Margir fara mikinn gegn ákvörðunum og framkvæmdum ríkisstjórnarinnar. Þeir virðast mótfallnir næstum öllu sem hún leggur til, og virðast sjá meinbug á ýmsu sem kemur þegnunum vel. Auðvitað eru skoðanir manna mismunandi, sennilega í takt við fjölda þeirra. Þær ber að virða. Á báða bóga. En sumir geta ekki með nokkru móti geta virt skoðanir annarra, og telja þær persónulega árás á þeirra innra sjálf. Líkt og frávita af bræði tala þeir hátt og mikið, og niður til þeirra sem aðhyllast öndvert. Þeir minna á „freka kallinn“, sem Jón Gnarr ritaði svo snilldarlega um í borgarstjóratíð sinni. Margir þeirra hömpuðu grein Gnarrs, og sögðu frá kynnum sínum af „freka kallinum“, sem voru misslæm.
Sumir þeirra eiga það sameiginlegt að vera listamenn, pirrast sérstaklega út í ríkisstjórnina, fjármálaráðherrann, Vigdísi Hauks og fleiri. Þeir mæra tíma fyrri ríkisstjórnar, en bekenna það ekki að vera vinstri menn. Frekar reyna þeir að „hægra“ Samfylkinguna og jafnvel Vinstri græna. Ljóst er að þeir sakna þessara flokka af vettvangi ráðdeildar ríkisins, þótt þeir viðurkenni ekki alltaf aðild að þeim.
Þeir hafa í löngu máli sótt orðskrúð til listagyðjunnar, máli sínu til skýringar. Einn skrifaði um að Bjarni Ben væri búinn að „rassa yfir sig“, hvað svo sem það þýðir. Yfirrössunar greinin hans minnir raunar á fyrri skrif hans, frá því að hann var virkur rithöfundur. Skrif hans eru að vanda skemmtileg. Hins vegar virðast þau síður tengd raunveruleikanum en áður.
Einn talaði mikið um „skítinn sem hvarf undir teppið af því það var ælt yfir lortinn“, í mótmælum á Austurvelli, fyrr í vetur. Frekar reiður. Raunveruleikatenging hans var þó meiri en hinna, hún snerti kjör og aðstæður fólksins í landinu. Eitthvað sem allir geta tengt við, þar með talið ég. En listsköpunin var samt við lýði, og þess sást stað með skýrum hætti með málalokunum sem fylgdu í kjölfar reiðisamstöðunnar, sem fáir sáu tilefni til að fjalla um.
Listamaður nokkur geystist síðan fram á völlinn með hugmyndir um verkefni fyrir „Íslensku greiningardeildina“. Listsköpunin er auðsæ, þessi stofnun er ekki til. Setji maður háð listamannsins til hliðar, er ekki hjá því komist að nefna sambærilegar hugmyndir Ingibjargar S. Gísladóttur, efnislega alveg eins. Í inngangi býsna þéttrar skýrslu þverpólitísks- og faglegs samráðshóps, sem stýrt var af Val Ingimundarsyni, próf. í sagnfræði, kemur fram m.a. eftirfarandi:
„Á friðartímum verða íslensk stjórnvöld að sjá um að tryggja varnir og öryggi landsins. ... ... Öryggis- og varnarmál fjalla ekki eingöngu um hefðbundin stríðsátök heldur einnig um viðbrögð við umhverfisvá, mengun, náttúruhamförum, farsóttum og varnir gegn hryðjuverkum. Brýnt er að íslensk stjórnvöld meti sjálfstætt áhættuþætti í öryggis- og varnarmálum og byggi aðgerðir til að mæta þeim á því mati.“
Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, miðað við skrif greinarhöfundarins, er lögð áhersla, sjálfstætt, á hryðjuverk. En greinarhöfundi finnst það kannski ekki skipta máli. Fremur ætti að njósna um Kanasleikjur, Rússadindla og Liðsmenn Kínverska Alþýðulýðveldisins. Og mörgum úr röðum listamanna finnst greinarhöfundur vera fyndinn, og jafnvel ofurmannlegur á því sviði, vegna þessara skrifa. Tjahhh... Grín, já takk. Raunveruleiki, nei alls ekki. Greinin gerir listsköpun hans góð skil, en sagnfræðiþekkingu Vals Ingimundarsonar og vinnu starfshópsins ekki. Og ekki heldur raunverulegum ótta margra íslendinga.
„Listagyðjan vaknar aldrei betur en á vori,“ sagði listamaður nokkur við mig þegar ég var að byrja að spreyta mig á málaralist. Ekki að ég hafi sannreynt það, til þess er listamannalíf mitt of naumt og aumt. En ég hef enga ástæðu til annars en að trúa manni með áratugalanga reynslu af listsköpun. Hins vegar fellur raunveruleikinn aldrei í svefn, það hef ég nógu oft reynt sjálfur. Ekki heldur að vori. Fögnum vorinu raunverulega.
Með virðingu,
Gísli Kr. Björnsson
Höfundur er héraðsdómslögmaður og býr í Reykjavík, reynir við listagyðjuna en er truflaður af raunveruleikanum.
Athugasemdir