Er hægt að trúa á Guð þegar fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins með eiginkonu sem auðgaðist á skartgripasölu hefur klónað hundinn sinn?
--
„Það hefur orðið siðrof, held ég,“ sagði Agnes Sigurðardóttir biskup þegar hún var spurð hvers vegna aðeins þriðjungur þjóðarinnar treystir þjóðkirkjunni.
Staðan er þannig að einungis þriðjungur þjóðarinnar ber traust til þjóðkirkjunnar. Svo vill til að tveir þriðju eru enn skráðir í kirkjuna, en þriðjungur hvorki treystir né vantreystir kirkjunni.
Agnes útskýrði síðan að hún væri ekki að vísa til hefðbundins, félagsfræðilegs skilnings orðsins, sem er uppgangur siðleysis eða upplausn siðferðis meðal hópa.
Og ástæðan? „Það náttúrlega segir sig sjálft að ef að börnin læra ekki heima hjá sér til dæmis biblíusögurnar eða í skólanum þá verður framtíðin þannig að þau vita ekki að þetta er til.“
Saga af tveimur kynjum
En er endilega þess vert að halda í siði? Hér er til dæmis fyrsta biblíusagan:
Guð skapaði karlmanninn. En karlmanninum leiddist.
„Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi,“ sagði Guð. Þá bjó hann til dýr, en dýrin voru ekki nóg. Karlinn gat étið þau og svoleiðis, en hann þurfti eitthvað meira. Guð bjó til konu fyrir karlinn. Einfalt gerðu-það-sjálfur augnablik, notaði bara eitt rifbeinið úr honum.
Hvað var það fyrsta sem karlmaðurinn sagði við konuna? „Hún skal karlynja kallast, af því að hún er af karlmanni tekin.“ En hvað sagði konan? Ekki neitt. Ekki fyrr en í næsta atriði. Og um leið og hún opnaði munninn skemmdi hún fyrir og kostaði þau plássið í paradís.
Þessi saga er eins og færsla úr „Brandarasíða fyrir lengra komna“ á Facebook. En hún er úr fyrstu Mósebók. Fyrir siðrof.
„Hann skal drottna yfir þér“
Karlinn útskýrði þetta fyrir Guði, að þetta væri konunni að kenna: „Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át.“ En Guð, hann leysti úr málinu, af sinni „miklu og óviðjafnanlegu visku“, eins og Trump orðaði það um daginn, þegar hann vék fyrir Tyrklandi, áður en hann hótaði að „gjöreyða“ því.
„Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi,“ sagði Guð og bætti við að karlmaðurinn, „hann skal drottna yfir þér“.
Rúmlega sex þúsund árum síðar var síðan hætt að kenna stelpum kristnifræði í íslenskum skólum. Þá kom siðrof og í ljós kom að kirkjan var ekki byggð á kletti.
Siðfár karla
Samtíða siðrofinu varð siðfár í samfélaginu, en siðfár er þegar hörð viðbrögð verða við hópi sem talinn er ógna grunngildum samfélagsins.
„Vegurinn til heljar er oftast varðaður góðum ásetningi,“ sagði fjölmiðlastjórnandi á dögunum. Ástæðan var að eitt fyrirtæki hafði boðað að auglýsa síður í fjölmiðlum fyrirtækja þar sem mikill, óréttlætanlegur kynjahalli væri.
Áfangastaður: Helvíti. Leiðarval: Samfélagsleg ábyrgð út frá kynjajöfnuði í fjölmiðlafyrirtækjum.
Íslandsbanki átti að „sjá sóma sinn í því að biðjast afsökunar á því að hafa komið svona fram við fjölmiðla í þessu landi“, sagði formaður Blaðamannafélags Íslands.
Það er menningarstríð, sagði formaður Miðflokksins (89% karlar) á Bylgjunni (1 kona) um ákvörðunina.
Stuttu síðar komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að leikari ætti að fá greiddar 5,5 milljónir króna í bætur fyrir að hafa verið sagt upp störfum eftir að sex samstarfskonur kvörtuðu undan framkomu hans. Bæturnar voru hærri en nokkur þolandi nauðgunar hefur fengið.
Nokkrum dögum fyrr hafði ungur drengur fengið dæmdar 1,7 milljónir króna í bætur eftir að afi hans braut gegn honum kynferðislega, meðal annars þegar hann var að lesa kvöldsögu fyrir svefninn.
Menningarstríðið
Einu sinni var vonda fólkið vandamálið. Í menningarstríðinu (e. culture wars) hverfast átökin um að „góða fólkið“ sé að leiða okkur til heljar.
Þá er vandamálið manneskjan sem sýndi fram á kvenhatur og spillingu þingmanna, frekar en kvenhatur og spillingu þingmanna.
Þá eru glæpamennirnir þau sem rísa upp fyrir fólk í leit að hæli.
Þá hefur forsætisráðherra sigað lögreglunni á opinbera starfsmenn fyrir að tala við fjölmiðla sem fréttu af húsleit í stærstu útgerðinni vegna undirverðlagningar á fiski og brota á gjaldeyrislögum.
Þá vill einn auðugasti maður landsins fangelsa eftirlitið, setja seðlabankastjóra í steininn fyrir að rannsaka sig, og matreiða sjálfur upplýsingarnar til fjölmiðla.
Þá fara blaðamenn í verkfall, því kröfum þeirra um að blaðamaður með háskólagráðu eftir eins árs starf fái meira en tíund af launum ritstjóra Morgunblaðsins, er hafnað af Samtökum atvinnulífsins.
