Langt fram á fullorðinsár var ég mjög ósátt við líkama minn. Mér leið stundum illa vegna útlitsins, vildi ekki fara í sund, leið illa í sólbaði og í félagslegum aðstæðum. Staðan var hvað verst á unglingsárum þegar ég átti það til að sleppa því að mæta á böll eða í partí þar sem ég var á „ljótunni“ þann daginn. Því miður kannast eflaust margir við þetta og getur slæm líkamsmynd haft mikil áhrif á líðan og lífsgæði.
Ég velti því fyrir mér hvernig þetta þróaðist. Ég hef ekki upplifa margt neikvætt í lífinu og neikvæðar athugasemdir um útlit mitt voru í versta falli á borð við „ætlarðu að fá þér aðra sneið af kökunni?“ (sagt í leiðinda tóni). Foreldrar mínir voru ekki uppteknir af útliti og því ekki mikill þrýstingur frá þeim um grannt vaxtarlag. Samt sem áður þróaði ég mjög snemma með mér slæma líkamsmynd. Ég man sérstaklega vel eftir einu atviki þar sem ég stóð á milli tveggja vinkvenna minna í Danmörku, allar eins klæddar í svartan hlýrabol og í appelsínugulum hjólabuxum (mjög einkennandi fyrir árið 1988). Móðir mín tók mynd af okkur og má augljóslega sjá að ég hélt inni maganum á myndinni. Ég man vel eftir slæmri tilfinningu og fannst mér ég vera feitari en þær og þess vegna alveg ómöguleg, ekki nema átta ára gömul!
Á þessum tímapunkti var ég farin að bera mig saman við aðra og notaði vinkonur og aðrar persónur sem spegil. Við speglum okkur í öðrum og fáum þannig hugmynd um hvernig við erum eða hvernig við lítum út. Ég speglaði mig í vinkonum mínum, grönnu vinkonum mínum. Ég speglaði mig í kærleiksbjörnum og She-Ra (sem er tvíburasystir He-Man). Ég gerði það ekki viljandi, ég ákvað ekki einn daginn að byrja að bera mig saman við grannar vinkonur og prinsessuna She-Ra.
Það er sterk tilhneiging hjá fólki að bera sig saman við aðra og gerum við það oftar en ekki til að mynda okkur skoðun á okkur sjálfum. Þetta tengist líkamsmynd þannig, að því nær sem við teljum okkar eigið útlit vera því útliti sem talið er aðlaðandi, því ánægðari erum við með okkur.
Líkamsmynd margra veltur því að miklu leyti á þeirri ímynd sem er af aðlaðandi útliti í okkar samfélagi og hvernig við skynjum líkama okkar út frá ímyndinni. Það hefur því neikvæð áhrif á líkamsmynd og getur valdið vanlíðan að bera sig saman við aðra sem samkvæmt gildum samfélagsins líta betur út en við sjálf.
„Í dag lenda margar ungar stúlkur í því að bera sig saman við Disney prinsessur og hetjur sem nær undantekningalaust eru grannar og uppfylla fegurðarviðmið nútímans.“
Í dag lenda margar ungar stúlkur í því að bera sig saman við Disney prinsessur og hetjur sem nær undantekningalaust eru grannar og uppfylla fegurðarviðmið nútímans. Þegar persónur teiknimynda eru skoðaðar kemur í ljós að oftar en ekki eru grannar teiknimyndapersónur „góðu aðilarnir“ í myndinni, gáfaðar, hjálpsamar og skemmtilegar meðan feitu teiknimyndapersónurnar eru „vondu aðilarnir“, heimskari og sýndar með ýmsa aðra neikvæða eiginleika (Klein og Shiffman, 2005 og 2006).
Margar rannsóknir sýna að tíðni slæmrar líkamsmyndar er mikil, sérstaklega meðal stúlkna og fer aldur barna sem hafa áhyggjur af útliti sínu lækkandi. Leikskólabörn eru til að mynda farin að bera sig saman við aðra og mynda sér skoðun á öðrum og sjálfum sér út frá holdarfari og útliti. Á sama tíma eru teiknimyndapersónur „settar í megrun“ eða í „fitness þjálfun“. Mína mús hefur grennst sem og krúttlegu börnin í krakkaveðurfréttunum og kötturinn Klói er búinn að skera sig niður og orðinn massaður.
Þrátt fyrir að margir ólíkir þættir geti stuðlað að mótun slæmrar líkamsmyndar þá eru áhrif fjölmiðla mikil. Hvert skref í átt að fjölbreyttari fyrirmyndum í fjölmiðlum er því til góðs og vil ég ljúka þessum pistli mínum á hvatningu til fjölmiðla. Ég hvet ykkur til að sýna oftar og í jákvæðu ljósi alls konar líkamsvöxt. Með frétt um íþróttir mætti alveg birta mynd af feitum einstaklingi að stunda sína íþrótt. Með frétt um hamingju Íslendinga mætti alveg birta mynd af feitu sem og grönnu fólki. Klói þarf ekki að líta út eins og hann sé á leið í fitness keppni og veðurfréttakrakkarnir þurfa ekki að fara í megrun. Gefum börnum tækifæri til að bera sig saman við fjölbreytt úrval persóna og aukum þannig líkur á góðri líkamsmynd og auknum lífsgæðum barnanna.
Athugasemdir