„Ég vil biðla til fólks að hjálpa okkur og fjarlægja þessa miða ef það gengur fram á þá í strætóskýlum, tímatöflum eða á vögnum,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, í samtali við Stundina.
Undanfarna daga hafa nýnasistasamtök dreift áróðursefni um borgina og fest límmiða með merki samtakanna á ljósastaura. Eins og Stundin hefur greint frá í samstarfi við sænska fjölmiðilinn Expo gerðu sænskir, norskir og danskir nýnasistar sér ferð til Íslands nú í byrjun mánaðar í þeim tilgangi að efla starfsemi Norðurvígis, íslensks arms Norrænu mótstöðu-hreyfingarinnar. Einn þeirra er leiðtogi hreyfingarinnar, hinn sænski Simon Lindberg sem hefur fengið dóm fyrir hatursglæp og ofbeldi gegn samkynhneigðum.
Stundin ræddi við Guðmund Heiðar í dag eftir að hann hafði þurft að kroppa Norðurvígislímmiða af strætisvagni, einum þeirra vagna sem er með klæðningu í anda hinsegindaga. „Klæðningin hefur kannski farið eitthvað fyrir brjóstið á þeim,“ segir hann og hvetur þjónustuþega strætó og aðra til að fjarlægja og kasta í ruslið hvers kyns nasistaáróðri sem verður á vegi þeirra.
Athugasemdir