„Forseta Ísland er nú boðið að leika hlutverk hins hugprúða riddara af la Mancha í orrustu gegn vindmyllu,“ skrifar Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, í bloggfærslu í dag. Vísar hann þar til áskorunar samtakanna Orkunnar okkar til Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, um að staðfesta ekki upptöku þriðja orkupakkans inn í EES-samninginn.
Indriði segir að forveri Guðna, Ólafur Ragnar Grímsson, hafi með slíkri baráttu lengt lífdaga sína í embætti og „slegið um tíma bjarma á hnignandi frægðarsól“. Tvær þjóðaratkvæðagreiðslur voru haldnar um Icesave samningana eftir að Ólafur Ragnar synjaði lögum um þá staðfestingar. Indriði hafði verið einn samningamanna um Icesave og aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra.
„Með framgöngu sinni lagði hann að velli illa Icesave samninga,“ skrifar Indriði um Ólaf Ragnar. „Samkvæmt þeim átti þrotabú Landsbanka Íslands að greiða enskum og hollenskum sparifjareigendum allar tryggðar innstæður auk þess að greiða vexti til þeirra sem lögðu til fjármagnið.
Þökk sé hetjulegri framgöngu voru samningar ekki gerðir en engu að síður greiddi þrotabú Landsbanka Íslands enskum og hollenskum sparifjareigendum allar tryggðar innstæður þeirra. Auk þess greiddi þrotabúið og fjármálaráðuneytið 53,5 milljarða til þeirra sem lögðu til fjármagnið.“
Tengir Indriði málið við hugsanlega þjóðaratkvæðagreiðslu nú vegna þriðja orkupakkans. „Glæstur árangur af orrustu við vindmyllu. Er hlutverk hins hugprúða riddara í þeirri sem yfir stendur ekki nægilega vel skipað?“
Athugasemdir