Hæstiréttur hefur staðfest dóm Landsréttar þess efnis að Barnaverndarstofa hafi mismunað Freyju Haraldsdóttur vegan fötlunar hennar. Barnaverndarstofa hafnaði árið 2015 umsókn Freyju um leyfi til til þess að taka barn í fóstur. Málið sem um ræðir snýr að því að Freyja taldi sig ekki hafa notið sömu málmeðferðar og aðrir við umsókn sína, sökum fötlunar. Henni var meðal annars neitað um að sækja námskeið sem verðandi fósturforeldrum er skylt að sækja.
Freyja stefndi Barnaverndarstofu af þessum sökum en Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Barnaverndarstofu í júní á síðasta ári. Freyja vildi ekki una þeim málalokum og skaut málinu til Landsréttar sem sneri dómi héraðsdóms við og dæmdi Freyju í vil í mars á þessu ári. Í dómi Landsréttar kemur meðal annars fram að sé gengið út frá því að fatlaður einstaklingur sé almennt ekki við góða heilsu, án þess að nánara mat fari fram á heilsufari hans, aðstöðu hans til að ala upp barn og þeirri aðstoð sem hann nýtur, sé verið að mismuna hinum fatlaða einstaklingi í samanburði við ófatlaðan einstakling.
Sem fyrr segir staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu Landsréttar nú í morgun. Niðurstaða Hæstaréttar snýr eingöngu að rétti Freyju til að fara í gegnum venjubundið matsferli til að meta hæfi hennar sem hugsanlegs fósturforeldris, en snýr ekki að umsókn Freyju um að gerast fósturforeldri.
Athugasemdir