Þann 21. maí síðastliðinn bauð ég öllum vinkonum mínum í partí heim til mín. Í heimboðinu fólust einfaldlega þau skilaboð að mig langaði að hitta þær og gleðjast með þeim, til þess þyrfti ég ekki ástæðu en lét þó fylgja að ég hefði hana vissulega. Miklar vangaveltur fóru af stað hjá þessum fróðleiksfúsu konum sem reyndu að giska á tilefnið: Helst datt þeim í hug að ég og kærastinn ætluðum að ganga í hjónaband. Það var aldeilis að þeim þótti þurfa tilefni til að ég byði þeim heim á laugardagskveldi á vormánuðum og rækileg áminning um að maður geri þetta ekki nægilega oft!
Meiri háttar mæður og fyrirmyndir
Tilefnið sem var tvíþætt var svo gefið upp í boðinu sjálfu: Annars vegar var ár liðið frá því að ég fékk heilablóðfall og var kippt hressilega út úr daglegu lífi mínu og því stuði og streitu sem því fylgdi; og hins vegar var mæðradagurinn nýliðinn, sá fyrsti á minni ævi sem ég fagnaði móðurlaus. Þessi tvö tímamót gerðu mig meyra, þakkláta, sorgmædda, glaða og hamingjusama. Mig langaði að hitta þær konur sem höfðu hvatt mig og stutt á þessum tíma, gleðjast með þeim og segja þeim hversu miklir klettar þær eru, hversu meiri háttar mæður og fyrirmyndir þær eru börnum sínum og hvers lags lukkunnar pamfíll ég er að hafa þær í mínu lífi.
Auðvitað komust ekkert allar sem ég bauð því þannig er nú líf okkar allra; alltaf nóg að gera og nauðsynlegt að velja og hafna, forgangsraða – það er ekki hægt að gera allt – og ætti ekki að vera markmið. En ástæðan fyrir því að ég segi að þessi tímamót hafi meðal annars gert mig hamingjusama er sú að við kunnum aldrei að meta neitt eins mikið og þegar við vitum að það getur verið tekið af okkur. Hvort sem um er að ræða ástvini eða heilsuna þá finnum við helst fyrir nauðsyn þessa tvenns þegar ógnin um að annað hvort hverfi er raunveruleg. Er það að bera í bakkafullan lækinn að segja að við þurfum stóran skell til að átta okkur á töfrum líðandi stundar? Líklega, allir hafa heyrt þessum sannleika fleygt fulloft og ég þar á meðal. En það breytir þó ekki því að ég fattaði hann ekki almennilega fyrr en honum var þrumað í fés mitt – tvisvar í röð!
Svefn lykilatriði að vellíðan
Ég hef átt andvökunætur yfir vinnunni, afkomendunum, húsnæðisláninu, sambandinu og jafnvel draslinu frammi. Ég segi þetta því ég veit sem er að ég er ekki ein um að hafa misst dýrmætan svefn yfir einhverju einmitt ekki svo dýrmætu eins og skattskýrslunni sem átti að skila fyrir nokkrum dögum. Vitandi svo mikið betur; að góður svefn er lykilatriði að vellíðan og áhyggjur hafi aldrei leyst eitt vandamál.
Þegar ég lít yfir farinn veg mætti segja að ég hafi fram að því, farið stóráfallalaust í gegnum lífið þó svo að ferðalagið hafi ekki alltaf verið farið á candy floss bleiku skýi. En árið 2015 tók ég upp á því um hábjartan dag að fá heilablóðfall. Að vita ekki hvað amar að manni, missa fótanna í bókstaflegri merkingu og vera kippt út um hríð er eitthvað sem þú lærir af.
Stóri lærdómurinn minn var að slaka aðeins á kröfunum, vera meira sama og já, eins og ég hafði heyrt þúsund sinnum frá öðrum, að njóta einföldu hlutanna.
Athugasemdir