Nýtt sameinað fyrirtæki sjávarútvegsfyrirtækjanna Vísis hf. og Þorbjarnar hf. mundi eiga 9,77 prósent fiskveiðiheimilda í aflamarkskerfinu. Sameinað fyrirtæki yrði þannig það kvótamesta á landinu.
Vinna við sameiningu fyrirtækjanna er komin langt á leið, að því er Morgunblaðið greinir frá í dag. Fyrirtækin eru bæði í Grindavík og um 600 manns vinna samtals hjá þeim. „Nei, það er ekki hægt að segja að annar hvor aðilinn hafi átt frumkvæði að sameiningarviðræðum,“ segir Gunnar Tómasson hjá Þorbirni. „Þetta er hugmynd sem spratt af samtali fólks og svo hefur þetta mál þróast stig af stigi. Ég tel allar líkur á að dæmið gangi upp.“
Sameinað félag yrði með sterka stöðu, en til samanburðar má nefna að Brim, sem nú hefur mestar fiskveiðiheimildir íslenskra fyrirtækja, er með 9,43 prósent allra heimilda. „Bæði fyrirtækin standa ágætlega,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf. „Sameining væri þó hagur beggja, enda gætum við þannig öðlast meiri styrk til að nýta tækifærin og verkefnin sem eru fram undan í starfseminni.“
Athugasemdir