Yfir helmingur barna af erlendum uppruna stunduðu engar skipulagðar íþróttir árið 2016. Hlutfall barna, sem koma frá heimilum þar sem báðir foreldrar eru af íslensku bergi brotnir, sem engar skipulagðar íþróttir stunduðu, var hins vegar rétt ríflega þriðjungur á sama tíma. Viðmælendur Stundarinnar telja að beita þurfi persónulegri nálgun svo hægt sé að ná til innflytjenda og nauðsynlegt sé að ná talsambandi við bæði börnin og foreldra þeirra.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) ásamt Ungmennafélagi Íslands fékk rannsóknamiðstöðina Rannsóknir og greiningu til að setja spurningar um íþróttaiðkun inn í spurningalista sem lagðir voru fyrir alla nemendur í 8. til 10. bekk á landinu í febrúar 2016, alls ríflega 10.500 unglinga. Meðal þess sem í ljós kom var að nærri tvöfalt líklegra er að börn, sem koma frá heimilum þar sem eingöngu er töluð íslenska, æfi íþróttir fjórum sinnum í viku eða oftar. …
Athugasemdir