Sú yfirlýsing forsætisráðuneytisins að forræði á kröfugerð og framsetningu hennar í málum gegn ríkinu liggi hjá ríkislögmanni frekar en stjórnvaldinu sem bótakröfu er beint gegn gengur í berhögg við túlkun umboðsmanns Alþingis á lögum um ríkislögmann.
Eftir að fjallað var um varnir íslenska ríkisins vegna bótakröfu Guðjóns Skarphéðinssonar, eins hinna sýknuðu í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, á föstudag birtist yfirlýsing á vef stjórnarráðsins þar sem segir meðal annars: „Að gefnu tilefni vill forsætisráðuneytið árétta að ríkislögmaður annast vörn í einkamálum sem höfðuð eru gegn ríkinu og hefur almennt forræði á kröfugerð og framsetningu hennar.“
Þetta sjónarmið samrýmist ekki afstöðu umboðsmanns Alþingis sem fram kom í ábendingabréfi sem embættið sendi heilbrigðisráðherra árið 2014 vegna máls 7326/2013 þar sem deilt var um hlutverk ríkislögmanns og annarra stjórnvalda þegar bótakröfum er beint að ríkissjóði.
Að mati umboðsmanns Alþingis liggur ákvörðunarvald um hvort bótaskylda sé viðurkennd í einstökum tilvikum hjá því stjórnvaldi sem bótakröfu er beint að þótt ríkislögmaður kunni að veita stjórnvöldum ráðgjöf vegna slíkra mála.
Þá hafa stjórnvöld forræði á kröfugerð, röksemdum og ágreiningsatriðum þegar mál fara fyrir dómstóla og geta ákveðið hvaða málsástæður þau bera fyrir sig í slíkum málum. Er það æðsti handhafi stjórnsýsluvalds á hverju málefnasviði sem fer með ákvörðunarvald um þessa hagsmuni ríkisvaldsins.
Yfirstjórn embættis ríkislögmanns var flutt frá fjármálaráðherra til forsætisráðherra árið 1999. Í greinargerð frumvarps sem þá varð að lögum kemur fram að embætti ríkislögmanns sæki „fyrirmæli um rekstur máls til þess ráðherra, sem hverju sinni er í fyrirsvari fyrir ríkisvaldið“.
Athugasemdir