Fyrirtækin sem reka álverin þrjú á Íslandi hafa ekki styrkt Orkuna okkar, samtökin sem berjast gegn innleiðingu þriðja orkupakkans. Sem aðilar að Samtökum iðnaðarins hafa fyrirtækin stutt innleiðingu orkupakkans. Þetta kemur fram í svörum þeirra við fyrirspurn Stundarinnar.
Orkan okkar reiðir sig á frjáls framlög frá stuðningsfólki samkvæmt vefsíðu samtakanna. Ekki hefur verið gefið upp að öðru leyti hvernig starfsemi þeirra og kaup á auglýsingum eru fjármögnuð.
Í svari Rio Tinto, sem rekur álverið í Straumsvík, kemur fram að fyrirtækið hafi ekki styrkt Orkuna okkar. Fyrirtækið styrkir ekki neina pólitíska starfsemi, að sögn Bjarna Más Gylfasonar, upplýsingafulltrúa Rio Tinto.
Alcoa Fjarðaál, sem rekur álverið á Reyðarfirði, hefur heldur ekki styrkt samtökin. „Styrkjastefna okkar hverfist um að styðja við verkefni í heimabyggð,“ segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa.
Í svari Sólveigar Kr. Bergmann, upplýsingafulltrúa Norðuráls, sem rekur álverið á Grundartanga, kemur fram að fyrirtækið hafi heldur ekki styrkt samtökin og jafnframt bent á að Norðurál standi að baki afstöðu Samtaka iðnaðarins í stuðningi við orkupakkann.
Í umsögn Samtaka iðnaðarins til Alþingis vegna þriðja orkupakkans kemur fram að samtökin styðji innleiðingu orkupakkans, en vilja ekki að Ísland tengist raforkukerfi Evrópu með sæstreng. „Þó svo að þriðji orkupakkinn hafi ekki með lagningu sæstrengs að gera þá ítrekast almennt að slík framkvæmd samræmist ekki raforkustefnu SI eða hagsmunum aðildarfyrirtækja samtakanna,“ segir í umsögninni.
Athugasemdir