Félagsskapurinn Líf án ofbeldis afhenti í morgun Áslaugu Örnu Sigubjörnsdóttur dómsmálaráðherra um 2.000 undirskriftir fólks sem hefur lagt nafn sitt við málstað félagsskaparins, sem berst gegn því að börn séu neydd í þvingaða umgengni við ofbeldisfulla feður sína. Talskona Lífs án ofbeldis segir að ráðherra hafi tekið þeim vel, augljóslega verið búin að kynna sér málin og eftir fundinn væru þær bjartsýnar á framhaldið.
Líf án ofbeldis er hreyfing sem stofnuð var í september á þessu ári. Að félagsskapnum standa mæður sem hafa þurft að verja börnin sín gegn ofbeldi feðra og konur sem voru sem börn þvingaðar í umgengi við ofbeldisfulla feður sína, ásamt aðstandendum þeirra. Félagsskapurinn berst fyrir því að fundnar verði nýjar leiðir í umgengnis- og forsjármálum þar sem hagsmunir barna eru tryggðir, þegar fyrir liggur að foreldri hefur beitt börn ofbeldi. „Það er óásættanlegt að börn fari í umgengni hjá feðrum sem beita þau kynferðislegu, líkamlegu og andlegu ofbeldi. Samt sem áður er það að gerast reglulega í okkar samfélagi. Fjöldi mála sýnir greinilegt endurtekið mynstur þar sem dómsmálaráðuneytið og stofnanir sem ábyrgar eru fyrir lagaframkvæmd um barnarétt, gefa gögnum og vitnisburðum sem sýna skýlaust að um ofbeldi sé að ræða, ekki vægi,“ segir í bréfi félagsskaparins sem sent var dómsmálaráðherra á dögunum en í því var óskað eftir fundi þeim sem fram fór í morgun.
„Okkur leið eins og það væri á okkur hlustað og þessi fundur gæti verið upphafið að einhverjum aðgerðum í rétta átt“
Líf án ofbeldis segir jafnframt að réttindagæslu barna í forsjár- og umgengnismálum, þar sem saga sé um heimilis- og kynferðisofbeldi, sé verulega ábótavant. Mæðrum séu settir afarkostir um að annað hvort stofni þær börnum sínum í hættu með því að samþykkja umgengni þeirra við ofbeldisfulla feður, eða að þær séu að öðrum kosti settar í þá stöðu að virða ekki forsjárskyldur sínar gagnvart barni, í andstöðu við réttarákvarðanir. Í áskorun þeirri sem afhent var Áslaugu Örnu í morgun er þess krafist að við lagaframkvæmd sýslumanna og dómara séu ákvæði Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna virt og að lagaframkvæmdin sé í samræmi við þær áherslur sem lagðar hafa verið í barnalögum um að saga um ofbeldi fái aukið vægi við ákvörðun um forsjá og umgengni.
Sigrún Sif Jóelsdóttir, ein talskvenna Lífs án ofbeldis, segir að fundurinn hafi gengið vel. „Áslaug tók okkur vel og hafði kynnt sér málið. Hún lýsti áhyggjum af stöðunni við okkur, hvað varðar framkvæmdina, og án þess að gefa nein loforð lýsti hún því að þetta mál væri í athugun. Til að mynda stæði til að hún fundaði með sýslumannsembættinu á höfðuborgarsvæðinu um málið í næstu viku. Okkur leið eins og það væri á okkur hlustað og þessi fundur gæti verið upphafið að einhverjum aðgerðum í rétta átt. Við erum því bjartsýnar eftir þennan fund.“
Athugasemdir