„Forystumenn Eflingar hafa á þeim tíma sem liðinn er hagað sér gagnvart starfsmönnum eins og verstu atvinnurekendur. Þau hafa brotið öll mannleg siðalögmál í samskiptum við starfsmenn.“
Þetta skrifar Þráinn Hallgrímsson, fyrrverandi skrifstofustjóri Eflingar, í grein í Morgunblaðinu í dag. Þráni var sagt upp störfum eftir að Sólveig Anna Jónsdóttir var kjörinn formaður Eflingar vorið 2018.
Þráinn segir nýja forystu hafa afþakkað aðstoð fráfarandi forystu og í kjölfarið logið upp sökum á rótgróna starfsmenn til að losna við þá úr starfi. Hann segir að fjármálastjóri og bókari hafi báðar verið lagðar í einelti svo þeim yrði ókleift að starfa á vinnustaðnum. Starfsmenn hafi í kjölfarið glímt við veikindi.
„Það er alkunna að öllum byltingum fylgir ógnarstjórn meðan nýir valdhafar eru að ná tökum á stöðunni,“ skrifar Þráinn. „Hin „nýja stétt“ yfirmanna á Eflingu tamdi sér þann stjórnunarstíl að þeir sem andmæltu þeim eða reyndu að leiðbeina þeim féllu þegar í stað í ónáð. Annaðhvort var að hlýða yfirmönnum í einu og öllu eða taka pokann sinn.“
Loks lýsir hann því hvernig starfsmanni hafi verið sagt upp án fyrirvara og forystan hafi borið fyrir sig skipulagsbreytingum. „Mál fjögurra starfsmanna eru nú í meðferð lögmanna sem starfsmenn hafa þurft að útvega sér til að verja hagsmuni sína. Þá eru einnig fleiri starfsmenn í langtíma fjarvistum sem hafa hrakist burt af vinnustaðnum vegna framkomu stjórnenda,“ skrifar Þráinn.
Hann segir Sólveigu Önnu að líta sér nær þegar kemur að gagnrýni á hegðun atvinnurekenda. „Mín skoðun er sú að hin nýja stétt í forystu Eflingar stefni að því að hreinsa út alla starfsmenn og þekkingu sem kemur úr eldra umhverfi félagsins. Brottrekstur og langtímaveikindi reyndra starfsmanna hlýtur að segja til sín fyrr en síðar í þjónustu við félagsmenn.“
Athugasemdir