fór út að hlaupa og á hugleiðslunámskeið. Hlaupin og bootcamp gáfu mér gjörsamlega nýtt líf. Ég hafði alltaf verið mikill íþróttagarpur þegar ég var yngri en hætti auðvitað í menntaskóla þegar böllin fóru að verða mikilvægari. Smátt og smátt fann ég kraftinn koma aftur og varð staðráðin í að nýta þessa miklu orku í eitthvað uppbyggilegt fyrir mig og þá sem standa mér næst.
Það var eitthvað magnað við það að labba upp að Steini á Esjunni með nokkurra mánaða gamla frænku mína á bakinu án þess að blása úr nös. Besta vinkona mín spurði hvort ég væri ekki til í að hlaupa með henni hálft maraþon á menningarnótt, og ég sem hafði horft á fólkið koma í mark ár eftir ár og öfundað það alveg gríðarlega, hugsaði mig ekki tvisvar um. Það má segja að ég hafi náð toppnum á tilverunni þegar ég kom í mark, ég var í svo mikilli sigurvímu og hrikalega montin að hafa klárað. Líkaminn var búinn á því, ég gat varla labbað, en innra með mér var hamingjusprengja.
Strax eftir hlaupið var ég farin að skoða maraþon í Kaupmannahöfn og Berlín. Það var eitthvað svakalegt við hlaupin sem gaf mér svo mikið frelsi og von um að líf mitt yrði gott.
Mikilvæg verkfæri
Með þessi verkfæri að vopni hef ég náð að lifa nokkuð hamingjusömu og góðu lífi undanfarin ár. Það koma auðvitað slæmir dagar og ég á alveg mín „moment“ þar sem ég dett niður í neikvæðni og langar helst að vera bara uppi í rúmi og borða súkkulaði, en það er líka allt í lagi, svo lengi sem það heltekur ekki líf mitt og ég er alltaf fljót að ná mér upp aftur.
Hver dagur er áskorun og ég hef ákveðið að reyna alltaf að gera mitt besta og vera til staðar fyrir mína nánustu. Nú er ég orðin mamma og þarf því að vera góð fyrirmynd. Það er mikil hamingja sem fylgir móðurhlutverkinu og ég hlakka mikið til komandi ára, að fá að fylgjast með dóttur minni vaxa úr grasi.
Athugasemdir