Nú þegar þjóðin skiptist í þrenningu þeirra sem treysta, þeirra sem er sama og hinna sem vantreysta, klofnar kirkjan við hverja orrustu menningarstríðsins. Þegar Agnes biskup setur kærleikann í öndvegi og styður hælisleitendur, snýst þjóðernissinnað íhaldsfólk gegn henni. Þegar hún kvartar undan siðrofi vegna skorts á trúboði í skólum, snýr hún frjálslyndu fólk gegn sér.
Agnes biskup er dæmd til að elta týndu sauðina út í tómið sauðrof – og skilja hjörðina eftir.
Siðaskiptin og klónun Sáms
Um árið eitt þúsund ákvað Þorgeir Ljósvetningagoði að kasta sið sínum og taka upp kristna trú, til að slíta ekki í sundur friðinn. Trúin var sú að sömu lög þyrftu að gilda um alla. Þetta var löngu fyrir tíma aflandsviðskipta, þar sem þröngur hópur þeirra auðugustu gátu valið skatta og leynd.
550 árum eftir kristnitökuna urðu siðaskiptin, kaþólsku skipt út fyrir lúthersku, en ekki eins friðsöm og þegar ákveðið var að slíta ekki friðinn. Allir dýrðlingarnir voru teknir táknrænt af lífi, og María mey með, en Jón Arason biskup var hálshöggvinn á Hólum. Allar eigur kirkjunnar runnu til Danakonungs, einokunarverslun var fljótlega komið á og komið á strangri löggjöf í siðferðismálum. Því þeir sem ná völdum nota völdin. Þegar byltingu fylgir valdasamþjöppun frekar en valddreifing er hún ekkert teboð, heldur er maðkétið mjöl á matseðlinum.
450 árum eftir siðaskiptin hefst þriðja trúarbylting Íslendinga, siðrofið, við klónun Sáms, hunds Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta.
Sámur í Brennu-Njálssögu gólaði Gunnari á Hlíðarenda til viðvörunar þegar hann var hogginn eins og Jón biskup, en örlög Sáms í dag birtast okkur þögul í krúttmynd á Instagram. Eins og íkon af fyrsta dýrðlingi nýs siðar.
Mitt í menningarstríðinu birtist okkur nýr skapari. Horfðu í spegil. Nei, ekki þú. Þú hefðir ekki efni á því að klóna Sám.
Nema þér hafi verið sagt upp hjá leikhúsinu fyrir framkomu.
Nýr Guð
Ef fyrri siður sagði okkur að Guð skapaði himinn og jörð, segir sá síðari okkur að við breytum himninum og jörðinni. Áður skapaði Guð dýrin, en nú stendur yfir fjöldaútrýming. Frá 1970 höfum við þurrkað út 60% dýralífs á jörðinni, og þess í stað sett búfénað sem við drottnum yfir.
Sárt ertu leikinn. Og skammt verður okkar á milli.
Mannfólkið, eða það sem hefur efni á því, er löngu farið að skapa sína eigin meðhjálp.
Guð skapaði ekki sjálfsafgreiðslukassana í Krónunni. Hann skrifar ekki kóða. Hann ákvarðar ekki algóriþmann í flæðinu á Facebook. Stærðarhagkvæmni drottnar yfir þér.
Í menningarstríðinu er barist um nýju boðorðin. Skaltu drýgja samfélagslega ábyrgð? Girnast kjarabætur og hlutdeild í hagnaði náunganna sem eignast framleiðslutækin? Heiðra atvinnurekanda, svo þú verðir langlíf(ur) á vinnumarkaði?
Allir verða ekki fæddir jafnir. Líkleg niðurstaða er að þau auðugustu muni ekki einungis klóna gæludýr sín, heldur einnig bestu börnin sín þegar tæknin býður upp á það.
Í gegnum alla pólitíska umræðu birtist þráðurinn, að við erum að spinna upp nýjan sið, hvort sem við vitum það eða ekki.
Þegar við losum okkur við alvaldan, alvitran og algóðan Guð, liggja sömu spurningar eftir: Hvar liggur valdið? Hvar liggur vitneskjan? Og hvernig verður gott og illt?
Frelsi og samþjöppun valds
Frekari tækniframfarir geta náttúrlega leitt til enn meiri samþjöppunar auðs og valds. Bæði sjálfvirknivæðing, gervigreind og klónun manna geta leitt af sér að þrepið milli þeirra sem eiga – fjármagn eða skalanleg tæki – og þeirra sem ekki eiga, verði óyfirstíganlegt. Séð enn lengra er líklegt að mannkynið skapi sig sjálft, en að ekki verði allir skapaðir jafnir. Það verði til ofurmannkyn. Vellauðugt fólk sem jafnvel aldrei deyr og eignast meira og meira.
Það er ekki víst að góður vilji geti unnið gegn því að valdasamþjöppun fari út yfir mörk þess afturkræfa. Reynslan sýnir okkur að brestir eru komnir í jafnvel rótgrónustu og öflugustu lýðræðisríki og framtíðarsýnin er sú að flokkseinræði í Kína verði stærsta efnahagssvæði landsins á næstu árum.
Þangað til getum við hin reynt allt sem okkur er fært til þess að styrkja einstaklingana og viðhalda frelsi þeirra andspænis samþjöppuðu valdi.
Samhliða siðrofinu og þriðju siðaskiptunum þurfum við að skapa tilgang okkar. Því við vorum ekki sköpuð af Guði í hans mynd. Konur voru ekki skapaðar í tilgangi hins kynsins. Og við erum ekki launþegar eða vinnuafl. Við getum tekið okkur það vald að skilgreina eigin tilgang, áður en einhver annar gerir það. Því það er frelsið.
---
Ári eftir andlát sitt opnar Ólafur Ragnar Grímsson dularfullt bréf frá sér til sín. Hann les, ritað í eigin handskrift: Ég er Guð. Þú ert Guð.
Athugasemdir