Það er verið að fara að kaupa ykkur.
Ríkisstjórnin hefur farið varlega í að auka útgjöld til að eiga það inni skömmu fyrir kosningar. En nú byrjar kapphlaupið.
Framsóknarflokkurinn mun nota tímann fram að kosningum til að finna út leiðir til að útdeila peningum úr sameiginlegum sjóðum okkar og hagnast á því sjálfur. Því verra sem gengi Framsóknarflokksins verður, þess meiru þarf hann að lofa.
Hrægammurinn sem fórnaði sjálfum sér
Seinast komust framsóknarmenn til valda með því að lofa okkur 300 milljörðum króna af peningum „hrægamma“, eins og þeir kölluðu þá. Fráfarandi forsætisráðherra reyndist vera hrægammur í sauðargæru. Gulrót eða kylfu, ætlaði forsætisráðherra að nota til að fórna sjálfum sér og eiginkonu sinni á altari almannahagsmuna án vitundar almennings. Því þannig gera hetjur - dulbúast fyrir hetjudáðina og breyta náttúrulögmálum.
Framsóknarmenn stóðu ekki fyllilega við þetta, heldur voru milljarðarnir 80 og svo var fólki heimilt að færa 70 milljarða úr einum vasa í annan.
Þeir sem fóru varlegar í að lofa peningum töpuðu síðustu kosningum.
Sigurvegararnir lofuðu ekki bara peningum, heldur líka beinu lýðræði, en sviku það og sniðgengu svo niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá.
Lægri skatta fyrir þá sem forðast skatta
Hins vegar lækkaði ríkisstjórnin verulega álögur á ríka og stóriðju - þá aðila á Íslandi sem finna sér leiðir til að borga ekki skatta. Fráfarandi forsætisráðherra lækkaði skattbyrði sína um 8 milljónir króna þegar auðlegðarskatturinn var afnuminn. Sérstakur stóriðjuskattur var aflagður, þannig að skatttekjur á kjörtímabilinu lækkuðu áætlað um þrjá milljarða króna. Á sama tíma beita álfyrirtækin sérstökum viðskiptafléttum til að losna við að borga skatta á Íslandi. Við könnumst við sömu tilhneigingu í hagsmunatengingum leiðtoga þeirra stjórnmálaflokka sem helst styðja stóriðjuna.
Álrisarnir og íslenska eitt prósentið eiga það sameiginlegt að þekkja leiðirnar og mikilvægi þess að borga ekki skatta. Einn maður, Gunnlaugur Sigmundsson, faðir fráfarandi forsætisráðherra, komst hjá því að borga yfir 70 milljónir króna í skatta á Íslandi þegar hann flutti peningana sína frá Íslandi og í gegnum skattaskjól í Lúxemborg og Tortóla. Þannig óx fjölskylduauður fráfarandi forsætisráðherra í skattaskjóli.
Krosstengdir vilja selja sameiginlegar eignir
Sjálfstæðismenn munu gefa okkur smjörþefinn af veruleika eins prósentsins og álfyrirtækjanna með því að lofa okkur að borga lægri skatta. Á sama tíma munu þeir vilja selja eignir ríkisins. Bjarni Benediktsson vill raunverulega selja hluta af Landsvirkjun, sem heldur utan um orkuauðlind þjóðarinnar. Þeir hafa líka banka að selja og forsögu um að lofa að leggja inn á okkur pening.
Á næstu mánuðum verðum við sannfærð um það að krosstengdir meðlimir ríkasta eina prósentsins séu best til þess fallnir að gæta hagsmuna 99 prósentanna. Aðferðin verður að bjóða okkur lægri skatta og bjóða okkur okkar eigin peninga.
Langtímahagsmunir þjóðarinnar stangast á við þá skammtímahagsmuni stjórnmálamanna að kaupa atkvæði með ríflegum loforðum. Við höfum reynslu af því að framkölluð sé bóla og efnahagshrun eftir að kapphlaup um að kaupa atkvæði fór saman við áhersluna á sérmeðferð ríkasta eina prósentsins.
Athugasemdir