Boðað hefur verið til „óléttukellingamótmæla“ fyrir utan dómsmálaráðuneytið við Sölvhólsgötu á morgun kl. 15. Tilefnið er brottvísun albanskrar konu, sem gengin er 37 vikur á leið, og fjölskyldu hennar úr landi aðfararnótt þriðjudags.
Konunni hafði verið neitað um alþjóðlega vernd, en hún var send úr landi með flugi þvert á ráðleggingar læknis á kvennadeild Landspítala. Fjölskyldan er nú í Albaníu og þurfti konan að fara á sjúkrahús eftir ferðalagið af ótta við fyrirburafæðingu.
„Ófrískar konur og mæður með ung börn ætla að mæta í Dómsmálaráðuneytið á Sölvhólsgötu á morgun, föstudag, kl.15 og mótmæla þeirri ómannúðlegu meðferð á fólki sem varð til þess að ófrískri konu og tveggja ára barni hennar var vísað úr landi á aðfaranótt þriðjudags!“ skrifar Salka á Twitter. „Barnlaus og ó-ólétt auðvitað líka velkomin.“
Athugasemdir