„Nú ræðir sérhagsmunahópur [bændur] um mikilvægi þess að gera nýjan búvörusamning til 10 ára, en núgildandi samningur nær til ársins 2017,“ sagði Finnur Árnason forstjóri Haga í áramótablaði Viðskiptablaðsins. Þar gagnrýndi hann meðal annars að neytendur séu ekki aðilar að viðræðunum og kallaði eftir því að málið verði rætt ítarlega á Alþingi áður en skrifað er undir.
Finnur hefur rétt fyrir sér; búvörusamningurinn ætti ekki að vera einkamál bænda. Samningurinn segir til um hvernig himinháum fjárhæðum, sem koma úr vösum neytenda, skuli skipt á milli bænda. Auðvitað eiga neytendur að hafa eitthvað um það að segja.
Ríkisstyrkir til landbúnaðar, samkvæmt nýjustu tölunum frá OECD, voru rúmlega 21,1 milljarður árið 2014. Við það bætast síðan árlegar 900 milljónir sem Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra kallar „nýjan pening“ í fyrirkomulagi styrkja. Tíu ára samningur við bændur gæti því jafngilt skuldbindingu upp á 220 milljarða.
Berum saman þessa áætluðu heildarupphæð samningsins við önnur opinber fjárútlát sem eiga það sameiginlegt að hafa valdið ólgu í samfélaginu. Þannig má fá tilfinningu fyrir stærðargráðu samningsins og í kjölfarið spyrja hvort ríkisstjórnin sé að fara fram úr sér í þessu máli.
1. Finnur ber búvörusamninginn saman við Icesave-samninginn, en upphæðin nú er rúmlega þrisvar sinnum hærri. Finnur spyr í þessu sambandi hvort ekki sé rétt að þjóðin fá að kjósa um búvörusamninginn, rétt eins og hún fékk að gera í Icesave-málinu.
2. Ekki er langt síðan að Fréttablaðið fjallaði um listamannalaun og það vakti mikla athygli að fjórir listamenn hefðu fengið samfelldan styrk í tíu ár. Búvörusamningurinn jafngildir því að allir þeir 4.800 sem starfa við landbúnað fengju full listamannalaun og rúmlega það í tíu ár.
3. Upphæðin jafngildir einu af eftirtöldu: Sex Hörpum, fimmtán Smáralindum, nítján Hvalfjarðargöngum, 25 ráðhúsum eða 62 Perlum.
4. Upphæðina má umreikna í fjölda rekstrarára ýmissa ríkisstofnanna. Hún jafngildir til að mynda tíu ára rekstrarkostnaði allra háskóla landsins, 63 árum hjá Rúv, 200 árum hjá Sinfóníuhljómsveitinni og 236 árum hjá Þjóðleikhúsinu.
5. Samningurinn jafngildir samanlögðum hagnaði (eftir skatta) hjá 100 stærstu fyrirtækjum landsins árið 2014, en miðað er við samantekt tímarits Frjálsrar verslunar á stærstu fyrirtækjunum.
6. Við getum borið búvörusamninginn saman við sögulegar upphæðir, þó að það sé nú kannski meira gert til gamans. Jóni Sigurðssyni, leiðtoga sjálfstæðisbaráttunnar, reiknaðist til að Danir skulduðu Íslendingum stórfé vegna einokunarverslunar og upptöku eigna. Þegar reikningskrafa Jóns hefur verið framreiknuð til okkar tíma kemur í ljós að hún er aðeins þrjú prósent af upphæð nýja búvörusamningsins.
7. Hægt er að umreikna þekktasta skaðabótamál Íslandssögunnar, deilur Hafliða og Þorgils, í nútímapeninga með hjálp kúgilda. Þorgils Oddasson þurfti þar að greiða Hafliða Mássyni miklar skaðabætur eftir að hafa sneitt af honum löngutöng og hluta af tveimur öðrum fingrum, en um þá fjárhæð var sagt: „Dýr mundi Hafliði allur, ef svo skyldi hver limur.“ – Látum nú Hafliða vera 70 kg að þyngd og fingurna sem hann missti 200 grömm, en þá myndi Hafliði allur hafa kostað um sextán milljarða. Því mætti segja að búvörusamningurinn jafngildi um fjórtán eintökum af Hafliða Mássyni.
Hversu mikill tími og orka ætli hafi farið í að rífast um ofangreind mál? Það er ótrúlegt að hugsa til þess, að þau eru öll agnarsmá við hliðina á nýja búvörusamningnum.
Svo er það formið og framkvæmdin: Er eðlilegt að ríkisstjórn, sem kosin er til fjögurra ára, geti bundið hendur næstu tveggja ríkisstjórna í svo stóru máli? Vissu kjósendur í apríl árið 2013 að þeir væru að kjósa sér landbúnaðarstefnu til 2027? Eru þetta lýðræðislegir stjórnarhættir; hvaðan kemur umboðið?
Þennan leiðangur mætti bera saman við makrílfrumvarp Sigurðar Inga sem fór fyrir þingið síðastliðið vor. Þar átti að binda hendur næstu ríkisstjórna með því að úthluta kvóta til sex ára. Þingið mótmælti og rúmlega 50 þúsund manns skrifuðu undir áskorun af svipuðu meiði. Það fór svo að Sigurður Ingi sá sig knúinn til þess að gjörbylta frumvarpinu, meðal annars þannig að kvótanum skyldi úthlutað til eins árs í stað sex.
Enn er erfitt að fullyrða nokkuð um ágæti nýja búvörusamningsins, en satt að segja hljómar ýmislegt skynsamlega sem komið hefur fram í máli Sigurðar Inga um innihaldið. Margt bendir þó til þess að hann hafi farið rækilega fram úr sér þegar hann lagði mat á hvað gæti talist hæfilegur samningstími – það er fullkomlega óásættanleg niðurstaða að allir bændur landsins fái ígildi fullra listamannalauna í tíu ár.
Að öllu óbreyttu verður það því að teljast heldur líklegt, að nýi búvörusamningurinn hljóti sömu örlög og makrílfrumvarpið.
Athugasemdir