Tilgangurinn með stofnun stjórnmálaflokksins Viðreisnar, og þar með góðu kjöri hans í síðustu alþingiskosningum, er að verða ein mesta ráðgáta íslenskra stjórnmála.
Sagan af Viðreisn hófst með háværri óánægju alþjóðasinnaðra meðlima Sjálfstæðisflokksins eftir að Bjarni Benediktsson og félagar hans í efstu röð flokksins sviku margendurtekin kosningaloforð sín um að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið. „Pólitískur ómöguleiki“ olli því að hann ákvað að svíkja loforðið – þótt formaður samstarfsflokks hans í ríkisstjórn hefði líka lofað því.
Viðreisn boðaði grundvallarbreytingar í tveimur stærstu málum íslensks samfélags á síðustu þremur áratugum, en átti eftir að koma á óvart.
„Loforðið var svikið“
Menn eins og Benedikt Jóhannesson og Þorsteinn Pálsson, sem trúðu að Ísland ætti að ganga í ESB – eða þjóðin í versta falli að ráða – tóku þessar afskýringar sjálfstæðismanna ekki gildar. Svo fór að Benedikt stofnaði stjórnmálaafl.
„Ég er hér vegna þess að ég á mér draum,“ sagði Benedikt á fyrsta landsfundi flokksins mánuði fyrir alþingiskosningarnar, og ræddi svo um kerfisbreytingar, góð gildi og slæm, og aðildarviðræður við Evrópusambandið.
„Loforð er loforð – og loforðið var svikið,“ sagði Benedikt þar um fyrirheit stjórnarflokkanna um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir síðustu kosningar. „Allir voru sviknir, hvort sem þeir vildu halda viðræðum áfram eða jarða ferlið.“
„Allir voru sviknir“
Og það kom ekki á óvart að eitt af helstu málum Viðreisnar var að þjóðin fengi að ráða um áframhaldandi aðildarviðræður og að Viðreisn styddi að gengið yrði í sambandið, svo lengi sem þjóðin styddi það. Eins og segir í stefnuyfirlýsingu flokksins sem var kynnt breytingarsinnuðum kjósendum fyrir kosningar: „Aðild að Evrópusambandinu fylgja margir kostir sem styrkja stöðu Íslands og efla hagsæld. Þess vegna á að bera undir þjóðaratkvæði hvort ljúka eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Viðreisn hvetur til þess að þeim viðræðum verði haldið áfram og lokið með hagfelldum aðildarsamningi, sem borinn verði undir þjóðina og farið að niðurstöðum þeirrar atkvæðagreiðslu.“
Grundvallarbreytingar á kerfinu
Annað stóra málið við stofnun Viðreisnar var að ná fram sanngjörnu gjaldi frá útgerðarmönnum fyrir afnot þeirra af auðlindinni.
Á fyrsta landsfundi Viðreisnar sagði Benedikt að enginn annar myndi láta draum hans rætast.
„Við ætlum að skora kerfið á hólm og gera á því grundvallarbreytingar.“
Stofnun Viðreisnar er því hluti af sögunni um tvö stærstu úrlausnarmál íslenskra stjórnmála síðustu þrjá áratugi.
„Málefnin ráða för“
Loksins var kominn nýr valkostur í stjórnmálum fyrir þá sem vildu ekki að krónan og tilheyrandi sveiflur yrðu krónískt vandamál á Íslandi og vildu að útgerðarmenn greiddu fyrir afnot sín af auðlindinni. Og stefnan var skýr: „Málefnin ráða för“ var helsta slagorð Viðreisnar, og þannig boðað að Viðreisn myndi ekki stunda hreint valdapot eða stýrast af tækifærismennsku.
En sumir óttuðust að Viðreisn myndi reynast vera framlenging af Sjálfstæðisflokknum sem hún spratt úr. Einn af frambjóðendum flokksins, sem átti eftir að verða yngsti þingmaður lýðveldissögunnar, tók af allan vafa í greininni „Málefnin ráða för“ á vef Viðreisnar:
„Þessu svarar Viðreisn á þann hátt að ekkert sé útilokað, en flokkurinn fari þó einungis í samstarf þar sem áherslur hans ná fram. Það eru einna helst róttækar kerfisbreytingar með almannahagsmuni að leiðarljósi. Markaðs- og uppboðsleið í sjávarútvegi, nútímaleg landbúnaðarstefna byggð á eðlilegri samkeppni og kosningar um framhald aðildarviðræðna við ESB eru allt meðal stefnumála Viðreisnar. Einnig telur flokkurinn að breyting stjórnarskrár sé nauðsynleg. Allt þetta eru skref til að koma samfélagi okkar inn í nútíðina. Mögulegur samstarfsflokkur Viðreisnar þyrfti auðvitað að samþykkja þessi stefnumál.“
Viðreisn sló í gegn í kosningunum, fékk 10,5 prósent atkvæða og komst í oddastöðu um að mynda ríkisstjórn. Benedikt fór meira að segja fram á stjórnarmyndunarumboðið.
