„Af hálfu stefnda [íslenska ríkisins] er öllum ávirðingum gagnvart lögreglu og dómstólum, svo og ásökunum um meinta refsiverða háttsemi lögreglu, ákæruvalds og dómstóla [...] hafnað, enda ósannaðar með öllu.“
Þessi orð birtast í greinargerð sem lögð var fram fyrir hönd íslenska ríkisins í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær vegna bótakrafna Guðjóns Skarphéðinssonar, eins sakborninganna í Guðmundar- og Geirfinnsmálum sem sýknaðir voru í Hæstarétti í fyrra og í kjölfarið beðnir afsökunar af forsætisráðherra á því ranglæti sem þeir máttu þola.
Sá sami og ber ábyrgð á greinargerðinni og þeirri hörðu afstöðu sem þar er tekin gagnvart Guðjóni, Andri Árnason, hafði samband við hina sýknuðu og aðstandendur þeirra fyrir hönd forsætisráðuneytisins í vor „til að skoða tiltekna sáttamöguleika fyrir ráðuneytið“ eins og hann orðaði það í tölvupósti til eins þeirra.
„Andri vildi sem sagt hringja og „spjalla“ eitthvað. Já, nei takk. Ég bauð honum að senda mér bara formlega erindið sitt og ég hef ekki heyrt í honum eftir það. Þá lét ég ráðuneytið vita að mér hugnaðist slík samskipti ekki,“ segir Hafþór Sævarsson, sonur Sævars Ciesielski, eins hinna sýknuðu.
Eins og fram kemur í ítarlegri umfjöllun Aðalheiðar Ámundadóttur í Fréttablaðinu í dag hefur settur ríkislögmaður skilað greinargerð þar sem málatilbúnaði Guðjóns er hafnað með öllu, þess krafist að ríkið verði sýknað af bótakröfunum og fullyrt að Guðjón hafi sjálfur stuðlað að þeim aðgerðum sem kröfurnar snúast um. Í greinargerðinni er vísað til málsatvika eins og þeim er lýst í sakfellingardómi Hæstaréttar frá 1980, en ríkislögmaður telur þann dóm hafa sönnunargildi um málsatvik í ljósi þess að sýknudómur Hæstaréttar frá því í fyrra fjallaði ekkert um þau. Þá hafnar ríkislögmaður því að Guðjón hafi verið beittur ólögmætri þvingun eða harðræði á sínum tíma og telur mat Gísla Guðjónssonar, réttarsálfræðings sem taldi játningar Guðjóns falskar og fengnar fram með þvingunum, ekki hafa vægi. Guðjón eigi sjálfur átt sök á því að hann var ranglega dæmdur.
„Öll merki falskrar játningar“
Þessar nýjustu vendingar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum hafa vakið hörð viðbrögð í dag. Haft er eftir Ragnari Aðalsteinssyni, lögmanni Guðjóns, að ríkisstjórnin ætli sér að „komast upp með dómsmorðin án nokkurra afleiðinga fyrir ríkið og af fullkomnu ábyrgðarleysi“.
Samkvæmt skýrslu starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmál frá 2013 var Guðjón einangrunarvistaður í Síðumúlafangelsi árið 1976 samfellt í 420 daga og yfirheyrður minnst 75 sinnum í minnst 160 klukkustundir. Dæmi eru um að hann hafi verið yfirheyrður 10 til 11 klukkustundir á dag. „Eftir að hafa farið vandlega yfir gögn þau er liggja til grundvallar þessari skýrslu þá teljum við það hafið yfir allan skynsamlegan vafa, að framburðir Guðjóns í Geirfinnsmálinu, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, voru óáreiðanlegir. Í raun ber framburður Guðjóns í Geirfinnsmálinu og það að hann játaði þátttöku í málinu öll merki falskrar játningar,“ segir í skýrslunni, þess hluta hennar er byggir á ítarlegu sálfræðimati Gísla H. Guðjónssonar og Jóns Friðriks Sigurðssonar.
Í úrskurði endurupptökunefndar frá 2015 kemur fram að rannsóknarlögreglumaður hafi rætt við Guðjón löngum stundum og spurt leiðandi spurninga. Mikill þrýstingur hafi verið settur á hann að játa sök og ljóst sé að Hæstiréttur hafi á sínum tíma ekki látið hann njóta þess réttmæta vafa sem var til staðar um áreiðanleika játninga hans. Er þetta lagt til grundvallar í sýknudómi Hæstaréttar frá því í fyrra, en þar er þó ekki fjallað beint um málsatvik og það harðræði sem sakborningar voru beittir.
Framsetningin á forræði ríkislögmanns
Forsætisráðuneytið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem er áréttað að málatilbúnaður ríkislögmanns sé á ábyrgð embættisins: „Ríkislögmaður annast vörn í einkamálum sem höfðuð eru gegn ríkinu og hefur almennt forræði á kröfugerð og framsetningu hennar.“ Þá kemur fram að settur ríkislögmaður, Andri Árnason, hafi „átt í viðræðum og leitað sátta við aðila máls“.
Forsætisráðuneytið óskaði eftir því við Andra, með bréfi 26. október 2018, að hann hefði samband við hina sýknuðu og niðja þeirra og kannaði grundvöll sátta. Þar hefur hann gegnt hlutverki á vegum ráðuneytisins sjálfs en ekki ríkislögmanns.
Hafþór Sævarsson, sonur Sævars Ciesielski, hefur gagnrýnt að þessi samskipti hafi farið fram með óformlegum hætti. Hann greinir frá því á Facebook að hann hafi afþakkað þau. „Ég bað um formleg samskipti við Andra í embættisstörfum sínum en fékk það aldrei í gegn,“ skrifar hann.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra baðst afsökunar á ranglætinu sem sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum máttu þola eftir að Hæstiréttur kvað upp sýknudóminn í fyrra.
„Ég hef aldrei fengið svar við spurningu minni um hvað var eiginlega forsætisráðherra að biðjast fyrirgefningar á. Veit það einhver? Ég held þau vilji ekki einu sinni hugsa þá hugsun til enda,“ skrifar Hafþór.
„Málið er nú fyrst og fremst í höndum setts ríkislögmanns. Hann er að undirbúa greinargerð í máli sem Ragnar Aðalsteinsson lögmaður hefur höfðað fyrir hönd Guðjóns Skarphéðinssonar,“ segir í tilkynningu á vef forsætisráðuneytisins. „Af hálfu stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á að ríkið væri tilbúið að semja um sanngjarnar bætur til þeirra sem sýknaðir voru og aðstandenda þeirra sem fallnir eru frá og afla til þess viðeigandi lagaheimildar. Ríkisstjórnin mun halda áfram athugun á slíkri lausn, sem aðilar gætu verið sáttir við.“
Athugasemdir