Þegar ég las grein eftir Inga Frey í Stundinni um tilraun til þess að koma á fót sérhæfðri brjóstaskurðþjónustu í Ármúlanum fannst mér eins og það mætti lesa út úr orðum sem eftir mér voru höfð að ég hefði horn í síðu Ásdísar Höllu. Það er einfaldlega rangt. Ég hef lengi dáðst að dugnaði hennar, ákveðni og kjarki. Ég hef hins vegar einstaka sinnum verið ósammála henni um samfélagsmál. Mér finnst til dæmis óskynsamlegt að byggja upp skurðlæknisþjónustu fyrir konur með mikla arfgenga áhættu á brjóstakrabbameini í einkareknu sjúkrahúsi útí bæ og lít svo á að það sé mikið hagsmuna mál íslensks samfélags að það sé gert á því þjóðarsjúkrahúsi sem við köllum Landsspítalann. Það er alls ekki vegna þess að ég vantreysti Ásdísi Höllu sem ég held að væri betur hæf en flestir til þess að reka einkasjúkrahús. Ástæðurnar sem eru allar utan hennar eru þessar:
- Það er ljóst að innan skamms verður farið að nota í heilbrigðisþjónustunni upplýsingar um arfgenga áhættu á sjúkdómum almennt, sem lesa má út úr erfðamengjum landsmanna. Arfgenga áhættan á brjóstakrabbameini sem Ásdís Halla vill að tekist verði á við í Ármúlasjoppunni er eitt af bestu dæmunum um arfgenga áhættu á slæmum sjúkdómi þar sem við erum með aðferðir til þess að takast á við áhættuna. Þetta gæti því reynst það dæmi sem kennir okkur að vinna með arfgenga áhættu innan heilbrigðis-kerfisins. Það yrði því stórslys ef reynslunnar sem fengist við það yrði ekki aflað þannig að sem flestir gætu lagt af mörkum og lært. Háskóla-sjúkrahúsið okkar er sá staður þar sem auðveldast er að sjá til þess að svo verði.
-
Þetta er mikilvægt vegna þess að það verður ekki byggð upp svona þjónusta nema á einum stað á landinu vegna þess að við erum svo fá að það er ekki nægilega mikill fjöldi tilfella til þess að byggja upp og viðhalda getu til þess að sinna þjónustunni almennilega á tveimur eða fleiri stöðum. Þetta er meðal annars ein ástæða þess að samkeppni í heilbrigðisþjónustu á Íslandi virkar ekki alltaf vel.
-
Það er stefnt að því að reisa hátæknisjúkrahús í stað þess Landsspítala sem við erum nú með á víð og dreif. Það er líklegt að slíkur spítali muni kosta um 100 milljarða króna. Það getur varla talist skynsamlegt að reita af honum verkefni og byggja upp aðstöðu til þess að vinna þau annars staðar vegna þess að endanlega myndu Sjúkra-tryggingarnarnar borga fyrir hana ásamt arði til þeirra sem legðu út fyrir henni upphaflega.
-
Flóknar og inngripsmiklar aðgerðir á fólki á að framkvæma á sjúkráhúsi þar sem skurðlæknirinn er umkringdur alls konar aðstoð eins og teymi lækna sem rýkur á vetvang ef sjúklingur fer í hjartastopp, smitsjúkdómalækni sem kemur ef sýklar gera strandhögg og svo fram vegis. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar sá sem undir hnífinn leggst er hraustur og kemur valhoppandi inn á skurðstofuna til þess að bregðast við hættu sem að honum steðjar.
Af ofansögðu ætti að vera ljóst að ég er mótfallinn því að byggja upp brjóstaskurðþjónustu í Ármúlasjoppunni og einnig að það hefur ekkert með Ásdísu Höllu að gera. Hún er dugleg og flínk kona sem hefur unnið að uppbyggingu fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisþjónustan er mér hjartansmál. Það hefur að vísu ekki farið framhjá nokkrum manni að hún sem telst til frjálshyggjuarms Sjálfstæðisflokksins hefur í atvinnustarfsemi sinni alltaf gert út á ríkið. Gárungarnir hafa gjarnan brosað að þessu en ég hef ekki efni á því búandi í gríðarstórri lúxus villu og keyrandi um á alltof dýrum bíl og kalla mig sósíalista.
Athugasemdir