Strax eftir kosningarnar myndaði Benedikt bandalag með Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, flokki sem hefur á stefnunni að „landa góðum samningi við ESB sem þjóðin getur eftir upplýsta umræðu samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu“.
Niðurstaðan var að Viðreisn komst í ríkisstjórn – óumflýjanlega.
Öfl kerfisbreytinga, lýðræðis og bættra stjórnmála voru komin til valda.
Eftir kosningarnar
Viðreisn setti í stjórnarsáttmála loforð til Sjálfstæðisflokksins um að flokkurinn myndi standa gegn því og koma í veg fyrir að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræður við Evrópusambandið.
Jón Steindór Valdimarsson, varaþingmaður Viðreisnar, var einn þeirra sem gagnrýndu ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fyrir að láta ekki verða af þjóðaratkvæðagreiðslunni sem þeir boðuðu fyrir kosningarnar 2013. Í Kastljósinu 18. febrúar 2014 sagði hann að þjóðaratkvæðagreiðslur væru í raun æðri stefnu ríkisstjórnar.
„Við verðum líka að horfa til þess, ef við ætlum að taka upp þjóðaratkvæðagreiðslu um tilekin mál, þá hlýtur ríkisstjórn þess tíma að vera undir það búin að þjóðin hafi aðra skoðun en ríkisstjórnin í tilteknu máli. Annars er enginn tilgangur með þjóðaratkvæðagreiðslum, vegna þess að þá verður aldrei neitt borið undir atkvæði þjóðarinnar nema það sem ríkisstjórnin vill og er viss um að verði samþykkt.“
Hinn 15. janúar 2017 hafði nýja stjórnmálaaflið sem spratt upp á móti loforðasvikunum komist í ríkisstjórn. Jón Steindór Valdimarsson sagðist þá ætla að greiða atkvæði gegn því á Alþingi að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að ESB. Hann sagðist frekar ætla að styðja ríkisstjórnina en slíkt þingmál.
Og niðurstaðan af stofnun stjórnmálaafls vegna loforðasvika um þjóðaratkvæðagreiðslu var að fyrirbyggja þjóðaratkvæðagreiðsluna, að minnsta kosti þangað til kjörtímabilið væri á enda. „Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins.“
Með þessari yfirlýsingu verður ljóst að þjóðaratkvæðagreiðsla verður í fyrsta lagi í næstu alþingiskosningum. Enginn veit síðan hvaða ómöguleiki tekur við, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn nú þegar hunsað eina þjóðaratkvæðagreiðslu og svikið loforð um aðra.
Draumurinn seldur
Eitt af því sem skildi að stjórnmálaflokkana fyrir kosningarnar í fyrra var hvort þeir styddu uppboð á aflaheimildum, þannig að útgerðarfyrirtæki þyrftu að borga ríkinu markaðsverð fyrir réttinn til að veiða fiskinn. Viðreisn var augljóslega flokkur sem studdi uppboð. Enda var í stefnu flokksins sagt mjög einfaldlega: „Tekið verði upp markaðstengt auðlindagjald í sjávarútvegi“. Benedikt Jóhannesson sagði þetta einfalt, eins og þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði fyrir kosningarnar þar á undan að það væri einfalt að afnema verðtrygginguna.
„Lausnin er kynnt hér á eftir,“ skrifaði Benedikt á vef Viðreisnar. „Sumum kann að virðast hún flókin, en í raun er hún sáraeinföld. Á hverju ári fer ákveðið hlutfall kvótans á uppboðsmarkað, til dæmis 3 til 8%. Tekjur ríkisins ráðast ekki af því hvaða flokkar eru í ríkisstjórn heldur af markaðsaðstæðum á hverjum tíma.“
Í stjórnarsáttmálanum var uppboð aflaheimilda síðan í raun útilokað í sérstökum kafla um auðlindir: „Ekki skal gengið á eignar‐ og nýtingarrétt einstaklinga nema brýnir almannahagsmunir krefjist þess.“
Til að innsigla það ákvað Viðreisn að skipa yfirlýstan andstæðing veiðigjalda formann nefndarinnar sem á að móta gjaldtöku ríkisins fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni.
