Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur að Mannréttindaskrifstofa Íslands geti ekki kennt sig við mannréttindi í ljósi þess að stofnunin hafi lagst gegn frumvarpi hans um refsingar vegna umgengnistálmunar. Hann kallar eftir því á Facebook að Mannréttindaskrifstofan og fleiri sams konar stofnanir verði teknar af fjárlögum.
Mannréttindaskrifstofa Íslands var stofnuð á fimmtíu ára afmæli íslenska lýðveldisins árið 1994 og hefur meðal annars það hlutverk að skila skýrslum til eftirlitsnefnda Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins og koma fram fyrir Íslands hönd í alþjóðlegu samstarfi. Stofnaðilar skrifstofunnar voru Íslandsdeild Amnesty International, Barnaheill, Biskupsstofa, Hjálparstarf kirkjunnar (sem þá nefndist Hjálparstofnun Kirkjunnar), Kvenréttindafélag Íslands, Lögmannafélag Íslands, Skrifstofa jafnréttismála, Rauði kross Íslands og UNIFEM á Íslandi.
Brynjar og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað flutt frumvarp þar sem lagt er til að umgengnistálmun varði sektum eða fangelsi allt að fimm árum. Hefur Mannréttindaskrifstofa Íslands gagnrýnt frumvarpið og sagt það andstætt hagsmunum barna, enda sé umgengni oft tálmað vegna áhyggna af ofbeldi hins foreldrisins, vímuefnaneyslu eða andlegum veikindum þess. Í slíkum tilvikum orki tvímælis „að refsa foreldri fyrir að uppfylla lögbundnar skyldur sínar við börn sín“.
Brynjar gefur lítið fyrir afstöðu Mannréttindaskrifstofunnar. „Félagskapur sem telur rétt að engin viðurlög eigi að vera við vanrækslu foreldris gegn barni, sem felst í því að tálma umgengni við hitt foreldrið með ólögmætum hætti, getur ekki kennt sig við mannréttindi,“ skrifar hann. „Hættum að dæla fé úr ríkissjóði til slíkra félaga og styðjum betur við bakið á frjálsum félögum sem sinna nauðsynlegri samfélagsþjónustu, sem ríkið þyrfti ella að gera með meiri tilkostnaði.“
Athugasemdir