Eigendur stærstu útgerðarfyrirtækja á Íslandi græddu hundruð milljóna í formi söluhagnaðar og arðgreiðslna í fyrra. Þetta sýnir álagningarskrá ríkisskattstjóra sem gerð var aðgengileg í morgun. Stundin tók saman tekjur þeirra einstaklinga sem áttu stærsta hlutdeild í útgerðarfyrirtækjunum sem hafa yfir mestum aflahlutdeildum að ráða í fyrra, en sjá má tíu tekjuhæstu í töflunni hér að neðan.
Kristján Loftsson, oft kenndur við Hval hf., fékk fjármagnstekjur upp á 160 milljónir, en þetta skýrist meðal annars af sölu á hlut hans í HB Granda, stærsta útgerðarfélagi landsins.
Guðmundur Kristjánsson í Brimi, sem keypti hlut í HB Granda fyrir 21,7 milljarða í fyrra, var með mánaðarlaun upp á 3,1 milljón en aðeins 624 þúsund krónur í fjármagnstekjur.
Á meðal útgerðareigenda sem höfðu áberandi miklar fjármagnstekjur eru þrír stærstu eigendur Skinneyjar Þinganess, þeir Ingvaldur Ásgeirsson, Gunnar Ásgeirsson og Ingólfur Ásgrímsson. Ingvaldur og Gunnar voru hvor um sig með 194 milljónir króna í heildarárstekjur og Ingólfur með 148 milljónir.
Nafn | Fyrirtæki | Fjármagnstekjur | Almennar mánaðartekjur | Heildarárstekjur |
---|---|---|---|---|
Kristján Vilhelmsson | Samherji | 463.681.582* | 2.064.412 | 488.454.529* |
Kristján Loftsson | Hvalur hf. | 159.864.527 | 5.200.157 | 222.266.414 |
Ingvaldur Ásgeirsson | Skinney Þinganes | 186.660.395 | 632.765 | 194.253.570 |
Gunnar Ásgeirsson | Skinney Þinganes | 160.357.236 | 2.819.007 | 194.185.315 |
Ingólfur Ásgrímsson | Skinney Þinganes | 136.241.682 | 1.043.854 | 148.767.935 |
Þorsteinn Már Baldvinsson | Samherji | 50.836.164 | 3.904.044 | 97.684.690 |
Jakob Valgeir Flosason | Jakob Valgeir ehf. | 75.786.882 | 1.734.000 | 96.594.885 |
Ingi J. Guðmundsson | Gjögur / Síldarvinnslan | 45.086.705 | 3.906.226 | 91.961.420 |
Anna Guðmundsdóttir | Gjögur / Síldarvinnslan | 52.424.709 | 3.254.124 | 91.474.199 |
Birna Loftsdóttir | Hvalur hf. | 76.967.873 | 943.131 | 88.285.448 |
Skilaði ekki skattframtölum og vantaldi milljarða
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og hinn aðaleigandi útgerðarveldisins, græddi 50 milljónir í fjármagnstekjur í fyrra og var með 4 milljónir í laun á mánuði. Kristján Vilhelmsson, annar af aðaleigendum Samherja, greiddi hins vegar 102 milljónir króna í fjármagnstekjuskatt og virðist þannig, við fyrstu sýn, hafa fengið 464 milljónir króna í fjármagnstekjur.
Hafa verður í huga að síðla árs 2017 komst yfirskattanefnd að þeirri niðurstöðu að Kristján þyrfti að borga endurákvarðaða skatta með 25 prósenta álagi vegna skattalagabrota, en Kristján hafði ekki skilað skattframtölum um árabil og vantalið milljarða. Kann þetta að hafa haft áhrif á skattgreiðslur hans í fyrra.
Græddi á sölu Icelandic Iberica
Útgerðarmaðurinn Jakob Valgeir Flosason var með fjármagnstekjur upp á 75,7 milljónir króna. Jakob var á meðal þeirra sem græddu umtalsvert á sölu spænska fyrirtækisins Icelandic Iberica til Icelandic Seafood International síðasta sumar. Viðskiptablaðið fjallaði um söluna og greindi frá því að fjárfestahópurinn sem keypti Icelandic Iberica árið 2016 fengi nær sjö milljörðum meira fyrir fyrirtækið en þeir lögðu til þegar það var keypt.
Aðrir í hópi tekjuhæstu útgerðareigenda landsins eru systkinin Ingi Jóhann Guðmundsson og Anna Guðmundsdóttir, hvort um sig með heildarárstekjur upp á rúmlega 90 milljónir króna.
Ingi og Anna eru stærstu eigendur útgerðarfyrirtækisins Gjögurs og jafnframt stærstu eigendur Kjálkaness ehf. sem á 34 prósenta hlut í Síldarvinnslunni. Hagnaður Gjögurs nam 517 milljónum króna í fyrra, nær tvöfaldaðist, en fyrirtækið seldi meðal annars rekstrarfjármuni og kvóta fyrir meira en milljarð.
Athugasemdir