Eins og Stundin greindi frá hefur formaðurinn, Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og einn af höfundum kvótakerfisins, verið tortrygginn og andsnúinn flestum hugmyndum um skatt fyrir auðlindarnýtingu og svo mótfallinn uppboði á veiðiheimildum í á annan áratug.
„Ég óttast að þessi inngrip í þetta aflahlutdeildarkerfi gæti haft neikvæð áhrif“
Nú nýlega þegar ræddar voru hugmyndir á Alþingi um að viðbótarkvóti, sem enginn ætti, yrði boðinn upp á markaði, lýsti Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, andstöðu sinni við uppboð á aflaheimildum núna, á þeim forsendum að það gæti truflað vinnuna við endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins, sem andstæðingur uppboðs leiðir núna, en á samkvæmt Viðreisn að hafa einmitt uppboð í för með sér. „Ég óttast að þessi inngrip í þetta aflahlutdeildarkerfi gæti haft neikvæð áhrif á þá vinnu sem er að fara í gang í þessum töluðu orðum og ég bind svo miklar væntingar við.“
Í Morgunblaðinu kom síðan fram að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu engar áhyggjur af grundvallarbreytingum. „Menn eru ekkert að stressa sig á þessu, því komi nefndin með tillögur um grundvallarbreytingar, þá verða þær einfaldlega stöðvaðar í þinginu,“ var haft eftir þingmanni Sjálfstæðisflokksins.
Benedikt átti sér draum, en svo vaknaði hann og fór að gera annað – með flokknum sem sveik alla.
„Nákvæmlega sama“
Röksemd Bjarna Benediktssonar fyrir því að svíkja loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu var að hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né Framsóknarflokkurinn vildi aðild að ESB og því væri merkingarlaust að halda áfram viðræðum. Viðreisn vill hins vegar aðild, þótt sú afstaða sé stundum loðin, og Björt framtíð er yfirlýstur stuðningsflokkur ESB-aðildar. Þannig eru svik Viðreisnar í raun verri en Sjálfstæðisflokksins.
Fylgi Viðreisnar mældist síðast 5 prósent hjá MMR, eða minna en helmingur af stuðningnum sem flokkurinn fékk í kosningunum. Fallið jafngildir því að Sjálfstæðisflokkurinn hefði 13,8 prósent fylgi.
Björt framtíð mældist með rúm 3 prósent. Eins og Sjálfstæðisflokkurinn væri með 12 prósent fylgi, miðað við sama hlutfallslega fall.
Eins og Benedikt Jóhannesson sagði á fyrsta landsfundinum, þegar hann útskýrði þörfina fyrir Viðreisn og Evrópustefnu hennar. „Þetta er nákvæmlega sama stefna og núverandi stjórnarflokkar studdu fyrir síðustu kosningar. Það breytir engu hve oft menn segjast hafa útskýrt málið og þræta fyrir fortíðina. Þó að minni stjórnmálamanna sé brigðult gleyma félagarnir Gúgúll og Jútúb engu.“
Það nægir reyndar að fara inn á vidreisn.is til að rifja þetta upp.
Allir flokkar sem fara í ríkisstjórn þurfa að gera málamiðlanir. En sjálfur tilgangur og uppruni Viðreisnar er í lausu lofti eftir að kjarnamál flokksins voru leyst upp í stefnuyfirlýsingu og framkvæmd ríkisstjórnarinnar. Fólk var markvisst látið trúa öðru. Flokkurinn hefur að mestu samlagast Sjálfstæðisflokknum eins og margir óttuðust fyrir kosningar. Benedikt seldi okkur draum sinn og siðbót, en hann virðist svo hafa selt drauminn fyrir völdin.
----
Þetta eru ekki lítil mál, heldur einhver stærstu úrlausnarmál allra samfélaga. Til dæmis hófust langvarandi mótmæli í Úkraínu árið 2013 með því að forsetinn sveik loforð sín um að staðfesta fríverslunarsamning við ESB, mótmæli sem enduðu í ofbeldi og landflótta forsetans.
Hér hefur enginn mætt á torg til að mótmæla í þetta sinn. Enda, hvað getur fólk sagt? Við kusum þá, vorum plötuð, kusum þá aftur til valda og vorum svo aftur plötuð? Við getum ekkert sagt. Spurningin er núna: Höldum við reisn?
Athugasemdir